— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Staða útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins er laus til umsóknar og er umsóknarfrestur til og með 2. desember. Embættið hefur lengi þótt virðulegt og útvarpsstjóri verið áhrifamikill og áberandi í þjóðlífinu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Staða útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins er laus til umsóknar og er umsóknarfrestur til og með 2. desember. Embættið hefur lengi þótt virðulegt og útvarpsstjóri verið áhrifamikill og áberandi í þjóðlífinu. Í auglýsingu segir að útvarpsstjóri hafi það hlutverk að framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna.

Í 89 ára sögu Ríkisútvarpsins hafa einungis sjö einstaklingar verið skipaðir eða ráðnir sem útvarpsstjórar, þar af einn tvívegis. Tveir til viðbótar voru settir útvarpsstjórar tímabundið. Allt voru þetta karlar. Magnús Geir Þórðarson lét af starfi útvarpsstjóra föstudaginn 15. nóvember. Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. ákvað að ráða Margréti Magnúsdóttur, skrifstofustjóra RÚV, sem starfandi útvarpsstjóra þar til nýr verður ráðinn.

Með reynslu af blaðamennsku

Ríkisútvarpið hóf útsendingar 20. desember 1930. Fyrsti útvarpsstjóri var Jónas Þorbergsson, kennari og ritstjóri, sem einnig var alþingismaður Framsóknarflokksins 1931-1933. Sent var út á einni útvarpsrás í nokkrar klukkustundir á hverju kvöldi. Jónas gegndi embætti útvarpsstjóra til ársins 1953. Sigurður Þórðarson var settur útvarpsstjóri á árunum 1950 til 1952.

Vilhjálmur Þ. Gíslason tók við sem útvarpsstjóri árið 1953 og gegndi embættinu til ársins 1967. Hann nam norræn fræði og starfað sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður í útvarpinu við upphaf þess. Einnig var hann lengi skólastjóri Verzlunarskóla Íslands áður en hann varð útvarpsstjóri. Vilhjálmur var útvarpsstjóri þegar Ríkissjónvarpið hóf útsendingar hinn 30. september 1966 og flutti sjónvarpsávarp af því tilefni.

Andrés Björnsson, íslenskufræðingur, háskólakennari, þýðandi, rithöfundur og ljóðskáld, tók við sem útvarpsstjóri árið 1968. Hann hafði starfað í breska upplýsingaráðinu áður en hann hóf störf á Ríkisútvarpinu 1944. Andrés sótti námskeið í útvarps- og sjónvarpsfræðum við Bostonháskóla árið 1956. Hann var skrifstofustjóri útvarpsráðs um tíma og skipaður dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins 1958-1967. Andrés lét af embætti árið 1984.

Markús Örn Antonsson gegndi embætti útvarpsstjóra tvívegis, fyrst árin 1985 til 1991 og síðar 1998 til 2005. Hann hafði starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu, dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu og var í hópi fyrstu fréttamanna Sjónvarpsins. Einnig var hann borgarfulltrúi í Reykjavík og forseti borgarstjórnar áður en hann tók við embættinu. Eftir að hann lét af embætti í fyrra sinnið varð hann borgarstjóri Reykjavíkur. Eftir að hann lét af embætti útvarpstjóra í seinna skiptið varð hann sendiherra Íslands í Kanada og forstöðumaður Þjóðmenningarhúss.

Séra Heimir Steinsson, prestur, skólastjóri og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, var útvarpsstjóri á árunum 1991 til 1996. Pétur Guðfinnsson var settur útvarpsstjóri 1996 til 1997 að Markús Örn tók aftur við embættinu.

Páll Magnússon, nú alþingismaður, var útvarpsstjóri frá árinu 2005 til 2013. Hann átti að baki langa reynslu úr fjölmiðlum. Páll var m.a. fréttastjóri á Tímanum, fréttamaður hjá RÚV sjónvarpi og aðstoðarfréttastjóri þar. Þá var hann fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar og framkvæmdastjóri hjá Stöð 2. Einnig var hann forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins og sjónvarpsstjóri Sýnar. Í útvarpsstjóratíð Páls var Ríkisútvarpinu breytt í opinbert hlutafélag (ohf.) árið 2007.

Magnús Geir Þórðarson var ráðinn útvarpsstjóri 2014 og hefur nú látið af því starfi. Hann lauk meistaranámi í leikhúsfræðum og MBA-námi. Magnús var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og síðar Borgarleikhússins þar til hann tók við starfi útvarpsstjóra. Hann hefur verið skipaður þjóðleikhússtjóri frá næstu áramótum.