Árni Ingimar Helgason fæddist 11. nóvember 1935 á Kömbum við Reyðarfjörð. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. nóvember 2019.

Foreldrar hans voru Helgi Guðnason, f. 24. desember 1904, d. 7. janúar 1988, og Soffía Arnþrúður Ingimarsdóttir, f. 26. mars 2012, d. 1. nóvember 1979. Systkini Árna eru: Bragi, f. 26. apríl 1931, d. 10. apríl 2019, Hulda Ingimars, f. 12. júlí 1934, d. 4. janúar 2006, stúlka, f. 27. október1936, d. 28. október 1936, Guðni, f. 27. október 1936, d. 21. nóvember 1936, Guðný Jónína, f. 10. desember 1938, og Oddný Friðrikka, f. 22. ágúst 1947, d. 23. ágúst 1996.

Árni kvæntist árið 1957 Þórunni Marín Þorsteinsdóttur, póst- og símstöðvarstjóra á Þórshöfn, f. 22. nóvember 1937, d. 16. desember 2011. Börn þeirra eru: 1) Unnur, f. 24. maí 1956, d. 26. ágúst 2019, maki Guðmundur Hólm Indriðason, f. 1954, börn Unnar eru Þórunn, f. 1976, börn Unnar Hafberg, f. 2002, og Heiðrún Helga, f. 2008, Unnar Aðalsteinn, f. 1980, dóttir Una Marine, f. 2006, og Elín Inga, f. 1990, dóttir Hildur, f. 2019 2) Oddný Friðrikka, f. 27. ágúst 1957, maki Gunnar Páll Jóakimsson, f. 1954, þeirra börn eru Arnar, sonur Dagur, f. 2019, og Björg, f. 1994 3) Þuríður, f. 22. maí 1959, maki Sigurður Skúli Bergsson, f. 1959, þeirra börn eru Einar Oddur, f. 1983, börn Ernir Ingimar og Elín Sigurbjört, f. 2016, og Árni Bergur, f. 1989, börn Arnar Breki, f. 2015, og Arndís Björk, f. 2018 4) Soffía, f. 11. janúar 1962, maki Hafsteinn B. Sveinbjörnsson, f. 1972, börn Soffíu eru Soffía Arnþrúður, f. 1987, og Magnús Þór, f. 1994, 4) Helgi Mar, f. 19. júní 1972, maki Íris Björnsdóttir, f. 1973, þeirra börn eru Marín, f. 2002, Sæunn, f. 2005, og Hafrún Birna, f. 2009.

Árni ólst upp á Þórshöfn og lauk skyldunámi þar og gagnfræðaprófi frá Laugum í Reykjadal. Hann stundaði nám við Stýrimannaskólann og lauk skipstjórnarréttindum þaðan. Hann bjó og vann allan sinn starfsferil sem skipstjóri og útgerðarmaður á Þórshöfn þaðan sem hann og eiginkona hans gerðu út nokkra báta gegnum starfsævina.

Útgerðarferill Árna spannaði um 57 ár og landaði hann afla í velflestum höfnum landsins á sínum sjómannsferli. Síðustu árin bjó Árni að mestu í Hafnarfirði en átti áfram og dvaldi af og til á heimili þeirra hjóna á Ingimarsstöðum á Þórshöfn.

Útför Árna fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 18. nóvember, kl. 15. Jarðsett verður frá Þórshafnarkirkju laugardaginn 23. nóvember kl. 15.

Elsku pabbi hefur kvatt þennan heim saddur lífdaga og mikill er söknuðurinn. Ég átti góða og gleðiríka æsku í litlu sjávarþorpi með miklu frjálsræði. Pabbi kom að uppeldinu eins og tíðkaðist hjá sjómönnum í þá daga. Hann hafði ekki mikil afskipti af daglegu lífi barna sinna, heimalærdómi eða tómstundum. Mamma sá um það. En þegar í land kom fylgdist hann grannt með og setti reglur sem mér fundust á þeim tíma óþolandi. Heim kl. 22:00, bannað að fara á ball á Bakkafjörð eða Raufarhöfn. Og maður hlýddi (eða ekki). Þegar litið er til baka þá voru þessar reglur eingöngu til góðs.

Stutt var í húmorinn hjá pabba og var hann tryggur vinum sínum, traustur og heiðarlegur maður í viðskiptum. Pabbi lagði alltaf áherslu á að við systkinin menntuðum okkur og fengum við þar mikinn stuðning og hvatningu hjá báðum foreldrum okkar og þökkum við það.

Á tilfinningasviðinu var pabbi ekki maður stórra orða en traust handtak með stórri lúku var hans leið til að sýna okkur ástúð. Hann fylgdist náið með barnabörnunum, enda skrápurinn orðinn mýkri með aldrinum, og var þeim góður og hlýr afi.

Ég var svo heppin að vera með honum til sjós sem háseti og kokkur. Þar kynntist ég líka annarri og skemmtilegri hlið á honum en hann átti það samt til um borð að reka mig í koju ef ég glápti of lengi á videóið með strákunum.

