Hjúkrun Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er 100 ára í dag, 18. nóvember. Félagið hefur verið með lausa kjarasamninga frá 1. mars sl.
Hjúkrun Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er 100 ára í dag, 18. nóvember. Félagið hefur verið með lausa kjarasamninga frá 1. mars sl. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Við höfum oft þurft að standa í samningaviðræðum gegnum tíðina og orðið að berjast fyrir okkar kjörum. Við höfum einnig verið lengur með lausa samninga en í þessari lotu núna. Okkar saga hefur einkennst af mikilli kjarabaráttu,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en í dag eru nákvæmlega 100 ár liðin síðan stofnað var fyrsta stéttarfélag hjúkrunarfræðinga, sem fékk heitið Félag íslenskra hjúkrunarkvenna.

Baksvið

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Við höfum oft þurft að standa í samningaviðræðum gegnum tíðina og orðið að berjast fyrir okkar kjörum. Við höfum einnig verið lengur með lausa samninga en í þessari lotu núna. Okkar saga hefur einkennst af mikilli kjarabaráttu,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en í dag eru nákvæmlega 100 ár liðin síðan stofnað var fyrsta stéttarfélag hjúkrunarfræðinga, sem fékk heitið Félag íslenskra hjúkrunarkvenna.

Frá 1994 hefur félagið borið núverandi heiti eftir sameiningu Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélags Íslands.Hjúkrunarfræðingar hafa verið með lausa samninga síðan 31. mars sl. og lítið þokast í viðræðunum. Deilunni hefur ekki verið vísað til sáttasemjara en samninganefndir ríkis og sveitarfélaga hafa fyrst viljað klára samninga við félög BHM og BSRB. Alls eru um 3.300 hjúkrunarfræðingar starfandi í landinu en félagsmenn eru yfir 4.000.

„Við erum enn að tala saman, þó að hægt gangi. Við leggjum mikla áherslu á styttingu vinnuvikunnar og betra starfsumhverfi en tveir þriðju okkar félagsmanna eru í vaktavinnu. Við finnum það vel hjá okkar fólki að það gætir vaxandi óþolinmæði. Samningar hafa verið lausir síðan í mars og nú þegar komið er inn í nóvember hefur ekki nógu mikið gerst á þessu tímabili,“ segir Guðbjörg.

Sameina deildir vegna skorts á hjúkrunarfræðingum

Mikið álag á hjúkrunarfræðinga og eilíf umræða um niðurskurð á Landspítalanum hefur komið niður á líðan þeirra og margir horfið til annarra starfa. „Við finnum svo sannarlega fyrir þessu og margir hafa leitað til okkar með sín mál. En þetta er ekkert að gerast á einni nóttu, þróunin hefur verið svona yfir lengri tíma vegna fækkunar í stéttinni. Núna er Landspítalinn til dæmis að sameina deildir vegna skorts á hjúkrunarfræðingum,“ segir Guðbjörg og vísar til nýlegrar sameiningar krabbameinslækningadeildar og blóðlækningadeildar. „Þetta er ekkert fyrsta tilfellið og á eflaust ekki eftir að verða það síðasta ef svona heldur áfram.“ Hún telur að hægt sé að stoppa að mestu í gatið og koma í veg fyrir flótta úr stéttinni. Spurð með hvaða leiðum segir Guðbjörg lausnina liggja í kröfum félagsins; hækkun grunnlauna til móts við stéttir með sambærilega menntun eða laun, og styttingu vinnuvikunnar. Til samanburðar við hinar Norðurlandaþjóðirnar skili engir hjúkrunarfræðingar 40 stunda vinnuviku nema hér á landi. „Allar rannsóknir hafa sýnt að þar sem er almennileg mönnun þar helst betur á hjúkrunarfræðingum og betri þjónusta er veitt. Þar er minna um óhöpp, færri dauðsföll og hjúkrunarfræðingum líður betur. Flest lönd í kringum okkur hafa uppgötvað að þetta borgar sig og þess vegna er til mikils að vinna. Við erum alltaf að reyna að plástra sárin og leysa mál til skamms tíma,“ segir Guðbjörg.

Hún telur að hægt verði að fá hjúkrunarfræðinga aftur til starfa ef gengið yrði að kröfum félagsins. Einnig verði að huga vel að nýliðun í faginu og sem betur fer sé mikill áhugi á hjúkrunarfræði í háskólunum. Umsóknir um nám hafi verið fleiri en hægt hafi verið að taka inn, og það sé lúxusvandamál. Guðbjörg segir styttast í að stór hópur hjúkrunarfræðinga fari á eftirlaun. Nú sé meðalaldur starfandi hjúkrunarfræðinga um 46 ár.

Stofnað til að koma á námi

Félag íslenskra hjúkrunarkvenna var stofnað 18. nóvember 1919, fyrir nákvæmlega 100 árum. Markmið félagsins var að koma á fót námi í hjúkrun hér á landi. Nafni félagsins var breytt árið 1960 í Hjúkrunarfélag Íslands en þá höfðu fyrstu karlmennirnir gengið í það. Árið 1978 var stofnað félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, sem höfðu próf frá Háskóla Íslands en það félag sameinaðist Hjúkrunarfélagi Íslands 15. janúar 1994 og úr varð Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Síðan þá hafa fimm hjúkrunarfræðingar gegnt formennsku í félaginu. Fyrsti formaður sameinaðs félags var Ásta Möller. Formaður í dag er Guðbjörg Pálsdóttir.