Viðurkenning Jón G. Friðjónsson prófessor tekur við Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar við athöfn í Gamla bíói á laugardaginn.
Viðurkenning Jón G. Friðjónsson prófessor tekur við Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar við athöfn í Gamla bíói á laugardaginn. — Morgunblaðið/Hari
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Ég tel að íslensku stafi ekki ógn af erlendum tungum, eins og enskunni. Íslendingar hafa ávallt átt mikil samskipti við erlendar þjóðir og notið þess að mörgu leyti, meðal annars menningarlega, og þess sér stað mjög víða. Ógnirnar eru aðrar, svo sem að við lok grunnskóla geta 28% íslenskra drengja ekki lesið sér til gagns og það segir okkur að eitthvað hafi brugðist, skólafólk getur trúlega gert grein fyrir hvað það er,“ segir Jón G. Friðjónsson málvísindamaður.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ég tel að íslensku stafi ekki ógn af erlendum tungum, eins og enskunni. Íslendingar hafa ávallt átt mikil samskipti við erlendar þjóðir og notið þess að mörgu leyti, meðal annars menningarlega, og þess sér stað mjög víða. Ógnirnar eru aðrar, svo sem að við lok grunnskóla geta 28% íslenskra drengja ekki lesið sér til gagns og það segir okkur að eitthvað hafi brugðist, skólafólk getur trúlega gert grein fyrir hvað það er,“ segir Jón G. Friðjónsson málvísindamaður.

Hleypt af stokkum og lopinn er teygður

Á Degi íslenskrar tungu sl. laugardag, 16. nóvember, voru Jóni veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir störf sín í þágu íslensks máls. Í áratugi hefur Jón sinnt rannsóknum á íslenskri tungu, kennt málvísindi og íslenska málfræði í Háskóla Íslands og samið kennsluefni. Þá hefur Jón verið brautryðjandi í kennslu íslensku sem annars máls við HÍ. Meðal almennings er Jón vel þekktur fyrir rit sín um íslenska orðfræði. Þar má nefna Mergur málsins . Íslensk orðatiltæki, uppruni, saga og notkun sem fyrst kom út 1993 og svo endurbætt 2006, Rætur málsins sem út kom 1997 og Orð að sönnu . Íslenskir málshættir og orðskviðir sem út kom 2014.

Í ritum Jóns er fjallað um orðtök, orðatiltæki, málshætti og orðskviði íslensks máls, sem breytist hratt rétt eins og samfélagið sjálft. Atvinnu- og starfshættir nú eru allt aðrir en var til dæmis þegar orðatiltækið að hleypa einhverju af stokkunum varð til en það vísar til sjósetningar skipa eða báta. Að setja eitthvað á laggirnar er orðatiltæki tengt tunnusmíð og þau sem teygja lopann eru langorð úr hófi.

Ofnotaður nafnháttur

„Vissulega er oft farið rangt með orðatiltæki og föst orðasambönd, en slíkt er ekki nýtt. Sannarlega hafa mörg orðatiltæki horfið úr málinu með breyttum atvinnuháttum og aðstæðum,“ segir Jón sem telur íslensku eiga í vök að verjast. Breytt samfélag kalli á aðra nálgun. Bókin og bóklestur hafi orðið að þoka fyrir tölvum, tölvuleikjum og snjallsímanum.

„Ég fylgist allvel með bókaútgáfu og fæ ekki betur séð en hún standi traustum fótum. Þau rit sem ég les bera jafnan vott um mikinn metað. Hvað fjölmiðla varðar, til dæmis Morgunblaðið og Fréttablaðið , er vitaskuld auðvelt að finna misfellur en í flestum tilvikum er um einstök dæmi að ræða. Ég skrifa vikulega pistla um íslenskt mál og fylgist því allvel með á vettvangi daglegs máls. Ég hef tekið eftir því að ágallar eða misfellur hafa breyst. Nú kemur alloft fyrir, einkum í talmáli, að málsgreinar beri ekki fulla hugsun. Málkerfið sjálft hefur einnig breyst, til dæmis ofnotkun nafnháttar, alloft er sagt: „Ég er ekki að skilja þetta. – í stað þess að segja: „Ég skil þetta ekki.“ Síðara dæmið er í samræmi við málvenju.“

Annað sem Jón tiltekur um þróun íslensks mál er ofnotkun nafnorða og fjölskrúðug nýyrðasmíði í því sambandi. Þar megi nefna orð eins og vinsældamælikvarði , viðbótargreinargerðarfrestur og ákvörðunartökuvettvangur . Í stað þess að nota löng samanbarin samsett orð fari betur á því að lýsa aðstæðum í ögn lengra máli en þá með skýrari orðum og blæbrigðaríkara máli.

Hrá enska á íslensku

„Mér finnst miður þegar orðasambönd úr erlendu máli eru tekin upp nánast hrá og klædd íslenskum búningi, t.d. hið enska „see the light at the end of the tunnel“. Í beinni þýðingu á íslensku ætti myndin að vera að sjá ljósið fyrir enda ganganna en myndmálið er naumast gagnsætt í íslensku. Annað þessu líkt er orðasambandið „we are talking about“ en nú er mörgum tamt að segja að „við séum að tala um“.“

Jón víkur aftur tali sínu að grunnskólum, þar sem undirstaðan undir líf og starf fólks er jafnan lögð. Slakur lesskilningur drengja 10. bekkjar er mörgum áhyggjuefni og telur Jón það geta tengst því að kennarastarfið hefur löngum verið lágt metið í samfélaginu.

„En hver sem er ástæða slaks lesskilnings verður að teljast brýnt að bregðast við og það er ánægjulegt að sjá að slíkt hafa þar til bær yfirvöld og samtök kennara gert. Fyrst og síðast þurfum við að fá ungt fólk til þess að lesa góðar bækur, skrifaðar á blæbrigðaríku og góðu máli. Í því liggur galdurinn.“