Brynjureitur Mikið framboð er af nýjum íbúðum í miðborginni.
Brynjureitur Mikið framboð er af nýjum íbúðum í miðborginni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir undirbúningi lagasetningar vegna hlutdeildarlána munu verða hraðað.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir undirbúningi lagasetningar vegna hlutdeildarlána munu verða hraðað. Það sama gildi um frumvörp um stofnun húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og breytingar á húsnæðislögum.

„Við gerðum ráð fyrir að dreifa frumvörpunum á þingveturinn. Nú teljum við hins vegar að hver mánuður sem við getum flýtt þessu væri jákvæður fyrir markaðinn og þá sem munu njóta góðs af þessum breytingum,“ segir Ásmundur Einar um frumvörpin.

Með hlutdeildarlánum, sem hafa einnig verið nefnd eiginfjárlán, mun ríkið veita fyrstu kaupendum vaxtalaus lán til íbúðakaupa.

Skilyrðin eru í mótun

Ásmundur Einar segir aðspurður ekki liggja fyrir hvort lánin verði eingöngu veitt til nýbygginga sem uppfylli skilyrði um hagkvæmt húsnæði. Þá hafi hvorki verið ákveðið hvert lánshlutfallið verður né hver hámarksfjárhæð lána verður.

Hugsunin með hlutdeildarlánum er að ríkið endurheimti framlagið að tilteknum árafjölda liðnum.

Ásmundur Einar var meðal ræðumanna á húsnæðisþingi í gær.

Kenneth Cameron, sérfræðingur í húsnæðismálum í bresku ríkisstjórninni, kynnti þar árangur Breta af slíkum hlutdeildarlánum. Þau hefðu aukið framboð húsnæðis og lækkað vaxtakostnað lántaka. Þá gætu verðbreytingar á húsnæði leitt til hagnaðar eða taps ríkisins vegna hlutdeildarlána.

Skortur á húsnæði varð tilefni slíkra lánveitinga í Bretlandi.

Ásmundur Einar telur aðspurður að hlutdeildarlánin geti stuðlað að lægra vaxtastigi hér.

Jákvæð áhrif á vaxtaþróun

„Þetta mun hafa jákvæð áhrif til vaxtalækkunar. Þarna er um að ræða hóp sem á erfitt með að komast inn á markaðinn. Fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir ættu þá frekar að geta lánað þessum einstaklingum á hagstæðari vöxtum en í dag. Það er fyrir utan vaxtalækkanirnar undanfarið sem eru auðvitað jákvæðar en mættu skila sér betur hjá fjármálafyrirtækjunum,“ sagði hann.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, var líka meðal ræðumanna á þinginu.

Hún sagði aðspurð að á síðari hluta árs 2017 hefði verið umræða um að verðbólgan gæti farið af stað og lántakar því leitað í fasta óverðtryggða vexti. Þeir hafi viljað tryggja sér lægri vexti áður en vextir yrðu mögulega hækkaðir. Síðan hafi verðtryggð íbúðalán staðið í stað hjá bankanum en vöxtur orðið í óverðtryggðum lánum. Lántakar hafi undanfarið sótt í breytilega, óverðtryggða vexti. Þróunin bendi til að lántakar vilji hraða eignamyndun.

Taka bílinn með í reikninginn

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði við Morgunblaðið á dögunum að bankar ættu að endurmeta greiðslumat m.t.t. fjölda ökutækja á heimili. Það geti vegið á móti hærra verði vel staðsettra íbúða að heimilin þurfi síður bíla.

Spurð um þetta sjónarmið Dags segir Lilja að Landsbankinn hafi fyrir um einu og hálfu ári farið að taka meira tillit til lægri eldsneytiskostnaðar bifreiða, m.a. vegna þess að þeir væru orðnir sparneytnari.

Það geti hins vegar reynst varasamt að endurmeta greiðslumatið vegna tímabundinna áhrifaþátta, á borð við rekstrarkostnað bifreiða, sterkt inn í greiðslumatið. Horfa þurfi til langs tíma við mat á greiðslugetu lántaka á lánstíma.