Ragnheiður Jónsdóttir fæddist 26. apríl 1954. Hún lést 30. október 2019.

Útför Ragnheiðar fór fram 9. nóvember 2019.

Elsku besta tengdamóðir og amma drengjanna minna, nú er komið að kveðjustund. Fyrst þegar ég og Ingvar vorum að byrja saman bjó hann hjá þér og ég varð strax vör við hversu náin þið voruð. Þú varst lokuð manneskja og ég upplifði það dálítið sem þú hefðir lítinn áhuga á að kynnast mér fyrr en þú vissir að ég væri komin til að vera. Fljótlega fórum við þó að kynnast betur og þá komst ég að því hversu góð, yndisleg og sterk kona þú varst. Þú varst alltaf hörkudugleg og ég hef heyrt margar sögur frá því þegar þú bjóst í Bolungarvík, allir muna eftir Röggu í sjoppunni.

Fyrsta árið hjá mér í fjölskyldunni dáðist ég að því hvað þú varst dugleg að fara um helgar í sumarbústaðinn þinn í Þykkvabænum. Ég man hvað þér fannst alltaf mikið drasl inni í herbergi hjá okkur og því langaði mig oft að reyna að gera eitthvað fyrir þig heima við á helgum, eins og að þrífa eða þvo þvottinn. Það er mér sérstaklega minnisstætt hvað þér fannst þægilegt að svunturnar fyrir vinnuna væru hreinar þegar þú komst til baka úr bústaðnum.

Þegar við Ingvar fórum að búa sjálf hringdir þú oft í hann bara til að heyra í honum, við komum líka oft í heimsókn því það var auðfundið að þið söknuðuð hvort annars.

Þegar ég rakst á auglýsingu um sveinspróf í vélvirkjun, sem Ingvar var ekki búinn að taka á þeim tíma, hringdi ég í þig til að fá þig til að hjálpa mér að ýta aðeins við honum að fara að klára það. Ég bjóst þó ekki við að þú myndir hringja beint í yfirmann hans og hella þér yfir hann, af hverju hann hefði nú ekki verið hvattur til að klára námið. Það er skemmst frá því að segja að Ingvar tók sveinsprófið í kjölfarið. Svona varst þú alltaf, ekkert að hugsa hlutina of mikið heldur bara framkvæma strax, annars var bara eins gott að sleppa því!

Synir okkar Ingvars hafa alltaf verið hændir að þér og við reyndum að vera dugleg að heimsækja þig. Einnig fórum við fjölskyldan oft í sumarbústaðinn til þín og eigum við margar góðar minningar þaðan.

Eftir að þú veiktist meira flutti þú til okkar fjölskyldunnar á efri hæðina hjá okkur. Báðum strákunum þótti mjög notalegt að fara upp til ömmu og báðu oftast um að fara upp þegar þeir komu heim eftir leikskóla og skóla. Mér fannst þeir vera að trufla þig en þú sagðist ekki vilja að ég bannaði þeim að koma heldur myndir þú frekar senda þá niður.

Samband ykkar Guðjóns, yngri sonar okkar, var einkar náið. Hann bað oftast um að fara beint upp til ömmu eftir leikskóla og eyddi þar löngum stundum. Þér þótti svo notalegt að hafa hann hjá þér, en þá var alltaf sagt „amma ég er svangur“ eða „amma áttu ís“? Auðvitað reddaði amma því alltaf, oftast þegar ég kom upp að láta vita að það væri matur var verið að horfa á einhverja vitleysu sem hann hafði valið og amma sagði alltaf já.

Það er erfitt að kveðja þig en við vitum að þú ert komin á betri stað.

Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur og allar yndislegu stundirnar sem við höfum átt saman. Við elskum þig og þín verður sárt saknað.

Heiða Björk.