Samherji Múturnar eru sagðar hafa farið í vasa ráðamanna í Namibíu.
Samherji Múturnar eru sagðar hafa farið í vasa ráðamanna í Namibíu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is „Samherjamálið hefur náttúrlega ekkert að gera með utanríkisráðherra en það verður alveg örugglega rætt,“ segir Sigríður Á.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

„Samherjamálið hefur náttúrlega ekkert að gera með utanríkisráðherra en það verður alveg örugglega rætt,“ segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, spurð hvort beiðni hafi borist um að utanríkisráðherra svari spurningum um málefni Samherja fyrir nefndinni.

Kallað hefur verið eftir því að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra komi fyrir atvinnuveganefnd til að svara spurningum um málefni Samherja. Það staðfestir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna og formaður nefndarinnar.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kemur fyrir utanríkismálanefnd á föstudag en Sigríður segir að hann hafi ekki verið kallaður fyrir nefndina vegna meintra mútugreiðslna Samherja í Namibíu. Markmiðið sé að ræða fjárlög og þróunarsamvinnu í víðu samhengi.

Lilja segir að ástæða sé til þess að kalla Kristján fyrir nefndina og ætlar hún að kanna hvort og þá hvenær hann hafi tök á að koma. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fulltrúi Vinstri-grænna í atvinnuveganefnd, óskaði eftir komu ráðherra.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, sagði í pistli á föstudag að mál Samherja beindi sjónum að kerfi Íslendinga og völdum stórfyrirtækja í sjávarútvegi hérlendis.

„Samfélög mega ekki vera háð geðþóttaákvörðunum stórfyrirtækja,“ skrifar Drífa, sem kallar eftir því að launafólk og samfélagið í heild njóti arðsins sem fyrirtækin skapa.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, er ósammála því að sjávarútvegsfyrirtæki hafi of sterk tök á bæjarfélögum.

„Þetta er í mínum huga verulega undarlegt viðhorf til sjávarbyggða og til marks um að vonskan sé að ná yfirhönd í umræðunni,“ skrifar Elliði í pistli á vefsíðu sinni Ellidi.is.

Hann segir mútuþægni í Namibíu ekki segja neitt um íslenskan veruleika.

Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri á Íslandi, var gestur í Silfri Egils í gærmorgun. Hann telur víst að norsk lögregluyfirvöld rannsaki Samherjamálið en Øygard óttast að íslenskir fjárfestar muni eiga erfiðara um vik vegna þess að orðspor Íslands og íslensks viðskiptalífs hafi beðið skaða af máli Samherja.