Það er smá föndur að búa til sænska Lúsíuketti en algerlega þess virði.
Það er smá föndur að búa til sænska Lúsíuketti en algerlega þess virði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað ætlar þú að gera til að aðventan verði eins huggulega og hægt er? Hvernig væri að taka pásu frá lífinu og vera bara heima með börnunum og baka? Marta María | mm@mbl.is

Aðventan getur verið dásamlegur fjölskyldutími ef foreldar gefa sér tíma til að sinna börnunum sínum í stað þess að leggja megináherslu á að væta kverkarnar með vinunum (og vera með það í beinni á Instagram). Auðvitað er það freistandi fyrir fullorðna að velja stuð og stemningu í svartasta skammdeginu í stað þess að ala upp og hlúa að. Og sumir þurfa eitthvað hugbreytandi til þess að lifa þennan jólamánuð af. Þegar til lengra tíma er litið borgar sig yfirleitt að fjárfesta í eigin heimilishaldi og vera á staðnum með þeim sem manni þykir vænt um.

Samverustundir með börnum á öllum aldri þurfa ekki að vera flóknar eða kostnaðarsamar. Krakkar hafa nefnilega frekar einfaldan smekk. Þau vilja nánd og athygli og eitthvað gott að borða. Ef þau fá þetta þrennt eru minni líkur á að óþekktin blossi upp sem er svo leiðinlegt að díla við.

Þegar bakað er með börnunum er alveg ómögulegt að það megi ekki borða allt strax og þess vegna tókum við (ég og krakkarnir mínir) forskot á sæluna og bökuðum okkur inn að beini. Það sem einkenndi baksturinn er að allt var þetta eitthvað sem er ákaflega ljúffengt og geymist ekki sérlega vel. Þess vegna þarf eiginlega að borða þetta allt strax. Við spöruðum ekki sykurinn og smjörið og nutum þess svo að gúffa þessu öllu í okkur á ógnarhraða.

Möndlukökur sem súkkulaði

Það er eitthvað svo jólalegt við möndlur og súkkulaði þegar þessi tvö hráefni mætast. Hægt er að borða kökurnar um leið og þær koma úr ofninum. Ekki er verra að drekka svolítið kakó með eða bara sódavatn ef fólk vill skuldajafna eigið heilsufar.

2 og ½ bolli hveiti

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. salt

1 bolli ósaltað smjör

1 og ½ bolli púðursykur

1 stórt egg

1 tsk. mjólk

1 og ½ tsk. vanilludropar

1 og ½ bolli ristaðar möndlur

1 bolli möndlusmjör

1 og ½ bolli suðusúkkulaði eða annað dökkt súkkulaði

Byrjið á því að stilla ofninn á 170 gráður og ristið möndlurnar á bökunarplötu. Þær þurfa ekki að vera nema í tíu mínútur eða svo. Þegar þær eru búnar að ristast eru þær skornar smátt niður og settar til hliðar.

Setjið öll þurrefni í sál og blandið saman og setjið til hliðar.

Egg, smjör og sykur sett í hrærivélarskál og þeytt saman þangað til blandan er létt og mjúk. Það tekur um það bil tvær mínútur.

Þá er þurrefnum blandað saman við varlega.

Svo er súkkulaðið skorið smátt og bætt út í ásamt möndlunum.

Þá er deigið sett á bökunarpappír á bökunarplötur, sirka matskeið hver og bakað í 10-12 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gylltar á litinn.

Ítalskt bananabrauð með kaffibragði og karamellukremi

Það er fátt notalegra en að byrja daginn í eldhúsinu og skella í hræru af silkimjúku og notalegu bananabrauði. Fólk neyðist líka stundum til að baka bananabrauð þegar bananarnir eru orðnir linir og brúnir. Þetta hefur þann kost að það tekur ekki langan tíma að baka það og hægt er að borða það volgt. Það má alveg sleppa karamellukreminu, en royal-sælkerar gera það náttúrlega alls ekki. Ekki er verra að hafa kryddað te með bananabrauðinu eða bara ískalt klakavatn.

