Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Skammarlegt er að þessi sala skyldi snúast upp í pólitískan skrípaleik."

Tímabært er að bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði leggi á hilluna vitlausa hugmynd um Sprengisandsveg og kynni sér enn betur þörfina á nýrri brú yfir Lagarfljót milli Egilsstaða og Fellabæjar. Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og allir þingmenn Norðausturkjördæmis áttu að svara því fyrir löngu, hvort það sé verjandi að umferð flutningabifreiða haldi áfram að aukast um gömlu brúna, sem þolir ekki þungaflutningana. Fyrir Egilsstaðabúa og Héraðsmenn væri skynsamlegra að snúa sér strax að þessu samgöngumannvirki á hringveginum sem þolir enga bið í stað þess að halda til streitu kröfunni, um vel uppbyggðan og hindrunarlausan Axarveg í 530 m hæð á snjóþungu og illviðrasömu svæði. Fullvíst þykir að þessi vegur sé ekki í sjónmáli næstu þrjá áratugina, þegar það fréttist að ríkissjóður og Vegagerðin festast um ókomin ár í fjármögnunargildru Vaðlaheiðarganga sem Steingrímur J. blekkti Alþingi til að samþykkja sumarið 2012.

Fram kemur í úttekt sem gerð var á burðarþoli gömlu brúarinnar yfir Lagarfljót að álagið á henni sé nú komið að ystu þolmörkum. Ólíðandi er að enginn skyldi bregðast strax við þessu vandamáli, í tíð Sturlu Böðvarssonar, þáverandi samgönguráðherra, sem kynnti á blaðamannafundi í febrúar árið 2000 Jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar sem eitt forgangsverkefni fyrir Vestfirði, Norður- og Austurland. Sölu ríkiseigna sem ætlað var að fjármagna samgöngumannvirkin í þessum þremur landshlutum hefði líka mátt nota til að flýta framkvæmdum við nýja Lagarfljótsbrú. Skammarlegt er að þessi sala skyldi snúast upp í pólitískan skrípaleik þegar efasemdir komu fram um arðsemismat Héðinsfjarðarganga. Margir fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra og vestra, sem vörðu þessi umdeildu jarðgöng norðan Dalvíkurbyggðar fyrir kjördæmabreytinguna, eiga nú mörgum spurningum ósvarað, eftir að hafa barist gegn þingsályktunartillögu Arnbjargar Sveinsdóttur um að næstu jarðgöng yrðu milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Óánægju sinni leyndu þeir ekki þegar meirihlutinn á Alþingi samþykkti í febrúar 1999 að þessi jarðgöng yrðu tekin á undan Héðinsfjarðargöngum við litla hrifningu sveitarstjórnar Djúpavogs, sem sakaði þingmenn Austfirðinga um að hafa stolið fjármagninu frá Öxi. Óhjákvæmilegt er vegna slysahættunnar sem eykst alltof mikið á gömlu Lagarfljótsbrúnni að afskrifa næstu tvo áratugina ótímabær loforð sem upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar gefur Djúpavogsbúum um hindrunarlausan heilsársveg yfir Öxi eftir að meirihluti alþingismanna samþykkti að ráðist yrði í tilraunaboranir á jarðgöngum til Seyðisfjarðar. Fyrrverandi þingmenn Norðausturkjördæmis, Tryggvi Þór Herbertsson og Þuríður Backman, sem gengu erinda Eyfirðinga og sneru baki við Seyðfirðingum, hefðu í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur frekar átt að kynna sér slysahættuna á gömlu Lagarfljótsbrúnni, í stað þess að verja svikamyllu Vaðlaheiðarganga og stofna til illinda við Húnvetninga og Skagfirðinga, með þingsályktunartillögunni um að leiða umferðina á hringveginum fram hjá Blönduósi og Varmahlíð í óþökk heimamanna. Sem betur fer hefur Vegagerðin horfið frá þeirri vitleysu til að auðveldara verði að flýta framkvæmdum við tvíbreiðar brýr á þjóðvegi 1, sem hefði átt að bjóða út á undan Héðinsfjarðargöngum.

Of lengi hafa bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði og sveitarstjórn Djúpavogs komist upp með að tefla Axarvegi og Sprengisandsvegi á eldvirku svæði gegn þarfari verkefnum á hringveginum sem hafa alltof lengi setið á hakanum. Um tvennt stendur valið til þess að ákvörðun um nýja Lagarfljótsbrú tefjist ekki meir en orðið er. Á síðasta ári áttu allir þingmenn Norðausturkjördæmis að flytja tillögu um að framkvæmdir við þessa brú yrðu boðnar út hið snarasta til að flýta vinnu við þetta samgöngumannvirki fyrr á þessu ári. Strax að loknum alþingiskosningum 2013 átti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra og fyrsti maður á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, að flytja þingsályktunartillögu um að framkvæmdir við nýja Lagarfljótsbrú hefðu forgang á undan Vaðlaheiðargöngum vegna of mikils álags sem gamla búin þolir ekki. Vegna slysahættunnar skal ríkisstjórnin strax taka ákvörðun um nýja Lagarfljótsbrú.

Höfundur er farandverkamaður.