Sumarrós Lillian Eyfjörð Garðarsdóttir (Rósa), prestsfrú, til heimilis á Hraunvangi 3, Hafnarfirði, fæddist í Felli, Glerárþorpi, Akureyri, þann 15. september 1928. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 11. nóvember 2019. Foreldrar hennar voru Garðar Júlíusson, sjómaður og iðnverkamaður, f. 20.7. 1901 og Sigurveig Guðbjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 15.9. 1901. Systkini Sumarrósar voru Bergsteinn, f. 14.8. 1925, Júlía, f. 8.1. 1932 og Laufey, f. 24.1. 1935.

25. nóvember 1961 giftist Sumarrós Birgi Snæbjörnssyni sóknarpresti, síðar prófasti. Foreldrar Birgis voru Snæbjörn Þorleifsson, bifreiðaeftirlitsmaður á Akureyri, f. 22.3. 1901 og Jóhanna Þorvaldsdóttir húsfreyja, f. 9.12. 1895.

Börn Sumarrósar og Birgis eru:

1) Jóhanna Erla Birgisdóttir guðfræðingur, f. 26.5. 1963, maki Einar Kristján Hermannson verkefnastjóri, f. 5.12. 1960. Börn Jóhönnu eru: a) Arnaldur Birgir Magnússon tæknifræðingur, f. 2.11. 1980, maki Anna Guðrún Árnadóttir sjávarútvegsfræðingur, f. 10.11. 1982, börn þeirra eru: Aldís Ósk, f. 23.1. 2010 og Árný Helga, f. 2.3. 2012. b) Andri Freyr Magnússon vélfræðingur, f. 3.7. 1984, maki Inga Kristín Sigurgeirsdóttir tanntæknir, f. 1.9. 1987. c) Sigrún María Magnúsdóttir leikskólakennari, f. 21.1. 1986. Börn Einars eru: a) Svanhildur lífeindafræðingur, f. 31.1. 1985, maki Sigurður Árni Jósefsson verslunarmaður, f. 24.12. 1975, börn þeirra eru: Lilja Karen, f. 15.11. 2006, Jósef Arnar, f. 22.1. 2014 og Sóllilja Svava, f. 2.12. 2015. b) Elmar Aron prentari, f. 15.12. 1988, maki Hjördís Ágústa Helgadóttir heilbrigðisstarfsmaður, f. 8.9. 1990, börn þeirra eru: Baltasar Leví, f. 24.7. 2014 og Nóel Hrafn, f. 6.11. 2017. c) Davíð Snær kaffiþjónn, f. 24.10. 1994. d) Elín Dagmar nemi, f. 26.7. 2002, maki Ísak Helgi Hilmarsson, f. 11.11. 2002.

2) Birgir Snæbjörn Birgisson myndlistarmaður, f. 13.5. 1966, maki Sigrún Sigvaldadóttir, grafískur hönnuður, f. 7.4. 1965. Börn Birgis eru: a) Ásta Björk, bókasafns- og upplýsingafræðingur, f. 25.2. 1985, maki Þorsteinn Gunnar Gunnarsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, f. 29.2. 1980, börn þeirra eru: Snæbjörn Kári, f. 5.11. 2009 og Júlíana Sumarrós, f. 28.6. 2012. b) Berglind Rósa sagnfræðingur, f. 16.4. 1988, maki Kristinn Már Ingvarsson trésmiður, f. 22.12. 1975, börn þeirra eru: Helena Inga, f. 1.3. 2014 og Sæmundur Jaki, f. 12.5. 2017. Börn Sigrúnar eru: a) Úlfur Þorvarðarson lagerstjóri, f. 27.10. 1990, maki Imee Dugay Acob nemi, f. 11.9. 1993, barn þeirra er: Alexander Amon, f. 23.4. 2019. b) Assa Þorvarðardóttir nemi, f. 22.7. 1993.

