Kátir Griezmann (7) var laufléttur í gær og fagnar hér marki.
Kátir Griezmann (7) var laufléttur í gær og fagnar hér marki. — AFP
Frönsku heimsmeistararnir höfnuðu í efsta sæti H-riðils okkar Íslendinga í undankeppni EM karla í knattspyrnu. Frakkland vann Albaníu 2:0 á Kombëtare-vellinum í Tirana í Albaníu í gær.

Frönsku heimsmeistararnir höfnuðu í efsta sæti H-riðils okkar Íslendinga í undankeppni EM karla í knattspyrnu. Frakkland vann Albaníu 2:0 á Kombëtare-vellinum í Tirana í Albaníu í gær. Corentin Tolisso og Antoine Griezmann skoruðu mörk Frakka, sem rökuðu saman 25 stigum í riðlinum.

Tyrkland varð í 2. sæti með 23 stig en Ísland fékk 19 stig og kom næst á eftir Tyrkjum. Í lokaumferð riðilsins í gær fóru Tyrkir til Andorra og unnu 2:0. Enes Unai skoraði bæði mörkin. Albanía fékk 13 stig, Andorra fjögur og Moldóva þrjú.

Hollendingar hafa náð vopnum sínum eftir mögur ár, að einhverju leyti að minnsta kosti. Holland gerði markalaust jafntefli gegn Norður-Írlandi í Belfast og er komið áfram ásamt Þýskalandi þótt riðlinum sé ekki lokið. Þjóðverjar eru með 18 stig, Hollendingar 16 og N-Írar 13. Holland vann N-Írland í fyrri leik liðanna í Hollandi og er því með betri árangur í innbyrðisviðureignum. Holland hefur misst af síðustu tveimur stórmótum eftir að hafa hafnað í 3. sæti á HM 2014.

Evrópumeistararnir frá Portúgal unnu 2:0 í Lúxemborg í B-riðli og tryggðu sér sæti í lokakeppninni. Úkraína kom mörgum á óvart og vann riðilinn án þess að tapa leik. Úkraínumenn fengu 20 stig, Portúgal 17 stig og Serbía 14 stig.

Riðlakeppni EM heldur áfram í kvöld og lýkur annað kvöld. Í kvöld verður mikil spenna hjá Írum og Dönum sem mætast í Dublin. Dönum dugir stig til að komast á EM og Svisslendingar eru líklegir til að komast einnig áfram úr D-riðli.