Stan Deal, sem stýrir flugvélaframleiðslusviði Boeing, segir fyrirtækið gera sér fulla grein fyrir að það þurfi að ávinna sér aftur traust bæði flugvélakaupenda og almennings.

Stan Deal, sem stýrir flugvélaframleiðslusviði Boeing, segir fyrirtækið gera sér fulla grein fyrir að það þurfi að ávinna sér aftur traust bæði flugvélakaupenda og almennings. Deal lét þessi ummæli falla á fundi með blaðamönnum í upphafi flugsýningarinnar í Dúbaí sem hófst á sunnudag og greinir Reuters frá. Að vanda taka fulltrúar flugfélaga og ríkisstjórna stefnuna á viðburðinn, sem haldinn er í Sameinuðu arabísku furstadæmunum annað hvert ár, til að leggja þar drög að kaupum á farþegaþotum jafnt sem herflugvélum.

Markaðsgreinendur munu fylgjast náið með þeim viðtökum sem Boeing fær í Dúbaí en orðspor flugvéla fyrirtækisins hefur beðið mikið tjón í kjölfar þess að galli í tæknibúnaði varð til þess að tvær 737 MAX-farþegaþotur fórust með sex mánaða millibili árin 2018 og 2019. Bæði olli það flugfélögum miklu tjóni þegar 737 MAX-vélarnar voru kyrrsettar, en einnig virðist almenningur afhuga því að fljúga með Boeing-vélum.

Bandarísk könnun sem gerð var um mitt þetta ár leiddi þannig í ljós að rösklega 40% svarenda sögðust reiðubúin að velja óhentugri eða dýrari flugleið til að komast hjá því að fljúga með 737 MAX og aðeins 14% bandarískra flugfarþega sögðust óhikað myndu fljúga um borð í 737 MAX fyrstu sex mánuðina eftir að flugmálayfirvöld leyfa notkun flugvélanna að nýju.

Fyrr í haust sagði bandaríska flugfélagið United Airlines að það myndi koma til móts við farþega með því að leyfa þeim að breyta flugmiða sínum sér að kostnaðarlausu, ef þeir bóka fyrir misgáning flug með 737 MAX. ai@mbl.is