Trú Hjarðarholtskirkja er falleg og setur sterkan svip á umhverfi sitt.
Trú Hjarðarholtskirkja er falleg og setur sterkan svip á umhverfi sitt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Samband ríkis og kirkju hefur tekið miklum breytingum á liðinni öld og áratugum og sú þróun mun áreiðanlega halda áfram,“ segir sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður Prestafélags Íslands.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Samband ríkis og kirkju hefur tekið miklum breytingum á liðinni öld og áratugum og sú þróun mun áreiðanlega halda áfram,“ segir sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður Prestafélags Íslands. Þar vísar hún til sjónarmiða Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að fullur aðskilnaður ríkis og kirkju sé óhjákvæmilegur. Kirkjan geti vel sinnt öllum verkefnum sínum, svo sem sáluhjálp og félagslegri þjónustu, án samfylgdar við ríkið. Að kirkjan sé sjálfstæð og óháð ríkisvaldinu samrýmist sömuleiðis betur sjónarmiðum um trú- og skoðanafrelsi. Æ fleiri telji sömuleiðis að ekki sé hlutverk ríksins að fjármagna starfsemi trúfélaga.

Tengslin eru flókin

Sr. Ninna Sif segir mál þetta ekki hafa verið rætt formlega á vettvangi Prestafélags Íslands, en félagsmenn ræði auðvitað málin og hafi ýmsar og sterkar skoðanir á málinu.

„Við eru einmitt nú um þessar mundir að fara í gegnum breytingar, samanber nýlegt samkomulag ríkis og þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju sem felur í sér að framvegis mun kirkjan sjálf til dæmis greiða laun presta en ekki ríkið, sem mun þó áfram innheimta sóknargjöldin samkvæmt gildandi samkomulagi,“ segir sr. Ninna Sif og minnir í því sambandi á að tengsl milli kirkjunnar og ríkisvaldsins liggi víða. Fullur aðskilnaður verði því afar flókinn og vandasamur og málið kalli á ítarlega umræðu.

Tilhneiging í tíðarandanum

„Eigi að skilja tengslin að fullu verður vilji þjóðarinnar að ráða,“ segir formaður Prestafélags Íslands. Hún minnir þar á að haustið 2012 var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar voru bornar upp nokkar spurningar um afmörkuð efni og ein var sú hvort fólk vildi að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi og voru 57,1% sem neyttu atkvæðisréttar síns þar því fylgjandi.

„Sú tilhneiging liggur í tíðarandanum núna að fólk vill standa utan formlegra samtaka og þar er þjóðkirkjan, stærstu og fjölmennustu félagasamtök landsins, engin undantekning. Hins vegar sinnum við prestar þjóðkirkjunnar öllum, alveg sama í hvaða trúfélagi fólk er, til dæmis þegar dauðsföll eða voveiflegir atburðir verða. Í þessu felast líka þau sterku tengsl sem eru milli kirkjunnar og ríkisins og þjóðarinnar sem ég nefndi hér að framan, það er almannaþjónusta.“

Skref í rétta átt

Sr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju í Reykjavík, segir aðskilnað ríkis og kirkju langtímaverkefni. Hápunkturinn í því ferli hafi verið árið 1997 þegar ný þjóðkirkjulög voru samþykkt og samningur ríkis og kirkju sem tveggja sjálfstæðra aðila var gert.

„Ég tel að aðskilnaðurinn sem dómsmálaráðherra hefur kynnt sé skref í rétta átt. Nú hefur verið stigið stærra skref í þessa átt. Með því hefur ríkisvaldið afsalað sér beinum afskiptum af málefnum kirkjunnar. Þegar kirkjujarðir voru afhentar ríkisvaldinu í byrjun 20. aldar áttu sér stað mestu eignaskipti í Íslandssögunni. Fjórðungur alls jarðnæðis í landinu fór yfir til ríkisins. Eftir stendur að ríkið greiðir kirkjunni fyrir þau verðmæti. Nú taka við tímar þar sem sjálfstæði kirkjunnar er raungert og kirkjunnar fólk ætti að fagna þeim áfanga. Varðandi laun presta þá semur þjóðkirkjan framvegis við presta á grundvelli kjara sem BHM hefur samþykkt. Prestar eru ekki lengur embættismenn eða skipaðir og nú gildir ráðningarsamband milli þeirra og kirkjunnar,“ segir sr. Skúli Sigurður.