Sigurmark Steinunn Björnsdóttir tryggði Fram sigur í Eyjum.
Sigurmark Steinunn Björnsdóttir tryggði Fram sigur í Eyjum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir frábæran sigur gegn Íslands-og bikarmeisturum Vals á dögunum var liði HK kippt niður á jörðina á laugardaginn af liði Hauka þegar liðin mættust á Ásvöllum í Olís-deild kvenna í handknattleik.

Eftir frábæran sigur gegn Íslands-og bikarmeisturum Vals á dögunum var liði HK kippt niður á jörðina á laugardaginn af liði Hauka þegar liðin mættust á Ásvöllum í Olís-deild kvenna í handknattleik. Haukar unnu 29:23 og munar nú einu stigi á liðunum í deildinni en HK er í 5. sæti með átta stig en Haukar, sem byrjuðu tímabilið illa, eru með sjö stig. Hafnfirðingarnir virðast vera að finna taktinn en liðið komst einnig áfram í bikarnum á dögunum. Hin sænska Sara Odden átti stórleik og skoraði 10 mörk fyrir Hauka en Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var markahæst hjá HK með sex mörk.

Íslandsmeistarar Vals eru komnar aftur á beinu brautina eftir átta marka sigur gegn nýliðum Aftureldingar í Mosfellsbæ í gær. Leiknum lauk með 27:19-sigri Vals en staðan í hálfleik var 16:13, Valskonum í vil. Lovísa Thompson skoraði níu mörk fyrir Val en Roberta Ivanauskaite var markahæst hjá Aftureldingu með átta mörk.

ÍBV beit frá sér á móti Fram í Vestmannaeyjum en topplið Fram landaði eins marks sigri, 24:23, eftir að ÍBV hafði verið yfir 13:12 að loknum fyrri hálfleik.

Steinunn Björnsdóttir skoraði sigurmark Fram þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum eftir sendingu frá Hildi Þorgeirsdóttur. „Hildur elskar að gefa á Steinunni og Steinunn elskar að skora þessi mörk,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, við mbl.is að leiknum loknum en Steinunn skoraði alls átta mörk eins og Ragnheiður Júlíusdóttir. Sunna Jónsdóttir skoraði einnig átta mörk fyrir ÍBV. sport@mbl.is