Ásakanir á hendur Samherja verður að rannsaka ofan í kjölinn af þar til bærum yfirvöldum

Ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur einu af stærstu fyrirtækjum landsins, Samherja, eru alvarlegar og hafa eðli máls samkvæmt vakið mikla athygli og umræður hér á landi. Reynist ásakanirnar réttar, og miðað við játningu eins fyrrverandi starfsmanns félagsins má ætla að í það minnsta hluti þeirra sé það, er um gróft brot að ræða. En hvort brot átti sér stað, hvers eðlis það var eða hver eða hverjir stóðu að því þarf að rannsaka og eftir atvikum fara með alla leið innan réttarkerfisins. Þó að sjálfsagt sé, og raunar eðlilegt og nauðsynlegt, að fjölmiðlar og almenningur ræði slík mál, þá er það annarra að tryggja að allar hliðar mála séu rannsakaðar og fella dóma ef ástæða þykir til.

Eins og stundum vill verða fer umræðan um víðan völl þegar slíkur brotsjór skellur á, en mikilvægt er að reyna að halda henni við það sem að málinu snýr í raun og gera ekki enn meira úr en efni standa til. Nóg er samt.

Þingmenn þurfa sérstaklega að hafa þetta í huga því þeir hafa meira vægi og bera meiri ábyrgð en hinn almenni maður í færslu á Fésbók eða við eldhúsborðið heima hjá sér. Þegar þeir halda því til dæmis fram að þetta mál þýði að Ísland verði alræmt spillingarbæli í huga fólks erlendis er býsna langt seilst. Umfjöllun í erlendum fjölmiðlum, eða öllu heldur hve takmörkuð hún hefur þrátt fyrir allt verið, bendir ekki til þess að slíkt tal eigi við nokkur rök að styðjast. Sem betur fer.

Þá er langsótt í meira lagi þegar fólk fer að kenna stjórnkerfi fiskveiða hér á landi um meinta mútustarfsemi í Namibíu. Nærtækara væri að kenna íslenskum umferðarlögum um ofsaakstur Íslendings á erlendri grundu, og þætti slíkt þó tæpast tækt til umræðu. Þessi málflutningur er auðvitað aðeins til marks um að fólk sést ekki fyrir og er tilbúið að nota hvað sem er í pólitískri baráttu. Sú framganga er ekki til fyrirmyndar, vægt sagt.

Þetta breytir engu um alvöru þess mál sem til umræðu er og nauðsyn þess að komast til botns í því. Stjórn fyrirtækisins virðist taka málið alvarlega, sem er mikilvægt. Þar til bær stjórnvöld verða að sjálfsögðu að gera slíkt hið sama og leiða málið til lykta þannig að yfir vafa sé hafið að komist hafi verið til botns í málinu og að gripið hafi verið til þeirra aðgerða í framhaldinu sem eðlilegar hafi verið.