Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ég held að flest fyrirtæki á alþjóðavísu séu að spá í það hvernig hægt er að gera umbúðir umhverfisvænni.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég held að flest fyrirtæki á alþjóðavísu séu að spá í það hvernig hægt er að gera umbúðir umhverfisvænni. Þetta er stórt skref sem við erum að fara að stíga,“ segir Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, sérfræðingur í umbótastjórnun hjá Ölgerðinni.

Í byrjun næsta árs verða allar plastflöskur sem fyrirtækið selur framleiddar úr 50% endurunnu plasti. Fram til þessa hafa allar plastflöskur sem neytendur á Íslandi kaupa verið úr nýju plasti. Munar um minna því Ölgerðin selur á hverju ári 20 milljón plastflöskur.

„Þetta þýðir að 50% af öllu hráefni sem notað verður í okkar drykkjarvöruumbúðir eru endurnýttar plastflöskur sem hafa verið þvegnar, brotnar niður og blandað saman,“ segir Málfríður.

Aðspurð segir hún að ef allir framleiðendur myndu skipta yfir í 100% endurunnið plast væri ekki til nægilega mikið hráefni. „Hér á Íslandi er mjög gott skilahlutfall á plasti en erlendis er það ekki alls staðar jafn gott. Markaðurinn þarf því í byrjun að stefna í 50 prósent,“ segir hún.

Ölgerðin framleiðir sem kunnugt er Pepsi og stórfyrirtækið PepsiCo hefur sett sér það markmið að fyrir 2025 muni allar flöskur vera úr 25% endurunnu plasti. Ljóst er því að Ölgerðin stígur mun stærra skref í fyrstu atrennu. Auk þess verða allar 0,5 lítra plastflöskur léttar um 1,5 grömm, sem minnkar plastnotkun enn frekar. Segir Málfríður að frá árinu 2008 hafi allar plastflöskur fyrirtækisins verið léttar um fjögur grömm.

Ölgerðin fékk nýlega verkfræðistofuna Eflu til að gera vistferilsgreiningu á umbúðum fyrirtækisins. Leiddi hún í ljós mikinn ávinning af því að vera með framleiðslu hér á landi. Eins sýnir greiningin að skiptin yfir í endurunnið plast skila mun minna kolefnisspori en þær plastflöskur sem notast er við í dag.