Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu íbúa á Skólavörðustíg 8 um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi í húsnæðinu þar sem áður var...

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu íbúa á Skólavörðustíg 8 um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi í húsnæðinu þar sem áður var hárgreiðslustofa. Þetta kom fram í úrskurði nefndarinnar í síðustu viku.

Mbl.is greindi frá því um miðjan október sl. að íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur hefðu gagnrýnt harðlega fyrrnefnda ákvörðun. Þar er haft eftir íbúasamtökunum að öllum ætti að vera ljóst að breyting úr hárgreiðslustofu sem er lokað klukkan 18 yfir í sportbar með vínveitingaleyfi sem er lokað um miðnætti eða síðar sé veruleg og til þess fallin að valda íbúunum ónæði.

Sögðu samtökin jafnframt að ekki hefði verið hirt um að grenndarkynna breytinguna.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ekki sé að finna sérstaka skilmála er taka til lóðarinnar og því fari landnotkun hennar eftir ákvæðum gildandi aðalskipulags Reykjavíkur. rosa@mbl.is