Gréta Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 19. mars 1936. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni hinn 3. nóvember 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Bjarnason bryti, f. 12. apríl 1905 á Borg í Skötufirði, d. 6. ágúst 1982, og Þuríður E. Baldvinsdóttir húsfreyja, f. 15. mars 1912 á Ísafirði, d. 20. janúar 2000.

Systkini Grétu eru Unnur Ingibjörg, f. 29. apríl 1942, Áslaug Emilía, f. 2. júní 1945, Hulda, f. 22. maí 1949, og Baldvin, f. 22. janúar 1951, d. 16. ágúst 2001.

Gréta giftist hinn 26. júní 1955 Baldri Erling Sigurðssyni stýrimanni frá Ísafirði, f. 23. mars 1931, d. 19. október 1964. Börn þeirra eru: 1) Jón, f. 24. febrúar 1955, d. 22. júlí 2009, synir hans og Áslaugar Kristinsdóttur eru a) Baldur, f. 1988, b) Freyr, f. 1991, og stjúpdóttir Jóns er Hrund Guðmundsdóttir f. 1979. 2) Sigurður Erling, f. 21. nóvember 1957, börn hans og fyrrverandi eiginkonu, Þórdísar H. Hallsteinsdóttur, eru a) Baldur Erling, f. 1976, kona hans er Silje-Marie og börn þeirra eru Mina-Aurora, f. 2001, Carmen-Marie, f. 2009, og Embla-Helen, f. 2013, b) Margeir Jón, f. 1980, sambýliskona hans er Therese Stürtzel, börn hans og fyrrverandi eiginkonu, Christin Curran, eru Eir Gunhild, f. 2008, og Óðinn Christopher, f. 2008, c) María Sif, f. 1985, d) Hulda Hrönn, f. 1990. 3) Þuríður Ellisif, f. 16. apríl 1963, eiginmaður hennar er Jóhann S. Erlendsson, synir þeirra eru a) Arnar Páll, f. 1996, og b) Jóhann Baldur, f. 2002.

Seinni eiginmaður Grétu var Vöggur Jónsson stýrimaður og síðar skrifstofumaður, f. 29. apríl 1932 á Eskifirði, d. 11. nóvember 2016. Sonur þeirra er Ingi Þór, f. 28. desember 1976.

Gréta ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur, stundaði nám í Miðbæjarskólanum og síðar í Gagnfræðaskóla verknáms. Að námi loknu vann Gréta skrifstofustörf þar til hún gifti sig og eignaðist börn en þá varð hún heimavinnandi. Gréta varð ung ekkja og fór þá að vinna á skrifstofu Landssmiðjunnar í Reykjavík og síðan í veðdeild Landsbanka Íslands eða þar til hún giftist Vögg hinn 28. desember 1974. Þau bjuggu fyrst á Eskifirði, þar sem hún vann ýmis skrifstofu- og verslunarstörf, en fluttu svo til Reykjavíkur þar sem hún starfaði í verslun.

Útför Grétu fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 18. nóvember 2019, klukkan 13.

Elskulega systir mín hún Gréta er látin. Minningarnar koma fram í hugann við svona tímamót og þegar myndirnar birtast erum við oft öll systkinin saman því við höfum alltaf verið samrýnd þrátt fyrir hvað við erum ólík og hefur væntumþykja og virðing fylgt okkur.

Þótt maður viti að hverju stefni er sorgin alltaf jafn mikil. Gréta var elst af okkur og lenti það mikið á henni að aðstoða mömmu við að passa litlu börnin, mig og bróður okkar. Hún minntist oft á það þegar hún þurfti að hossa mér í þungu vöggunni og sagði að ég og karfan hefðum verið svo þungar að það væri enn hægt að sjá förin á lærunum á henni, en svo brosti hún, þannig að ég tók því þannig að henni hefði ekki þótt það neitt leiðinlegt. Það var alltaf jafn gaman að hitta hana því hún fagnaði mér alltaf svo innilega.

Hún og Baldur, fyrri maðurinn hennar, bjuggu á neðri hæðinni hjá mömmu og pabba þannig að það var mikill samgangur og var ég mikið niðri hjá þeim. Elsti sonur þeirra, Jón, var eins og litli bróðir og við flökkuðum upp og niður stigann og vissum alltaf að Gréta var niðri og mamma uppi þannig að það lenti mikið á Grétu að gæta þess að við færum okkur ekki að voða í ærslaganginum.

Við Gréta unnum smá tíma saman í verslun og það var gaman að sjá hvað hún hafði mikinn áhuga á starfinu og viðskiptavinunum. Hvernig hún passaði að réttu vörurnar væru á réttum stað og allt í röð og reglu í hillunum. Þetta voru ánægjulegir dagar og gaman að sjá hana systur mína framkvæma og stjórna svona glæsilega. En eins og hún sagði þá fannst henni gaman í vinnunni.

Við Gréta og Vöggur, seinni maður hennar, fórum nokkrum sinnum saman í ferðalag um landið, þetta voru ánægjulegar ferðir. Eitt sinn þegar við fórum vestur fræddi Vöggur okkur Grétu um alla bæi og ábúendur þeirra og við Gréta sungum með tónlistinni í útvarpinu og Gréta kunni alla textana. Eins var þegar við fórum austur og stoppuðum í tíma og ótíma því þau þekktu alltaf einhvern sem þurfti að heilsa og spjalla við. Það eru margar góðar minningar sem ég er þakklát fyrir að eiga í minningabankanum.

Ég kveð systur mína með söknuð í hjarta en með von um að hún sé á góðum stað og líði vel.

Hvíl í friði elsku systir.

Þín litla systir,

Hulda.