Eldfjallavefsjáin Hún er gagnvirk og geymir gríðarmikinn fróðleik.
Eldfjallavefsjáin Hún er gagnvirk og geymir gríðarmikinn fróðleik. — Kort/islenskeldfjoll.is
Aðgangur að íslenskri eldfjallavefsjá (www.islenskeldfjoll.is) var opnaður á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, sem jafnframt er dagur íslenskrar tungu. Það var við hæfi því Jónas var einn brautryðjenda íslenskra náttúruvísinda.

Aðgangur að íslenskri eldfjallavefsjá (www.islenskeldfjoll.is) var opnaður á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, sem jafnframt er dagur íslenskrar tungu. Það var við hæfi því Jónas var einn brautryðjenda íslenskra náttúruvísinda.

Vefsíðan er gagnvirk og geymir heildaryfirlit um virkar eldstöðvar á Íslandi sem eru 32. Eldfjallavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra með aðkomu fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga sem hafa lagt verkefninu lið, að því er segir á heimasíðu Veðurstofu Íslands. Bergrún Óladóttir, Ríkey Júlíusdóttir og Gunnlaugur Bjarnason hafa unnið að þýðingu á efni vefsíðunnar frá því snemma árs 2018, en vinna við enska útgáfu síðunnar hófst fljótlega eftir Eyjafjallajökulsgosið 2010. Enska útgáfan af vefnum var opnuð árið 2016.

Verkið hlaut styrk úr sjóði Áslaugar Hafliðadóttur. „Með þýðingu efnis vefsjárinnar verður íslenskumælandi almenningi auðveldað aðgengi að þessum mikilvægu upplýsingum og grunn- og framhaldsskólum veitt öflugt kennslutól um eldvirkni landsins. Ísland er lítið málsamfélag og mikilvægt er að viðhalda og styrkja notkun íslensku í jarðfræðum með íslenskun viðurkennds fræðiefnis og útgáfu þess á aðgengilegu formi.“ gudni@mbl.is