Jón Aðalsteinn Baldvinsson
Jón Aðalsteinn Baldvinsson
Eftir Jón Aðalstein Baldvinsson: "Ætlar þjóðkirkjan að hundsa nær 300 ára sögu Hólaprentsins?"

Er ég fletti blöðunum, nýkominn heim frá útlöndum, rekst ég á viðtal við Skálholtsbiskup, þar sem hann segir að nú eigi að breyta aflögðu fjósi á Skálholtsstað í prentminjasafn. Ástæða þess sé sú að fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku hafi verið þýdd í Skálholti. Hann getur þess ekki að sú bók, Nýja testamentið, var prentuð í Hróarskeldu árið 1540. Þess er heldur ekki getið að um svipað leyti keypti Jón biskup Arason á Hólum prentsmiðju sem rekin var á Hólum í hart nær 300 ár og var eina prentsmiðjan í landinu nær allan þann tíma. Hún var að vísu staðsett í Skálholti um 12 ára skeið en helftin af öllu prentverki fyrstu aldanna í prentsögu Íslands er frá Hólum komið. Þess vegna eru bækurnar fornu sem varðveittar eru í Skálholti, og biskupinn segir vera aðra forsendu fyrir prentminjasafni á staðnum, upp til hópa Hólaprent.

Nú skal frá því greina, sem mörgum virðist hafa gleymst, að í tilefni af 900 ára afmæli biskupsstóls á Hólum árið 2006, færði ríkisstjórnin Hóladómkirkju veglegt safn Hólaprents að gjöf. Spannar það alla sögu prentverksins og var safn sr. Ragnars Fjalars Lárussonar heitins. Hugmyndin var sú að það yrði kjölfestan í prentminjasafni á Hólum, sem þá var unnið að og komið var nokkuð á legg þegar fjármálahrunið dundi yfir. Það seinkaði þeirri ráðagerð eins og svo mörgu öðru. Ekki má heldur gleyma því að Hólarannsóknin, fornleifagröfturinn, sem hófst upp úr aldamótum og var þjóðargjöf í tilefni af þúsund ára kristni í landinu, afhjúpaði prentsmiðjuhúsið forna. Upp úr því komu fjölmargir prentmunir sem eru að sjálfsögðu miklilsvert innlegg í prentminjasafn. Hvernig væri nú að endurreisa þetta hús, rétt eins og Auðunarstofu hina fornu, sem fyrsta áfanga prentminjasafns, sem að sjálfsögðu á hvergi heima nema á Hólum.

Ég spyr: Ætlar þjóðkirkjan að hundsa nær 300 ára sögu Hólaprentsins með því að kosta uppsetningu prentminjasafns í Skálholti? Varla verða prentminjasöfnin tvö á hennar vegum. Hvar eru nú gæslumenn menningar og minja í landinu? Hvar eru varðmenn Hólastaðar?

Höfundur er fyrrverandi Hólabiskup.