Munu demókratar hlusta á varnaðarorð Obama?

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, varaði samflokksmenn sína fyrir helgi við afleiðingum þess að Demókrataflokkurinn myndi halla sér of langt til vinstri í komandi forkosningum. Benti Obama á það að meðalmaðurinn í Bandaríkjunum teldi ekki að það þyrfti að rífa niður „kerfið“, heldur vildu margir kjósendur frekar sjá hægfara umbætur hér og þar.

Þó að orðum forsetans væri ekki beint að neinum sérstökum frambjóðendum var til þess tekið, að Obama nefndi sérstaklega heilbrigðiskerfið og innflytjendamál sem dæmi þar sem demókratar væru ef til vill á skjön við vilja meirihluta Bandaríkjamanna, en bæði þessi mál hafa verið á oddinum hjá tveimur frambjóðendum, öldungadeildarþingmönnunum Elizabeth Warren og Bernie Sanders, sem eru bæði á vinstri kanti Demókrataflokksins og eiga bæði möguleika í forvali flokksins á næsta ári.

Varnaðarorð Obama koma einungis nokkrum vikum eftir að forsetinn fyrrverandi varaði sérstaklega við því hugmyndafræðilega óþoli og þöggunartilburðum sem margir á vinstri vængnum, sér í lagi hinir yngri, hafa tamið sér gagnvart þeim sem þeir eru ekki sammála. Þar bendir hann á að sannleikann sé ekki alltaf að finna í bergmálshellum á samfélagsmiðlum, og að heimurinn sé langt í frá að vera svart-hvítur.

Víst er að ætli demókratar sér Hvíta húsið á næsta ári gætu þeir gert margt verra en að huga að orðum Obama og finna frambjóðanda, sem höfðað geti til almennings en ekki aðeins þeirra sem hæst hafa. Flest bendir hins vegar til þess að þeir muni skella skollaeyrum við þessum varnaðarorðum og leita fremur í skotgrafirnar. Verði sú raunin eru verulega auknar líkur á að Trump Bandaríkjaforseti hljóti fremur náðugt endurkjör – og að enginn í bergmálshellinum muni skilja af hverju svo fór.