Vilhelmína Sofía Sveinsdóttir fæddist í Reykjavík 30. júlí 1934. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli við Sæbraut 6. nóvember 2019.

Foreldrar Vilhelmínu voru Sveinn Tómasson málarameistari, f. 12. ágúst 1898, d. 23. júlí 1960, og Sigríður Alexandersdóttir, f. 13. júní 1910, d. 10. febrúar 1992. Systkini Vilhelmínu voru: Sæmundur Ingi, f. 29. apríl 1931, d. 1. ágúst 1996, og Guðlaug Helga, f. 29. mars 1939, d. 16. október 2003.

Vilhelmína ólst upp í Vesturbænum, á Bræðraborgarstíg 35. Ung kynntist hún Þorsteini Ásgeirssyni, f. 12. júní 1933, d. 30. ágúst 1997. Foreldrar hans voru Ásgeir Þorsteinsson og Elín Hafstein. Þorsteinn og Vilhelmína gengu í hjónaband hinn 9. maí 1953. Börn þeirra eru: 1) Sveinn Jónas, maki Brynhildur Agnarsdóttir, synir þeirra eru: a) Agnar, maki Elín Freyja Eggertsdóttir og eiga þau synina Eggert Svein og Svein Brynjar, b) Arnar, sambýliskona Sif Maríudóttir og eiga þau soninn Elmar. 2) Ásgeir, maki Magnea Rannveig Hansdóttir, synir þeirra eru a) Þorsteinn Helgi, látinn, og b) Helgi Freyr. 3) Ragnheiður Guðrún, maki Gunnar Ólafur Einarsson, börn Gunnars eru Gunnhildur og Magnea.

Útför Vilhelmínu fer fram frá Breiðholtskirkju í dag, 18. nóvember 2019, klukkan 13.

Elsku amma Mína. Hér sit ég úti í Amsterdam og skrifa þér þessi minningarorð.

Þú hefur heldur betur lagt mikið af mörkum á þinni lífsleið. Þú hefur alltaf haft mikla trú og ást á mér. Ég fór að hugsa til baka, þegar við vorum saman á Spáni árið 2001 (bjalla-0-bjalla, manstu). Við vöknuðum bæði alltaf á undan mömmu og pabba, sem voru með okkur í þessari ferð. Þá fórum við að velta fyrir okkur, úti á svölum, hvaða sólbekki við skyldum nú reyna að næla í fyrir daginn. Oftar en ekki brustum við í söng við það tilefni og gerðum óspart grín að okkur sjálfum á meðan.

Það næsta sem kemur upp í hugann eru jólin 2003. Þá áttir þú mjög erfitt og mér þótti afar erfitt að horfa upp á þessa yndislegu konu þjást jafnmikið og þá. En viti menn, þér tókst að standa það af þér með sóma og breyttir eins og fagmaður.

Í verkfalli grunnskólakennara árið 2004 reyndist þú heldur betur stór klettur fyrir mömmu og pabba, það stóð yfir í tæpa tvo mánuði og á meðan, yfir vinnutíma á daginn, var ég hjá þér á Blöndubakkanum. Þá brölluðum við nú heldur betur margt saman og þú varst dugleg að fara með mig hingað og þangað um bæinn.

Eftir að ég fór að hafa áhuga á því hverju ég klæddist gafstu mér kolsvarta skyrtu. Þú sagðir að það væri nú bara nauðsyn í fataskáp ungs manns, eins og ég var þá. Þessa skyrtu á ég ennþá til og held mikið upp á. Ef ég gæti myndi ég skarta henni í dag, þér til heiðurs, með hvítt bindi við. Þegar ég fermdist létum við taka af okkur svo dásamlega mynd, sem ég held mikið upp á og á útprentaða á striga heima á Íslandi. Þú sagðir mér sögu frá því þið afi voruð í London í gamla daga. Þá tók afi sko ekki annað í mál en að klæðast brúnum leðurskóm. Það hef ég gert, til þessa dags, frá því að þú sagðir mér þetta. Í hvert sinn sem ég íhuga skókaup kemur þetta upp í hugann og ég byggi yfirleitt alltaf val mitt á þessu.

Mig langar bara að þakka þér kærlega fyrir að styðja mig til dáða í gegnum tíðina og þar ber helst að nefna gjafir þínar til mín í kjölfar þess að ég væri á leið til Hollands.

Þú komst oft með okkur upp í Húsafell í kringum 17. júní, þegar við fórum í veiðiferðir á Arnarvatnsheiði. Þá urðuð þið mamma og Dedda eftir í sumarbústaðnum, sem við höfðum leigt, yfir daginn á meðan við karlarnir vorum lengst uppi á heiði að maka krókinn fyrir silunginn. Það voru góðir tímar.

Við þessi skrif kemur enn eitt upp í hugann sem mig langar að nefna í þessu samhengi. Það er að í kringum allar þessar veiðiferðir áttir þú það gjarnan til að taka sem dæmi gamlan fjölskyldumeðlim þinn, frá því í gamla daga, sem var einmitt gefinn fyrir að veiða eins og við. Í því samhengi nefndir þú alltaf það sama. „Hvernig nennir hann að standa úti í vatni með prik allan daginn?“ Þessi málsgrein kom reglulega fyrir uppi í Húsafelli. En alltaf hafðir þú jafn gaman af því að sjá okkur koma með afla ofan af heiði og hvað þá fannst þér nú dásamlegt að fá máltíð upp úr því.

Síðast þegar ég hitti þig, elsku amma mín, var 24. ágúst í kveðjukvöldverði með ykkur „gamla“ fólkinu. Þar gæddum við okkur einmitt á silungi sem við pabbi veiddum í sumar og þú alltaf jafn sátt með matinn.

Ég elska þig að eilífu og takk fyrir að hafa verið þú.

Þinn

mbl.is/andlat

Helgi Freyr.