Þorvaldur G. Óskarsson fæddist 2. október 1933. Hann lést 1. nóvember 2019.

Þorvaldur var jarðsunginn 8. nóvember 2019.

„Vinir mínir fara fjöld“ kvað Bólu-Hjálmar og þessi orð hans runnu um hugann nú þegar við kveðjum Þorvald G. Óskarsson frá Sleitustöðum í hinsta sinn. Þorvaldur var einn þeirra fyrstu sem við hjónin kynntumst í Skagafirði þegar við fluttumst heim að Hólum 1981 til að taka þar við skólastjórn. Blaiser-jeppinn gamli þurfti reglulegra viðgerða við.

Á þessum árum var unnið að lagningu Hitaveitu Hjaltadals í Hólalax og heim á Hólastað. Hitaveitan var eitt af lykilatriðum í endurreisn Hólaskóla og Hólastaðar á þeim tíma. Og þá þótti svo sjálfsagt að leita til Þorvaldar sem hitaveitustjóra til að annast viðhald og eftirlit með hitaveitunni. Þorvaldur var einstaklega bónþægur maður svo leitun er á öðrum slíkum. Orðið „nei“ eða „ég hef ekki tíma“ heyrðist aldrei af hans munni. Voru þó verkefni hans heima fyrir á verkstæðinu ærin. „Já, alveg sjálfsagt“ var alltaf hans fyrsta svar og oft var kallað á Þorvald til liðsinnis.

Þegar vantaði skyndilega kennara í rafsuðu, logsuðu og vélfræði við skólann sagði Þorvaldur strax já þótt við vissum að hann hefði nóg á sinni könnu.

Eiginkona Þorvaldar, Sigurlína Eiríksdóttir eða Lína eins og hún var alltaf kölluð, kom til starfa við Hólaskóla 1983 sem ritari og gegndi því starfi samfleytt næstu tæp tuttugu árin. Ljúfari, betri og samviskusamari manneskju getur stofnun varla vænst að fá sem starfsmann. Við minnumst Línu með djúpri virðingu og þökk nú þegar þessi ágætu heiðurshjón eru bæði fallin frá. Lína lést 28. ágúst 2016. Það var allt svo örugggt, pottþétt og sjálfsagt þar sem Lína var. Skólastjórinn hafði tryggan ráðgjafa og skjöld ef þurfti með þar sem Lína var: „Hvar er Jón?“ Og Lína vissi alltaf hverju átti að svara. „Jón skrapp til Reykjavíkur en verður ábyggilega kominn aftur í kvöld.“ Og fyrir nemendur var Lína eins og „stór mamma“ sem allir gátu leitað til og fengið úrlausn. Hólastaður og fjölskyldusamfélagið á Hólum þakkar þeim Línu og Þorvaldi fyrir stundirnar og samstarfið á gróskumiklum tímum. Lína og Þorvaldur voru afar samrýnd og gjarnan nefnd bæði í sömu andránni. Þorvaldur söng með og stýrði Karlakórnum Heimi af mikilli röggsemi um langt árabil. Á söngskemmtunum sá Lína um miðasöluna og utanumhaldið, allt var í öruggum höndum.

Okkur Ingibjörgu er ljúft að þakka áralangt samstarf og vináttu þessara ágætu hjóna. Mér er minnisstætt frá ráðherratíð minni, þá hringdi Þorvaldur og var mikið niðri fyrir: „Það verður sko að stoppa þessa Evrópusambandsumsókn. Hún er bara algjört glapræði og það má ekki halda þessari vitleysu áfram. Eigum við ekki að koma í hópferð héðan úr Skagafirði og setjast upp í þinginu og stöðva með þér þennan óskapnað? Þetta er sko stórhættulegt.“

Þorvaldur skóf ekki utan af hlutunum þegar hann vildi það við hafa og lá ekki á liði sínu ef fylgja þurfti eftir.

Það var ávallt mikil reisn yfir Þorvaldi, hár og teinréttur til síðasta dags. Glaðbeittur og hrókur alls fagnaðar í hópi vina, lék oft bros um vör og með leiftrandi glampa í augum, en fastmæltur og ákveðinn þegar hann fylgdi áherslum sínum eftir. Við hittumst í Staðarskála snemma í haust, hann á leið norður eftir krabbameinsmeðferð. Þar kvöddum við hjónin Þorvald og minntumst góðra daga.

Blessuð sé minning þeirra heiðurshjóna, Þorvalds Óskarssonar og Sigurlínu Eiríksdóttur.

Ingibjörg Kolka

og Jón Bjarnason.