Stórskytta Ekki veitir af að gæta Birkis Benediktssonar en hér reyna þrír ÍR-ingar að halda aftur af honum.
Stórskytta Ekki veitir af að gæta Birkis Benediktssonar en hér reyna þrír ÍR-ingar að halda aftur af honum. — Morgunblaðið/Hari
Á Selfossi Í Mosfellsbæ Guðmundur Karl Ívar Benediktsson Íslandsmeistarar Selfoss unnu öruggan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta á heimavelli sínum í Iðu á Selfossi í gærkvöldi, 30:24.

Á Selfossi

Í Mosfellsbæ

Guðmundur Karl

Ívar Benediktsson

Íslandsmeistarar Selfoss unnu öruggan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta á heimavelli sínum í Iðu á Selfossi í gærkvöldi, 30:24. Leikurinn var jafn fyrstu 45 mínúturnar en þá hrönnuðust upp mistökin hjá Fram og meistararnir áttu ekki í neinum vandræðum með að refsa þeim.

Selfyssingar urðu fyrir miklu áfalli eftir tíu mínútna leik þegar Árni Steinn Steinþórsson fór meiddur af velli. Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, þurfti að breyta uppstillingu liðsins talsvert við þetta, bæði í vörn og sókn, og ábyrgðin fór á herðar ungra leikmanna. Þeir stóðu fyllilega undir því, til dæmis Reynir Freyr Sveinsson sem stóð sig vel í vörninni og enn betur í sókninni. Hann kann auk þess þá list að kynda upp í stuðningsmönnum liðsins.

Haukur Þrastarson skoraði sjö af átta mörkum sínum í fyrri hálfleik en Framarar reyndu að klippa hann út í seinni hálfleik. Þá tók Hergeir Grímsson við kyndlinum og var duglegur bæði að skora og finna Atla Ævar Ingólfsson inni á línunni. Hergeir átti frábæran leik í vörn og sókn. Staðan var 17:15 í leikhléi og Framarar náðu að jafna 18:18 í upphafi seinni hálfleiks. Þeir fengu eitt tækifæri til þess að komast yfir en tókst það ekki og eftir það gáfu Selfyssingar ekki fleiri færi á sér og kláruðu leikinn vel.

Andri Heimir Friðriksson var atkvæðamestur Framara í sóknarleiknum, en eins og félagar hans gerði hann sig sekan um mörg mistök. Stefán Darri Þórsson var sterkur í vörninni en varnarleikur Fram var óagaður á köflum.

Kaflaskipt jafntefli

Liðin í öðru og þriðja sæti Olís-deildar karla, Afturelding og ÍR, gerðu jafntefli þegar þau leiddu saman hesta sína á Varmá í Mosfellsbæ á laugardagskvöldið, 31:31. Afturelding var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:16. Staða liðanna tveggja er óbreytt í deildinni. Afturelding heldur öðru sæti, nú með 15 stig og þremur á eftir Haukum. ÍR er í 3. sæti með 13 stig.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur og Mosfellingar með yfirhöndina lengst af. Þeim tókst hins vegar aldrei að hrista af sér baráttuglaða leikmenn ÍR-liðsins. Afturelding náði nokkrum sinnum fjögurra marka forskoti, bæði í fyrri hálfleik og í þeim síðari. Það dugði skammt því þegar ÍR-ingar náðu sér á strik léku þeir við hvern sinn fingur í sóknarleiknum svo ekki stóð steinn yfir steini í varnarleik Aftureldingar. Reyndar var varnarleikur ÍR-liðsins heldur ekki burðugur lengi vel. Markverður beggja liða náðu sér hins vegar vel á strik. Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður ÍR, varði 18 skot, mörg hver á mikilvægum tíma undir lokin þegar Aftureldingarmenn freistuðu þess að ná frumkvæði í leiknum á nýjan leik. Arnór Freyr Stefánsson varði vel í marki Aftureldingar og var ekki öfundsverður af hlutverki sínu fyrir framan vörnina, sem var óvenjudöpur. Arnór Freyr varði boltann 13 sinnum.

Sennilega eru leikmenn Aftureldingar vonsviknari með úrslit leiksins en ÍR-ingar. Aftureldingarmenn höfðu yfirhöndina lengi vel og fengu auk þess möguleika á að tryggja sér sigurinn á lokamínútunni. Allt kom fyrir ekki. Birkir Benediktsson var eins og stundum áður allt í öllu í sóknarleik Aftureldingar. Hann skoraði 11 mörk og átti auk þess hið minnsta fimm stoðsendingar. Guðmundur Árni Ólafsson var næstur með níu mörk, þar af sex af vítalínunni þar sem hann var með fullkomna nýtingu. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hitti netmöskvana í sex skipti.

Eins og oft áður var Björgvin Þór Hólmgeirsson atkvæðamestur ÍR-inga við að skora. Hann skoraði sjö sinnum. Akureyringarnir Bergvin Þór Gíslason og Hafþór Már Vignisson skoruðu sex mörk hvor. Bergvin átti afar góðan leik. Hann spændi upp vörn Aftureldingar hvað eftir annað með krafti sínum. Hafþór Már var daufur í fyrri hálfleik en veðraðist allur upp í síðari hálfleik og skoraði þá flest sín mörk. iben@mbl.is

Haukar enn ósigraðir

Haukar eru enn ósigraðir á toppi deildarinnar eftir 32:24-sigur á Fjölni á heimavelli. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:10, Haukum í vil. Adam Haukur Baumruk skoraði átta mörk fyrir Hauka og Atli Már Báruson sex. Viktor Berg Grétarsson skoraði sex fyrir Fjölni.

Kristján skoraði 11 mörk

ÍBV lagði botnlið HK, 32:26, í Vestmannaeyjum. Gestirnir fóru vel af stað og höfðu tveggja marka forystu um miðbik fyrri hálfleiks en frábær kafli Eyjamanna skildi að lokum botnliðið eftir. Kristján Örn Kristjánsson var frábær í liði ÍBV og skoraði 11 mörk en Kristófer Andri Daðason og Þorgeir Bjarki Davíðsson skoruðu fimm mörk fyrir HK.