Lífið var honum erfitt eftir að mamma dó 2011 og enn erfiðara var fyrir hann að kveðja Unni, elstu dóttur sína, fyrir rúmum tveimur mánuðum. Við áttum góðan tíma saman síðustu ár, margar sjóarasögur hef ég heyrt á þessum tíma sem ég mun geyma í hjarta mér og ylja mér við. Ég veit að það er vel tekið á móti pabba þegar hann siglir í síðustu höfn.

Hvíl í friði, elsku pabbi, og takk fyrir einstaka samfylgd.

Þín

Soffía.

Árni Ingimar tengdafaðir minn lést á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi aðfaranótt laugardagsins 9. nóvember sl. eftir stutta innlögn tveimur dögum fyrir áttatíu og fjögurra ára afmæli sitt.

Árni bjó alla tíð á Þórshöfn á Langanesi nema allra síðustu árin sem hann bjó í Hafnarfirði. Hann giftist tengdamóður minni Þórunni Þorsteinsdóttur frá Þórshöfn árið 1957. Þórunn lést árið 2011. Árna og Þórunni varð fimm barna auðið en Unnur sem var elst barnanna lést fyrir um tveimur mánuðum.

Árni lagði ungur fyrir sig sjómennsku sem hann gerði að ævistarfi sínu. Hann var skipstjóri á eigin skipum um áratuga skeið og átti alla tíð farsælan útgerðarferil. Síðustu árin áður en hann lét af störfum stundaði hann trilluútgerð og lagði þá upp þar sem best aflaðist hverju sinni.

Kynni okkar Árna hófust fyrir um fjórum áratugum þegar við Þuríður dóttir hans höfðum kynnst og hafið sambúð. Á þessum tíma var Árni um fimmtán árum yngri en ég er núna. Með okkur Árna tókst fljótlega mikil vinátta sem átti eftir að styrkjast eftir því sem árin liðu. Við Árni áttum sameiginleg áugamál sem voru veiðar bæði á fugli og fiski. Um árabil stunduðum við ásamt fleirum úr fjölskyldunni laxveiðar í Sandá í Þistilfirði þar sem við áttum margar góðar og eftirminnilegar stundir saman. Þá áttum við í gegnum árin margar ánægjulegar samverustundir sunnar á hnettinum í heitara loftslagi en hér á landi.

Árni var traustur maður, maður orða sinna og vinur vina sinna.

Blessuð sé minning hans.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn

að aldrei deyr:

dómur um dauðan hvern.

(Úr Hávamálum)

Sigurður Skúli Bergsson.

Nú hefur elsku Addi afi kvatt þennan heim. Afi var einstakur maður og ég er svo ótrúlega þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem ég mun geyma. Síðustu ár hafa samverustundirnar okkar einkennst af fótboltaáhorfi og veðurfregnum en ég ylja mér sérstaklega við góðu minningarnar frá Þórshöfn. Ég man þær stundir sem við krakkarnir fórum á bryggjurúntinn með afa og ef við földum okkur vel þá máttum við vera í skottinu á bílnum. Hann tók okkur stundum út á sjó og við vorum með stjörnurnar í augunum hvað afi var mikið hörkutól.

Ég mun aldrei gleyma þeim dýrmætu stundum sem við áttum saman á Þórshöfn. Það er góð og gild ástæða fyrir því að í mínum huga er Ingó besti staður í heimi. Eftir að elsku Didda amma dó breyttist allt og síðustu ár hafa verið erfið. Ég trúi því að nú sé afi kominn á betri stað og hafi það notalegt með ömmu og Unni og að þau fylgist með okkur.

Takk fyrir allt, afi minn. Þín verður sárt saknað. Ég mun ávallt halda heiðri þínum á lofti og skal jafnvel halda örlítið með Liverpool, bara fyrir þig.

Björgin þín,

Björg

Gunnarsdóttir.

Afi var yndislegasti karl sem við höfum kynnst. Hann var hlýr og góður við alla í kringum sig. Það verður mjög skrýtið að geta ekki farið í heimsókn til hans í Miðvanginn, með bakkelsi og horfa á Liverpool-leiki með honum. Það verður skrýtið að hafa hann ekki hjá okkur á jólunum, þar sem við munum ekki eftir jólum án hans. Afi passaði vel upp á að það væri alltaf til ís í frystinum hjá honum þegar við komum í heimsókn. Þótt hann spjallaði ekki alltaf mikið fundum við ætíð fyrir hlýju frá afa og okkur leið mjög vel með honum. Afi tók alltaf á móti okkur með brosi þegar við komum í heimsókn. Afi elskaði að fara á bryggjurúnt og þegar enginn vissi hvar hann væri þá var fyrst leitað á bryggjunni eða á Pylsubarnum, þar fundum við hann alltaf. Afi var stór hluti af okkar lífi og við munum sakna hans alla daga.

Takk fyrir allt, afi.

Marín, Sæunn og

Hafrún Birna.