Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson
Eftir Jón Inga Cæsarsson: "Að henda út mikilli reynslu og þekkingu á málaflokknum og sitja uppi með að þurfa að halda þessu áfram er í besta falli skammsýni."

Ég er sonur frímerkjasafnara. Heimur frímerkjasafnarans er sérstakur og í áranna rás hefur frímerkjaútgáfa á Íslandi verið heimsþekkt og landið framarlega í flokki landa á þessu sviði. Þessu kynntist ég sem barn og síðan sem starfsmaður póstsins í áratugi.

Íslandspóstur er nú í miklu endurskipulagingarferli og eitt af því sem var undir í þeirri vinnu var frímerkjasalan. Meira en helmingi starfsmanna þar var sagt upp og yfirlýsingar sáust um að Íslandspóstur ætlaði ekki að sinna frímerkjaútgáfu í framtíðinni.

Á fyrirtækinu hvílir sú lagaskylda að gefa út frímerki og fram að þessu hefur verið afar vel að því staðið og hefur notið virðingar um heim allan. Þessi yfirlýsing er því í besta falli undarleg og að segja upp þaulvönum starfsmönnum á þessu sviði ákaflega óskynsamlegt. Eftir situr að nokkrir félagsmenn Póstmannafélags Íslands fengu reisupassann og á Íslandspósti hvílir enn sú lagaskylda að sjá um þennan málaflokk.

Allir sjá að stjórn og forstjóri Íslandspósts fóru fram úr sér þegar þessi ákvörðun er tekin. Að henda út mikilli reynslu og þekkingu á málaflokknum og sitja uppi með að þurfa að halda þessu áfram er í besta falli skammsýni. Ég trúi ekki að íslensk stjórnvöld ætli að hætta frímerkjaútgáfu. Veit að þessi gjörningur hefur þegar vakið furðu og hneykslan erlendis.

Eins og málin standa núna er staðan sú að Íslandspóstur verður að bakka með þessa ákvörðun eða Alþingi þarf að fara í þann undarlega farveg að létta þessari kvöð af fyrirtækinu.

Það er stundum betra að fara hægar og hugsa meira þegar farið er í ferðalag. Þetta ferðalag Íslandspósts er ákaflega vanhugsað að mínu mati, og eftir stendur að stjórnvöld þurfa að huga að framhaldinu. Það væri afar undarlegt að Ísland væri eitt fárra landa í heiminum sem ekki væri að gefa út frímerki.

Boltinn er hjá alþingismönnum. Stundum þarf að vinda ofan af óskynsamlegum ákvörðunum.

Höfundur er formaður Póstmannafélags Íslands. jonc@simnet.is