[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rannveig Gunnarsdóttir er fædd 18. nóvember í Stokkhólmi en flutti þaðan 6 mánaða þegar faðir hennar lauk námi. „Ég ólst upp í Reykjavík og hef búið þar utan tveggja ára þegar ég var við framhaldsnám í London.

Rannveig Gunnarsdóttir er fædd 18. nóvember í Stokkhólmi en flutti þaðan 6 mánaða þegar faðir hennar lauk námi. „Ég ólst upp í Reykjavík og hef búið þar utan tveggja ára þegar ég var við framhaldsnám í London. Ég var tvö ár í sveit í Svarfaðardalnum og vann ýmsa sumarvinnu m.a. í fiski, á sumarhóteli hér heima, á heilsuhæli í Danmörku og á rannsóknarstofu í Sápugerðinni Frigg.

Rannveig gekk í Réttarholtsskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. 1969. „Þar kynntist ég manninum mínum, Tryggva Pálssyni. Við horfum til gullbrúðkaups næsta haust.“

Í sérnámi Rannveigar kláraði hún fyrri hluta lyfjafræði í HÍ og M.Sc. Biopharmacy frá Chelsea College (London University). „Lærdómsríkt var að starfa með námi á Middlesex-sjúkrahúsinu í London. Ég hef verið iðin í símenntun og lauk m.a. diplóma í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu og diplóma í opinberri stjórnsýslu. Hugur minn stóð alltaf til þess að verða klínískur lyfjafræðingur. Áður en ég var ráðin í lyfjabúr Landspítalans haustið 1976 sem fyrsti menntaði sjúkrahúslyfjafræðingurinn hafði ég tækifæri til að kynna mér nokkur sjúkrahúsapótek í tveggja mánaða dvöl á Norðurlöndunum. Ég er stolt af því að hafa skipulagt og þróað fyrsta sjúkrahúsapótekið á Íslandi og síðar stýrt því.

Þegar ég lít yfir starfsferil minn þá má segja að hann einkennist af breytingastjórnun og uppbyggingu.“ Á árinu 1995 gegndi Rannveig starfi sem settur skrifstofustjóri í lyfjamáladeild heilbrigðisráðuneytisins þar til hún var skipuð framkvæmdastjóri lyfjanefndar ríkisins. Þetta var á þeim tímum þegar Ísland varð að uppfæra upplýsingar um öll lyf á markaði vegna Evrópulöggjafarinnar. Svo var Rannveig skipuð forstjóri Lyfjastofnunar október 2000 þegar lyfjanefnd ríkisins og lyfjaeftirlit ríkisins voru sameinuð. „Þá tók við krefjandi sameining og uppbygging stofnunarinnar og þátttaka okkar í helstu sérfræðinefndum Lyfjastofnunar Evrópu. Við réðum innlenda og erlenda sérfræðinga til Lyfjastofnunar sem gerði Íslandi kleift að taka virkan þátt í mati á nýjum lyfjum. Þetta samstarf var til hagsbóta fyrir innlendan lyfjaiðnað og veitti íslenskum sérfræðingum aðgang að þekkingu og helstu sérfæðingum á Evrópska efnahagssvæðinu í lyfjamálum. Á 15 árum þrefaldaðist fjöldi starfsmanna og tekjur stofnunarinnar sjöfölduðust.“

Frá því að Rannveig lauk störfum sem forstjóri Lyfjastofnunar hefur hún m.a. tekið að sér ráðgjafarverkefni í Noregi og á Íslandi á vegum Evrópusambandsins og frá 2018 hefur hún verið í fagráði Rannís. „Til ánægjuauka bætti ég við námi í leiðsögn og var fróðlegt að sjá hversu mikil nýtt hefur komið fram í jarðfræði og sögu lands og þjóðar frá skólaárunum.“

Rannveig hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum og var í stjórn Stéttarfélags lyfjafræðinga og samtaka norrænna lyfjafræðinga. „Ánægjulegt var að taka þátt í stofnun Rótarýklúbbsins Reykjavík Miðborg og gegna embættum ritara og forseta. Í tvo áratugi höfum við hjónin gengið um landið og farið í ferðir með gönguhópi klúbbsins. Tengt Rótarý höfum við líka m.a. tekið þátt í stíflugerð og bólusetningu við lömunarveiki á Indlandi. Ég hef verið meðlimur í kvennasamtökunum Leiðtoga-Auður og Exedra.

Áhugamálin eru fjölmörg og nú gefst betri tími til að sinna þeim. Um skeið vorum við með hesta en golfið hefur tekið við ásamt ferðalögum, veiði og samvera á Snæfellsnesi þar sem við erum með aðstöðu ásamt vinum okkar. Dýrmætasta áhugamálið í dag er þó að sinna og vera með barnabörnum okkar og fjölskyldu.“

Fjölskylda

Eiginmaður Rannveigar er Tryggvi Pálsson, f. 28.2. 1949, hagfræðingur og fyrrverandi bankastjóri. Foreldrar hans voru hjónin Páll Ásgeir Tryggvason, f. 19.2. 1922, d. 1.9. 2011, sendiherra, og Björg Ásgeirsdóttur, f, 22.2. 1925, d. 7.8. 1996, sendiherrafrú. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Rannveigar og Tryggva eru Gunnar Páll, f. 9.12. 1977, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, búsettur í Reykjavík. Maki: Karen Axelsdóttir, viðskiptafræðingur og þjálfari. Börn: Tryggvi, f. 2001, Laufey, f. 2003, og Birna Rannveig, f. 2016; 2) Sólveig Lísa, f. 24.3. 1980, arkitekt, búsett í Garðabæ. Maki: Guðmundur Gísli Ingólfsson lögfræðingur. Börn: Emma Lovísa, f. 2011, Klara Sigrid, f. 2013, og Anna Erika, f. 2016.

Bræður Rannveigar: Árni Gunnarsson, f. 18.8. 1948, verkfræðingur, búsettur í Reykjavík; Björn Gunnarsson, f. 29.9. 1951, 1951, d. í maí 2006, viðskiptafræðingur; Sigurjón Gunnarsson, f. 15.4. 1954, tölvunarfræðingur, búsettur í Kópavogi; Gunnar Örn Gunnarsson, f. 14.1. 1958, verkfræðingur, búsettur á Seltjarnarnesi; Halldór Gunnarsson, f. 8.1. 1962, kvikmyndatökumaður, búsettur í Svíþjóð; Þórarinn Gunnarsson, f. 29.1. 1964, verslunarmaður, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Rannveigar voru hjónin Gunnar Kristján Björnsson, f. 20.1. 1924, d. 26.2. 2009, efnaverkfræðingur, og Lovísa Hafberg Björnsson, f. 27.2. 1925, d. 21.5. 2013, húsfreyja. Þau voru búsett í Reykjavík.