[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Ríkisolíufyrirtæki Sádi-Arabíu, Saudi Aramco, tilkynnti á sunnudag að það muni setja 1,5% af félaginu á markað, samtals um þrjá milljarða hlutabréfa, og er óskað eftir tilboðum á bilinu 30 til 32 ríöl á hlut.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ríkisolíufyrirtæki Sádi-Arabíu, Saudi Aramco, tilkynnti á sunnudag að það muni setja 1,5% af félaginu á markað, samtals um þrjá milljarða hlutabréfa, og er óskað eftir tilboðum á bilinu 30 til 32 ríöl á hlut. Jafngildir það því að olíurisinn sé 1.600 til 1.700 milljarða dala virði. Er þetta nokkru lægra verð en stjórnvöld höfðu áður vonast til að fá og hafði krónprinsnn Mohammed bin Salman, sem annast daglega stjórn landsins, greint frá að hann teldi 2.000 milljarða dala sanngjarnt verð fyrir stærsta olíufyrirtæki heims.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa bæði innlendir og erlendir markaðsgreinendur verið nokkuð einróma um að 2.000 milljarðar dala væri of hátt mat. Þá hefur ekki hjálpað að órói hefur verið í þessum heimshluta og er þess skemmst að minnast þegar gerð var drónaárás á aðalolíuhreinsunarstöð Aramco í september. Eins varð morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi, í sendiráði Sádi-Arabíu í Istanbúl fyrir rösku ári, ekki til þess að auka velvild erlendra fjárfesta. Þá hafa sumir fjárfestar áhyggjur af að stjórnvöld hafi of mikil afskipti af stefnu og rekstri olíufélagsins.

Vill fjölbreyttara hagkerfi

Miðað við núverandi viðmiðunarverð Aramco gæti hlutafjárutboðið orðið það stærsta í sögunni og aflað félaginu jafnvirði 25,6 milljarða dala, að því er Reuters greinir frá. Fyrra met var slegið af Alibaba þegar kínverski netverslunarrisinn nam land á bandarískum hlutabréfamarkaði og seldi hluti fyrir 25 milljarða dala.

Með því að setja ríkisolíufélagið á markað vilja stjórnvöld afla fjár sem nota á til að byggja upp aðra geira atvinnulífsins, skapa ný störf og gera hagkerfi landsins minna háð útflutningi á olíu. Vildi krónprinsinn upphaflega selja 5% hlut og hafði vonast til að afla þannig allt að 100 milljarða dala til að verja til ýmissa verkefna. Gangi hlutafjárútboð Aramco vel má vænta þess að meira af eignum ríkisins fari á markað í framhaldinu.

Ekkert fyrirtæki í heiminum er rekið með meiri hagnaði en Saudi Aramco og greiddi félagið út 75 milljarða dala í arð á síðasta ári. Er það fimmfalt hærri upphæð en Apple greiddi sínum hluthöfum á sama tímabili, en bandaríska tæknifyrirtækið er það verðmætasta í S&P 500-vísitölunni.

Verður borið uppi af innlendum kaupendum

Að sögn FT má greina verulegan mun á áhuga innlendra og erlendra fjárfesta á olíufélaginu og horfur á að Aramco muni ekki leggja sig mikið fram við að laða að erlent fjármagn en þess í stað reiða sig að stærstum hluta á innlenda fjárfesta og sjóði. Hafa erlendir sérfræðingar enda verðmetið Aramco á 1.200 til 1.500 milljarða dala, sem er vel undir væntingum félagsins. Á undanförnum vikum hafa fulltrúar olíurisans m.a. heimsótt Rússland og Kína til að glæða áhuga fjárfesta þar sem gætu viljað styrkja tengslin við Sádi-Arabíu með því að eignast skerf í Aramco.

Búið er að taka frá 0,5% hlut fyrir sádiarabíska fjárfesta og greinir FT frá að þrýst sé á fjársterkar fjölskyldur og sjóði um að gera gott tilboð í hlutafjárútboðinu. Þá eru sádiarabískir bankar mjög fúsir að lána þeim sem vilja eignast hlut í Aramco. Endanlegt útboðsverð mun liggja fyrir hinn 5. desember.

Sjötti hver vill kaupa hlut

Almenningur í Sádi-Arabíu virðist mjög áhugasamur um hlutafjárútboðið og hefur krónprinsinn talað um það sem tækifæri fyrir hinn almenna borgara að eignast hlut í þessu „krúnudjásni“ þjóðarinnar. Hafa bankar í landinu þurft að lengja hjá sér afgreiðslutímann til að anna fyrirspurnum frá viðskiptavinum sem vilja taka þátt í útboðinu. Almennum kaupendum stendur til boða að fá útgefið eitt aukahlutabréf fyrir hver tíu sem þeir eiga að því gefnu að þeir selji ekki hluti sína á fyrstu 180 dögunum frá útboðinu. Sádiarabískir fjölmiðlar telja að um fimm milljón manns hyggist freista þess að eignast hlut í Aramco, en samtals eru íbúar landsins tæpar 33 milljónir talsins.
Undirstaðan
» Olía fannst fyrst í Sádi-Arabíu árið 1938.
» Árið 2017 var áætlað að í lindum Aramco væru 260 milljarðar fata af olíu og ætti að endast í 54 ár.
» Saudi Aramco framleiddi 10,3 milljónir fata af olíu á dag á síðasta ári.
» Tveir þriðju af olíuframleiðslu landsins fara til kaupenda í Asíu.
» Hagnaður félagsíns í fyrra nam 111 milljörðum dala.