Sumarrós lauk gagnfræðaprófi auk prófs frá Húsmæðraskólanum að Laugalandi í Eyjafirði. Hún vann lengst af við verslunarstörf í Amaró. Hún var heiðursfélagi í kór Glerárkirkju og ein af stofnendum Lögmannshlíðarkórsins, nú kórs Glerárkirkju. Hún söng jafnframt með kirkjukór Akureyrarkirkju í nokkur ár. Sumarrós var formaður Kvenfélags Akureyrarkirkju um tíma og ein af stofnendum Innerwheel-klúbbs Akureyrar og eitt tímabil forseti klúbbsins.

Útför Sumarrósar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 18. nóvember 2019, kl. 13.30.

Út um mela og móa

syngur mjúkrödduð lóa

og frá sporléttum spóa

heyrist sprellfjörugt lag.

Þetta var lagið hennar Rósu, að minnsta kosti fannst okkur systkinunum það. Ef það var keðjusöngur þá stjórnaði Rósa.

Mikill samgangur var á milli fjölskyldnanna, sem bjuggu ávallt nálægt hvor annarri og börnin á svipuðum aldri.

Það ríkti gleði í kringum Rósu og Birgi. Þau höfðu lag á að gera sögurnar áheyrilegar. Þau voru bæði miklir sagnaþulir og það var ósjaldan sem Rósa frænka náði athygli okkar með sögum af æskuárunum í Felli, ungmeyjarsögum með vinkonunum, ferðasögum fjölskyldunnar eða af uppátækjum sínum á gamals aldri. Stundum fór hún með frumort ljóð, hló síðan dátt og sagði: „Þetta er nú meiri leirburðurinn hjá mér!“ Við vorum ekki sammála og hvöttum hana til að fara að safna í ljóðabók. Ljóðabók Rósu hefur ekki komið út, en eitt og eitt ljóð eftir frænku rataði í hirslurnar okkar.

Það var mikill gestagangur á heimilinu. Fólk átti erindi við prestinn sinn og prestsheimilið var opið öllum allan sólarhringinn. Birgir gat verið kallaður út hvenær sem var. Hann var ekki bara að „embætta“ heldur var hann sáluhjálpari sem allir höfðu aðgang að. Rósa hans tók virkan þátt og var alltumlykjandi.

Allir alltaf velkomnir. Okkur systkinum fannst að svona hlyti þetta að vera á öllum prestssetrum. Rósa var stöðugt að. Ef hún var ekki að sinna börnunum var hún að elda og baka. Ef hún var ekki að sinna heimilisstörfum inni skreið hún á fjórum fótum um garðinn að hlúa að gróðrinum. Rósa útbjó matar- og kaffisamsæti af stakri snilld. Skonsur og horn, listilega skreyttar smurbrauðstertur og sandkökur. Heimili Rósu og Birgis, Jóhönnu og Bibba var nostursamlegt. Það var fínt og fallegum húsgögnum og hlutum komið haganlega fyrir.

Svo áttu þau sælureiti, fyrst í Vaglaskógi og síðar í Vaðlaheiði. Ósjaldan var safnast þar saman á góðum stundum, farið í leiki, grillað og sagðar sögur, hlegið og safnað ógleymanlegum minningum.

Það var stutt í hláturinn hjá Rósu. Á mannamótum fjölskyldunnar mátti stundum finna hana í eldhúskrók þar sem unga fólkið, a.m.k. stelpurnar, var búið að króa hana af og fá hana til að spá um leyndardómsfulla framtíð.

Henni hafði nefnilega orðið það á að segja frá því þegar hún var unglingur og var með vinkonum sínum að spá í bolla. Eftir það var hún stundum spurð hvort „mætti drekka úr kaffibolla“. Það þýddi að nú væri áhugi fyrir spádómsstund. Ætíð skyldi hún malda svolítið í móinn, hlæja en gefa sig síðan: „Æi, ég kann ekkert að spá.“ Svo mátti sjá bollana á hvolfi í röðum á ofnunum fyrir spádómsstund.

