Forseti Trump hafði ekki farið leynt með stuðning sinn við frambjóðendur repúblikana í ríkisstjórakosningunum.
Forseti Trump hafði ekki farið leynt með stuðning sinn við frambjóðendur repúblikana í ríkisstjórakosningunum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Íbúar Louisianaríkis kusu demókratann John Bel Edwards til áframhaldandi setu í stóli ríkisstjóra á laugardag.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Íbúar Louisianaríkis kusu demókratann John Bel Edwards til áframhaldandi setu í stóli ríkisstjóra á laugardag. Sigur hans þykir fela í sér nokkurt högg fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem heimsótti ríkið nokkrum sinnum í aðdraganda kosninganna til að sýna stuðning sinn við frambjóðanda repúblikana, á sama tíma og fulltrúadeild þingsins stendur fyrir rannsókn á háttsemi hans í embætti.

Frambjóðandinn sem Trump studdi, fjármálamaðurinn Eddie Rispone, hlaut 48,7% greiddra atkvæða gegn 51,3% Edwards.

Ríkið hefur yfirleitt þótt öruggt fyrir repúblikana og sigraði Trump sjálfur í ríkinu með 20 prósentustiga mun í forsetakosningunum árið 2016.

Verðið að færa mér sigur

Aðeins er um vika síðan ríkisstjóri Kentucky, Matt Bevin, beið ósigur gegn mótframbjóðanda sínum úr röðum demókrata, Andy Beshear, en forsetinn hafði einnig ítrekað stuðning sinn við kjósendur í því ríki.

„Þið verðið að færa mér stóran sigur,“ sagði Trump í síðustu viku við kjósendur sem saman voru komnir á stuðningsfundi í Louisiana, og vísaði til ósigursins í Kentucky. Skilaboðin virðast ekki hafa dugað til.

Edwards sagði í þakkarræðu sinni á laugardagskvöld að „sameiginleg ást okkar á Louisiana er ætíð mikilvægari en þær flokkslínur sem stundum tvístra okkur. Og hvað forsetann varðar: Guð blessi hjarta hans“, sagði Edwards og uppskar hlátur og fögnuð viðstaddra, en kveðja þessi getur verið tvíræð í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Sama kvöld undirgekkst forsetinn tveggja klukkustunda læknisskoðun á sjúkrahúsi í Washingtonborg, samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu. Læknisskoðunin var þó ekki á dagskrá forsetans, öfugt við þá sem hann undirgekkst á sama sjúkrahúsi í febrúar.

Stephanie Grisham, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir forsetann hafa viljað nýta helgina til að hefja hluta af árlegri læknisskoðun sinni, þar sem hann búist við að mikið verði að gera á komandi ári.