Lyf Sjónarmið landlæknis og þriggja þingmanna um lyfsölu stangast á.
Lyf Sjónarmið landlæknis og þriggja þingmanna um lyfsölu stangast á. — Morgunblaðið/Sverrir
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Embætti landlæknis leggst gegn breytingum á lyfjalögum sem lagt er til að gerðar verði samkvæmt frumvarpi þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Embættið gerir alvarlegar athugasemdir við hugmyndir um að veita Lyfjastofnun heimild til að veita undanþágu til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun og mælir gegn því að frumvarpið verði að lögum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Embætti landlæknis leggst gegn breytingum á lyfjalögum sem lagt er til að gerðar verði samkvæmt frumvarpi þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Embættið gerir alvarlegar athugasemdir við hugmyndir um að veita Lyfjastofnun heimild til að veita undanþágu til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun og mælir gegn því að frumvarpið verði að lögum.

Frumvarpið var áður flutt á síðasta þingi og er nú lagt fram óbreytt af Unni Brá Konráðsdóttur, Óla Birni Kárasyni og Bryndísi Haraldsdóttur. Flutningsmenn telja brýnt að auka frelsi í sölu lausasölulyfja og breyta lögum í því skyni að heimila sölu lausasölulyfja í almennum verslunum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að 2017 hafi Alþingi samþykkt þingsályktun um lyfjastefnu til 2022. Eitt meginmarkmiða stefnunnar hafi verið að tryggja aðgengi allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum.

Ekki leitt til ofnotkunar lyfja

„Ísland stendur mörgum Evrópuríkjum að baki hvað varðar sölu á lausasölulyfjum í almennum verslunum, en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er slík sala heimil. Sem dæmi um lausasölulyf má nefna væg verkjalyf, ofnæmislyf og magalyf.

Þetta fyrirkomulag hefur ekki leitt til ofnotkunar lyfja eða haft slæm áhrif á lýðheilsu og tilkynntar eitranir vegna lausasölulyfja hafa ekki aukist. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð var sala lausasölulyfja utan apóteka heimiluð með lögum 2009 og tölur sýna að sala lausasölulyfja stóð í stað til ársins 2013. Af Norðurlöndunum banna aðeins Ísland og Finnland sölu lausasölulyfja í almennum verslunum,“ segir í greinargerðinni.

Þar kemur einnig fram að með tiltölulega einföldum hætti væri hægt að breyta lyfjalögum á þann hátt að Lyfjastofnun fái heimild til að veita almennum verslunum undanþágu til að selja tiltekin lyf. Slík lagabreyting auki samkeppni og lækki verð til neytenda. Auk þess sé verulegt hagræði fólgið í því fyrir neytendur að geta nálgast lausasölulyf á sem auðveldastan hátt.

Nauðsynlegt öryggisatriði

Embætti landlæknis telur að með þessu sé verið að gera lyf að enn almennari verslunarvöru en nú er. Öll lyf hafi bæði verkanir og aukaverkanir sem nauðsynlegt sé að seljandi hafi þekkingu á. Að slík þekking sé fyrir hendi sé nú tryggt með skilyrðum í gildandi lögumm, en þar segi að þeir einir hafi leyfi til lyfjasölu sem hlotið hafi leyfi að skilyrðum uppfylltum.

„Að mati landlæknis er hér um nauðsynlegt öryggisatriði að ræða fyrir þá sem þurfa á lyfjum að halda. Enn fremur vill embættið vekja athygli á að Íslendingar nota meira af ákveðnum lyfjum, sérstaklega tauga- og geðlyfjum, en nágrannaþjóðirnar og því telur embættið að almennt þurfi að auka aga og virðingu fyrir lyfjum og vanda alla umgengni um þau og ráðstöfun,“ segir í umsögninni.

Líta beri á öll lyf, þar með talin lausasölulyf, sem lækningavöru. Sölu þeirra og dreifingu sé best fyrirkomið þar sem fyrir hendi sé góð þekking og reynsla af lyfjum, verkunum þeirra og aukaverkunum. „Vandséð er hvernig slík sértæk þekking og reynsla geti verið til staðar í almennri verslun þar sem frumvarpið leggur til að lausasölulyf verði seld,“ segir í umsögninni.