Rósu þótti gaman að mála og málaði undurfallega á bæði nytjahluti og skrautmuni. Eftir að hún flutti suður á Hrafnistu gerði hún fallega leirmuni og málaði á léreft. Hvort sem hún var að móta úr leir eða mála mynd sýndi handverkið hennar oftar en ekki persónulegar upplifanir og minningar.

Rósa hafði alltaf eitthvað gott til málanna að leggja. Það var gaman að ræða við hana, hvort sem var um löngu liðna tíð eða um atburði líðandi stundar. Hún átti auðvelt með og naut þess að ræða málin við fólk og hafði einstaklega hlýja og gefandi nærveru.

Takk Rósa frænka.

Sá ég spóa suðr' í flóa,

syngur lóa út í móa.

Bí bí bí bí.

Vorið er komið víst á ný.

Sigurður Jóhannesson, börn og fjölskyldur þeirra.

Úti um mela og móa – syngur mjúkrödduð lóa, er sungið hástöfum í bláum Volvo meðan hann hossast eftir moldartroðningi norður Fljótsheiðina. Árið er 1970 og ferðinni er heitið í rauðan kofa sem dvelja átti í yfir helgi meðan pabbi og séra Birgir ætluðu að veiða. Rósa frænka stjórnaði fjörinu í bílnum og hver söng með sínu nefi. Svona minningarbrot ásamt fjölda annarra fóru í gegnum huga minn þegar ég heyrði af fráfalli Rósu frænku. Ég hugsa reyndar oft til þess hvað við vorum lánsöm systkinabörnin að alast upp við þessa miklu samheldni systranna frá Felli. Allar þessar samverustundir fjölskyldnanna eru ómetanlegar minningar.

Með fráfalli Rósu frænku er gengin síðasta systkinið úr suðurenda Fells og það er svolítið skrítin tilhugsun að við systkinabörnin erum allt í einu orðin elsta kynslóðin. Staða sem maður hefur aldrei hugsað út í. Í framhaldinu fer maður svo eðlilega að velta því fyrir sér hvort við séum að standa okkur eins vel í því að rækta samband yngri kynslóða fjölskyldunnar og þær systur gerðu svo vel og er okkur ómetanlegt í dag.

Það var oft mikið líf í kringum Rósu, hún var músíkölsk, söng í kórum og spilaði á hljóðfæri. Það gat því oft verið mikið fjör þegar hún var að hafa ofan af fyrir okkur. Rósa var hafsjór af sögum og fróðleik og var ósínk á slíkt þegar kom að okkur krökkunum. Í minningunni finnst mér hún hafa oft talað við okkur krakkana eins og við værum fullorðið fólk. Sagði okkur frá hlutum sem fullorðna fólkið talaði um. Þetta þótti mér gaman og kannski varð ég pínulítið upp með mér.

Rósa frænka var einstök kona, hæglát en með sterkar skoðanir og lagði mér oft lífsreglurnar en alltaf á sinn alúðlega hátt. Hún var yndisleg manneskja sem lét sér annt um alla og mátti aldrei neitt aumt sjá. Rétt eins og móðir mín kenndi hún mér margt um samkennd og kærleik við náungann. Enda má segja að vegna hins mikla samgangs sem var á milli fjölskyldna systranna í Felli þá höfum við krakkarnir notið góðrar leiðsagnar og uppeldis á öllum þremur heimilunum.

Nú er Rósa frænka farin að syngja með öðrum kór, enda mun henni ætlað stórt hlutverk þar. Það veit ég fyrir víst að það hefur verið tekið vel á móti henni. Mér er efst í huga þakklæti fyrir það að hafa fengið að kynnast manneskju eins og Rósu og alast upp í nálægð við hana og þau systkini. Ég bið guð að styrkja fjölskylduna og vaka yfir henni í sorg sinni.

...

og frá sporléttum spóa

heyrist sprellfjörugt lag.

Holle-rassihía, holle-rassíhú, gú gú

Holle-rassihía, holle-rassíhú, gú gú

Holle-rassihía, holle-rassíhú, gú gú

Holle-rassihía hó.

Þráinn Lárusson.