150 ml ólífuolía

2 egg

3 meðalstórir banana

2 tsk. vanilludropar

1 tsk. salt

150 g púðursykur

175 g hveiti

½ tsk. matarsódi

4 tsk. skyndi espresso-duft

Stillið ofninn á 170 gráður

Stappið bananana saman í skál og hrærið þá saman við ólífuolíuna. Svo eru eggin pískuð saman við sykurinn. Þá er allt sett saman í eina skál og þurrefnum blandað saman.

Hægt er að setja deigið í brauðform eða bara í eldfast mót. Gott er að setja bökunarpappír í formið áður en deigið fer í.

Þegar deigið er komið í form er það sett inn í ofn og bakað í 50-60 mínútur, en í styttri tíma ef það fer í eldfast mót.

Á meðan bananabrauðið er að bakast inni í ofni er karamellan útbúin.

Karamellukrem

4 msk. smjör

1 dl púðursykur

3 msk. rjómi

Allt sett á pönnu og látið bráðna saman. Það skiptir máli að hafa helluna ekki stillta á of háan hita því karamellan getur auðveldlega brunnið. Hver hefur ekki upplifað það?

Þegar bananabrauðið er tilbúið er karamellunni hellt yfir og svo má strá örlitlum flórsykri yfir til að búa til ennþá betri stemningu. Það er líka fallegra á kökudiski þannig!

Lakkrístoppar með hvítu súkkulaði og piparlakkrískurli

Allir alvörusælkerar fá vatn í munninn við það eitt að hugsa um lakkrístoppa. Hér er ekki alveg um hefðbundna lakkrístoppa að ræða því í þeim eru hvítir súkkulaðidropar og piparlakkrískurl. Síðustu ár hefur allt með piparbragði verið vinsælt og því ákváðum við að hoppa á þann vinsældavagn. Og sjáum ekki eftir því – þeir bráðnuðu í munni og kláruðust samdægurs sem er nokkuð gott afrek.

3 eggjahvítur

200 g púðursykur

150 g hvítir súkkulaðidropar

150 g piparlakkrískurl frá Nóa Síríus

Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur í hrærivél. Þegar blandan er orðin svo stinn að hægt er að hvolfa skálinni án þess að deigið renni úr þá er hvítu súkkulaðidropunum og piparlakkrískurlinu bætt við. Látið deigið á plötu með teskeið, alls ekki matskeið því þá verða kökurnar allt of stórar. Bakið við 150 gráður í 20 mínútur.

Sænskri Lúsíukettir

Það er líklega ekki hægt að finna neitt sænskara en Lúsíuketti enda hringja þeir inn Lúsíuhátíðina í Svíþjóð. Ef þú elskar Volvo og IKEA þá ættir þú svo sannarlega að baka sænska Lúsíuketti á aðventunni. Þeir eru að sjálfsögðu bestir nýbakaðir.

125 g smjör

5 dl mjólk

50 g blautt ger

1½ dl sykur

½ tsk. salt

1 g saffran (mulið með einum sykurmola)

ca 15 dl hveiti

Fylling

200 g smjör

1 dl sykur

200 g marsipan-hræringur (150 g marsipan, smámjólk, sykur)

1 tsk vanilludropar

1 egg til að pensla bollurnar með

Bræðið smjörið og hellið mjólk og saffrani yfir. Gætið þess vel að vökvinn sé við 37°C.

Setjið gerið í skál og blandið því með örlitlu af vökvanum en svo blandast allur vökvinn saman ásamt salti, sykri og næstum því allt hveitið er sett í skálina. Þetta er hrært saman í hrærivél í um það bil fimm mínútur eða þar til deigið er orðið slétt. Þá er það látið hefast á heitum stað í 40 mínútur og viskastykki sett yfir.

Þegar deigið er búið að hefast er fyllingunni blandað saman og restin af hveitinu er hnoðuð saman við deigið og því skipt til helminga og það flatt úr ferkantað. Þá er fyllingin sett á deigið og það rúllað saman eins og fólk sé að búa til „kanelbullar“.

Þá eru Lúsíukettirnir settir á bökunarplötu og látnir hefast aftur í 30 mínútur undir viskastykki. Þegar þeir eru búnir að hefast eru þeir penslaðar með egginu og settir í miðjan ofn og bakaðir við 250°C í ca 10 mínútur.