Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Gangi áætlanir stjórnvalda eftir verður lokið við breikkun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss, fyrir utan brú á Ölfusá, á árinu 2024. Í framhaldinu verði ráðist í framkvæmdir á milli Fossvalla og Bæjarháls í Reykjavík. Eftir það verður öll leiðin frá Vesturlandsvegi að Selfossi komin með aðskildum akbrautum með vegriði á milli. Hafin er vinna við umhverfismat þess kafla Suðurlandsvegar sem eftir er að meta, það er að segja á milli Hólmsár og vegamóta við Bæjarháls.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Gangi áætlanir stjórnvalda eftir verður lokið við breikkun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss, fyrir utan brú á Ölfusá, á árinu 2024. Í framhaldinu verði ráðist í framkvæmdir á milli Fossvalla og Bæjarháls í Reykjavík. Eftir það verður öll leiðin frá Vesturlandsvegi að Selfossi komin með aðskildum akbrautum með vegriði á milli. Hafin er vinna við umhverfismat þess kafla Suðurlandsvegar sem eftir er að meta, það er að segja á milli Hólmsár og vegamóta við Bæjarháls.

Nú er verið að ljúka framkvæmdum við breikkun vegarins á milli Varmár við Hveragerði og Kotstrandarkirkju í Ölfusi. Samkvæmt tillögu að endurskoðaðri samgönguáætlun verður haldið áfram og vegurinn lagður að hringtorgi sem útbúið verður á gatnamótum Suðurlandsvegar við Biskupstungnabraut. Unnið verður að undirbúningi vegar þaðan á nýrri brú yfir Ölfusá hjá Selfossi en reiknað er með að sú framkvæmd verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila og hefur ekki verið tímasett. Jafnframt verður unnið að breikkun Suðurlandsvegar á milli Kamba og Varmár, framhjá Hveragerði, á árunum 2023 til 2024.

Mislæg gatnamót bíða

Vegagerðin hefur kynnt drög að tillögu að matsáætlun vegna tvöföldunar vegarins frá vegamótum við Bæjarháls að Hólmsá austan Hafravatnsvegar. Þetta er eini kaflinn á þessari leið sem ekki hefur hlotið umfjöllun í umhverfismati.

Auk tvöföldunar þarf að aðlaga reið-, hjóla- og gönguleiðir að nýjum tvöföldum vegi og tengingum við hliðarvegi verður fækkað. Markmið framkvæmdanna er að auka umferðaröryggi og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg sem ekki veitir af því miklar bílaraðir myndast þar á annatímum á sumrin.

Vegurinn verður byggður í allt að fimm áföngum. Í fyrstu tveimur áföngunum verður hann tvöfaldaður án mislægra gatnamóta, alls 5,4 km leið. Í þeim fyrsta frá Hólmsá að Norðlingavaði og í öðrum frá Norðlingavaði að gatnamótum við Bæjarháls. Í þeim þremur seinni verða mislæg gatnamót byggð við Breiðholtsbraut, Norðlingavað og Hafravatnsveg en ekki Heiðmerkurveg.

Þessi fern vegamót verða þau einu á þessum kafla, aðrir vegir tengjast inn á þau. Framkvæmdir við gerð mislægra gatnamóta eru ekki inni á samþykktri samgönguáætlun og því ekki tímasettar. Á mestum hluta kaflans verður vegurinn breikkaður til norðurs. Á stuttum kafla við Bugðu verður hann þó breikkaður til suðurs vegna nálægðar við ána.

Vegurinn verður hefðbundinn tveggja akreina vegur í hvora átt með aðskildum akbrautum, nema hjá Rauðavatnsskógi. Til þess að skerða ekki skóginn er vegurinn hafður þar í þröngu sniði, þannig að aðeins verði vegrið sett upp á milli akbrautanna.

Í matinu verða nokkrir valkostir við legu vegarins skoðaðir, sérstaklega hvaða gerð gatnamóta er talin heppilegust.