Stefjagleði er ný vísnabók eftir Pétur Stefánsson og sú sjöunda í röðinni. Kynningu hennar á Leir fylgir þessi staka: Þó herði frost og gráni grundir, gáskafullur yrki brag. Eflaust mun þér stytta stundir Stefjagleði margan dag.

Stefjagleði er ný vísnabók eftir Pétur Stefánsson og sú sjöunda í röðinni. Kynningu hennar á Leir fylgir þessi staka:

Þó herði frost og gráni grundir,

gáskafullur yrki brag.

Eflaust mun þér stytta stundir

Stefjagleði margan dag.

Stefjagleði er góð bók og skemmtileg. Í fyrri hluta bókarinnar er ferskeytlan í fyrirrúmi en í síðari hlutanum eru ljóð undir ýmsum háttum, sonnetta og fornyrðislag. Það er bjart yfir þessari bók og tónninn sleginn með þessari stöku:

Það er margt sem yndi eykur

á ævi minnar stuttu ferð.

Þegar allt í lyndi leikur

leik ég mér að vísnagerð.

Pétur yrkir til konunnar, – og er botninn óvæntur:

Að giftast þér var gæfuspor,

ég greini það alltaf betur,

þú ert eins og ylríkt vor

eftir frostavetur.

Hagyrðingum hefur alltaf látið vel að yrkja til spóans og lóunnar:

Eftir vætu yfrið nóga

unaðs tíma loksins sé,

horfi ég á grasið gróa

og grænka lauf á hverju tré.

Vorið kom með vell í spóum,

vængjaþyt og söng í lóum.

Auðvitað leikur Pétur sér að limrunni:

Hann Eyjólfur knúsaði og kyssti

konu og hjá henni gisti.

Það indælis kvöld

var ástin við völd

og Brynhildur meydóminn missti.

Ort í „Þurrkatíð“:

Margt veldur bændunum baga,

blíðviðrissól alla daga.

Ég heyrði þá fregn

að húrrandi regn

myndi búskapinn bæta og laga.

Hér yrkir Pétur undir „Káins-lagi“:

Kominn er ég enn á stjá

eitilhress og dreyminn.

Nú er dýrleg sjón að sjá

sólina skína á heiminn.

Það er farið að kólna og þó enn sé jörð auð hér syðra er ekki svo fyrir norðan:

Kápu góðri klæðast skalt,

kauptu brodda á skóinn.

Bjart er úti og býsna kalt,

bætir enn í snjóinn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is