Talgreinir Jón Guðnason afhenti Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, talgreininn formlega síðastliðinn laugardag.
Talgreinir Jón Guðnason afhenti Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, talgreininn formlega síðastliðinn laugardag. — Ljósmynd/Aðsend
Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Mikið var um að vera á degi íslenskrar tungu sem haldinn var hátíðlegur á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar á laugardag.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Mikið var um að vera á degi íslenskrar tungu sem haldinn var hátíðlegur á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar á laugardag. Voru gervigreindur talgreinir, íslenskt „radd-app“ og glóandi orðlistaverk meðal þess sem kynnt var í tilefni dagsins.

70 nemendur verðlaunaðir

Aldrei hafa fleiri hampað íslenskuverðlaunum unga fólksins en á laugardaginn. Tóku þá 70 reykvískir grunnskólanemar við verðlaununum, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar. Meðal verðlaunahafa í ár voru ung ljóðskáld, lestrarhestar, framúrskarandi upplesarar og tvítyngdir nemendur sem hafa náð góðum tökum á íslensku á skömmum tíma. Er þetta í þrettánda sinn sem verðlaunin eru afhent en þeim er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í töluðu og rituðu máli.

Talgreinir afhentur Alþingi

Gervigreindur talgreinir sem skrá mun sjálfkrafa ræður alþingismanna var afhentur alþingi formlega á viðburði Almannaróms um máltækni á laugardag í tilefni dagsins. Að því er fram kemur á vef alþingis getur talgreinirinn skráð um tíu mínúrur af ræðum á aðeins þremur og hálfri mínútu. Mun þetta auðvelda til muna skráningu og birtingu á ræðum alþingismanna. Jón Guðnason, dósent við verkfræðideild, stendur að talgreininum ásamt vísindamönnum skólans en hann sá um afhendinguna.

Var á hátíðinni einnig kynnt snjallsímaforritið Embla, sem er fyrsta íslenska „radd-appið“ sem talar og skilur íslensku.

Jón G. Friðjónsson prófessor hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem afhent voru á hátíð í Gamla bíói í tilefni dagsins. Eru verðlaunin veitt árlega einstaklingi sem með sérstökum hætti hefur unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Sérstaka viðurkenningu fékk hljómsveitin Reykjavíkurdætur, m.a. fyrir áherslu hljómsveitarinnar á að fjalla um reynsluheim ungra íslenskra kvenna á íslensku nútímamáli að því er fram kemur í greinargerð ráðgjafarnefndar dags íslenskrar tungu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menntingarmálaráðherra afhenti verðlaunin og viðurkenninguna.

Ýmsir íslenskir listamenn og áhrifavaldar komu fram á hátíðinni, m.a. Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Jakob Birgisson, Vilhelm Netó, GDRN, Auður og Hundur í óskilum ásamt fulltrúa Radda, lesara úr stóru upplestrarkeppninni.

Var myndbandsverkið Orðasúpa íslenskunnar jafnframt frumsýnt á hátíðinni en í því koma fram 80 viðmælendur sem bera fram sjaldséð íslensk orð. Voru gagnvirka sýningin Óravíddir orðaforðans og Eldfjallasjá Veðurstofu Íslands, sem varpar ljósi á framlag náttúruskáldsins Jónasar Hallgrímssonar til vísindanna, ennfremur sýndar í andyri Gamla bíós.

Um kvöldið birtist í myrkrinu glóandi orðlistaverk á glerhjúpi tónlistarhússins Hörpu í tilefni dagsins.

» Mennta- og menningarmálaráðherra veitti Jóni G. Friðjónssoni prófessor verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.
» 70 grunnskólanemendur hlutu íslenskuverðlaun unga fólksins.
» Orðlistaverk var sýnt á glerhjúpi tónlistarhússins Hörpu.