Kína Börn ganga til skóla undir vökulu auga eftirlitsmyndavéla í Xinjiang.
Kína Börn ganga til skóla undir vökulu auga eftirlitsmyndavéla í Xinjiang. — AFP
Skúli Halldórsson sh@mbl.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Geysimikill og sjaldgæfur gagnaleki frá kínversku ríkisstjórninni varpar ljósi á aðgerðir hennar gegn múslimum í Xinjiang-héraði, þar sem forsetinn Xi Jinping skipaði embættismönnum að viðhafa „alls enga miskunn“ í baráttu við aðskilnaðar- og öfgahyggju.

Bandaríska dagblaðið New York Times gerði skjölin að umfjöllunarefni á laugardag, en mannréttindasamtök hafa fullyrt að meira en milljón uighur-múslima hafi verið safnað saman og þeir fluttir inn í net fangabúða í héraðinu, sem er í norðvesturhluta landsins.

Ekki allir sáttir við aðgerðirnar

Skjölin telja alls 403 blaðsíður og gefur efni þeirra fordæmalausa innsýn í umdeildar aðgerðir kínverska kommúnistaflokksins að sögn blaðsins. Aðgerðirnar hafa mætt sífellt vaxandi gagnrýni í alþjóðasamfélaginu, ekki síst frá Bandaríkjunum.

Síðurnar hafa meðal annars að geyma óbirtar ræður eftir Xi, auk skipana og skýrslna um eftirlit og stjórn með uighur-múslimum. Lekinn þykir einnig benda til að ekki séu allir á eitt sáttir innan flokksins um framgang aðgerðanna.

Hefur dagblaðið eftir uppljóstraranum, sem nýtur nafnleyndar en starfar innan kommúnistaflokksins, að hann vonist til að lekinn valdi því að leiðtogar ríkisins geti ekki forðast sök sína á aðgerðunum.

Þekktur fyrir aðferðir sínar

Eftir að vígamenn úr röðum uighur-múslima drápu 31 mann á lestarstöð í Suðvestur-Kína árið 2014 kallaði Xi Jinping eftir „allsherjarbaráttu gegn hryðjuverkum, njósnastarfsemi og aðskilnaðarhyggju“ og því að embættismenn ríkisins sýndu „alls enga miskunn“, samkvæmt því sem fram kemur í skjölunum.

Fangabúðunum fór ört fjölgandi árið 2016 eftir að skipaður var nýr formaður flokksins í héraðinu, Chen Quanguo.

Chen mun hafa dreift ræðum forsetans til að réttlæta aðgerðirnar og hvatti embættismenn til að „taka alla sem ætti að taka“.

Chen mun vera þekktur innan flokksins fyrir það hvernig hann tekur á minnihlutahópum, en áður hafði hann reynt að berja harkalega niður andóf í Tíbet.

Meðal gagna í lekanum eru einnig leiðbeiningar fyrir embættismenn til að svara spurningum þeirra nemenda sem sneru aftur á heimaslóðir í Xinjiang til þess eins að finna hvergi fjölskyldur sínar.

Kváðu þær meðal annars á um að embættismenn segðu nemendum að skyldmenni þeirra hefðu verið sýkt af veiru öfgahyggju. Hlúa þyrfti að þeim áður en „lítill sjúkdómur yrði alvarlegur“.