Ónýtt Slökkviliðsmenn rífa eins mikið og þarf af húsinu eða þar til hættir að loga. Að öllum líkindum verður ekkert eftir nema grunnurinn, að sögn Ólafs.
Ónýtt Slökkviliðsmenn rífa eins mikið og þarf af húsinu eða þar til hættir að loga. Að öllum líkindum verður ekkert eftir nema grunnurinn, að sögn Ólafs. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
Ragnhildur Þrastardóttir Guðrún Hálfdánardóttir Birgir Skjóldal, íbúi á Norðurgötu 1 á Akureyri, vaknaði við ófagra sjón á sunnudagsmorgun þegar húsið við hliðina á honum var alelda.

Ragnhildur Þrastardóttir

Guðrún Hálfdánardóttir

Birgir Skjóldal, íbúi á Norðurgötu 1 á Akureyri, vaknaði við ófagra sjón á sunnudagsmorgun þegar húsið við hliðina á honum var alelda.

Þegar blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af Birgi í gær var vinnuvél mætt á staðinn til að rífa húsið. Það er gjörónýtt.

„Ég vaknaði við eldsvoðann rétt fyrir hálfsex í morgun,“ sagði Birgir í gær.

Húsið sem kviknaði í stóð við Norðurgötu 3 en í húsinu voru þrjár íbúðir. Íbúar tveggja þeirra náðu að koma sér út en sá þriðji var ekki á svæðinu þegar slökkviliðsmenn bar að garði.

Eldurinn kom upp um fimmleytið í fyrrinótt.

Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri var mikill eldsmatur í húsinu, sem var þriggja hæða timburhús.

„Það var frekar óþægilegt að vakna við þetta,“ sagði Birgir.

„Eins og þú heyrir er verið að rífa húsið því það er gjörónýtt.“

300 gráða hiti

Erfiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins en allar vaktir slökkviliðsins á Akureyri voru kallaðar út og á þriðja tug slökkviliðsmanna tók þátt í slökkvistarfinu.

Húsið var alelda um tíma og slökkviliðsmenn komust ekki inn til þess að slökkva eldinn innan frá. Þegar tveir slökkviliðsmenn reyndu að fara inn í logandi húsið urðu þeir frá að hverfa.

„Þeir fóru inn í smástund en voru komnir inn í 300 gráða hita strax. Það var farið að hrynja úr loftinu þannig að þeir hörfuðu út aftur,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri.

Talsverðan reyk lagði yfir hluta Oddeyrarinnar, þar sem húsið stóð, og fólk var beðið að loka hjá sér gluggum vegna þess.

Birgir býr við hlið hússins sem brann en segir að reykurinn hafi ekki valdið sér óþægindum.

„Við erum sunnan við húsið og það var sunnanátt og lagði til norðurs svo reykurinn barst ekki til okkar.

Fyrir okkur var það ágætt í sjálfu sér en fyrir fólk hérna norðan við húsið var þetta verra.“

Málað í sumar og leit vel út

Þrátt fyrir að húsið hafi verið gamalt segir Birgir að það hafi verið í góðu standi.

„Það var í ágætis ásigkomulagi, ein íbúðin var nýuppgerð, hafði nýlega verið tekin í gegn frá A til Ö og risið var mjög gott. Ég veit svo sem ekki hvernig ástandið var í þriðju íbúðinni. Húsið var nýmálað, málað í sumar, og leit bara mjög vel út. Svo húsið var alls ekki illa til haft,“ segir Birgir.

Þrír eigendur eru að húsinu og segir Birgir að hingað til hafi þeir ekki verið viljugir að veita fjölmiðlum viðtöl.

Eldsupptök eru enn ókunn en rannsókn er í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar.