Rósbjörg Jónsdóttir
Rósbjörg Jónsdóttir
Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Niðurstöður framfaravogar sveitarfélaga, mælitækis sem leggur mat á framfarir og styrk samfélagslegra innviða í sveitarfélögum, verða kynntar á fundi á Hótel Reykjavík Natura klukkan 16:00 í dag.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Niðurstöður framfaravogar sveitarfélaga, mælitækis sem leggur mat á framfarir og styrk samfélagslegra innviða í sveitarfélögum, verða kynntar á fundi á Hótel Reykjavík Natura klukkan 16:00 í dag. Verða úttektir á félagslegum framförum þriggja sveitarfélaga, Árborgar, Kópavogs og Reykjanesbæjar, sem hafa nýtt sér framfaravogina, lagðar fram á fundinum.

Þetta staðfestir Rósbjörg Jónsdóttir, fulltrúi SPI (Social Progress Imperative) á Íslandi.

„Framfaravogin er í raun stjórntæki sem kemur að notum við að auka velferð og framfarir í samfélögum. Hún byggist á aðferðafræðinni um vísitölu félagslegra framfara,“ segir Rósbjörg í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að vinnan í fyrrnefndum sveitarfélögum hafi sýnt fram á að ákveðinn skortur sé á samræmanlegum gögnum á milli sveitarfélaga.

„Það er skortur á fullnægjandi gögnum fyrir heilbrigði, vatn, hreinlæti og húsnæði fyrir einstök sveitarfélög til samræmis við þessa framsetningu,“ segir Rósbjörg.

Segir hún að niðurstöður bendi jafnframt til þess að efla þurfi mælingar og tryggja samhæfni gagna milli sveitarfélaga hvað varðar umhverfisþætti, umhverfismál og aðstæður íbúa af erlendum uppruna.

„Framfaravogin er mikilvægur vegvísir fyrir sveitarfélög sem hjálpar þeim að byggja upp heilbrigt og gott samfélag þar sem velferð og ánægja er höfð að leiðarljósi,“ segir Rósbjörg.

„Það eru sveitarfélögin sem bera ábyrgð og þau þurfa að hafa gott aðgengi að áreiðanlegum gögnum til að þau geti eflt starfsemi í sínum samfélögum. Það er það sem framfaravogin getur hjálpað við.“

Aðgengi verður að gögnum fundarins á socialprogress.is.