Kýr Hægt verður að kaupa og selja kvóta þrisvar sinnum á ári.
Kýr Hægt verður að kaupa og selja kvóta þrisvar sinnum á ári. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Atkvæðagreiðsla kúabænda um endurskoðun búvörusamningsins frá 2016 hófst á hádegi í gær og stendur í rétta viku.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Atkvæðagreiðsla kúabænda um endurskoðun búvörusamningsins frá 2016 hófst á hádegi í gær og stendur í rétta viku. Eftir að atkvæðagreiðslunni var frestað fyrir viku náðu fulltrúar bænda og ríkisins samkomulagi um bókun um umgjörð væntanlegra kvótaviðskipta á nýju ári.

Hópur bænda lýsti óánægju með samkomulagið sem fulltrúar bænda og ríkisins gerðu og greiða átti atkvæði um á dögunum. Skoruðu þeir á forystu Bændasamtaka Íslands að taka upp viðræður við ríkið að nýju. Það var gert.

Hægt að setja hámarksverð

Gagnrýnin beindist meðal annars að umgjörð kvótaviðskipta og að samningum um verðlagsmálin var ekki lokið. Gert er ráð fyrir því í samkomulaginu frá því í haust að greidd verði atkvæði að nýju um niðurstöðu viðræðna um verðlagsmálin.

Í nýju bókuninni er vikið að þremur atriðum: Hámarksverði greiðslumarks, aðilaskiptum og tilfærslu greiðslumarks á milli lögbýla. Kveðið er á um það að ef ákveðið verður að setja hámarksverð á greiðslumark í upphafi nýs árs skuli það ekki vera hærra en þrefalt lágmarksverð mjólkur til framleiðenda. Í samkomulaginu sjálfu var talað um að hægt yrði að setja hámarksverð ef verðið færi yfir óskilgreind rauð strik.

Drög að reglugerð um kvótamarkaðinn hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að fyrsti markaðsdagurinn verði 1. apríl á næsta ári.

Skref í rétta átt

Þröstur Aðalbjarnarson, bóndi á Stakkhamri og einn af þeim bændum sem stóðu fyrir söfnun undirskrifta gegn efni endurskoðunarinnar, segir að bókunin sé skref í rétta átt og kveðst ánægður með að hlustað hafi verið á grasrótina. „Þetta er í þá veru sem við höfum verið að hugsa. Við vildum að einnig yrði tekið á verðlagsmálunum og vonandi verður það gert sem fyrst. Við gerum okkur grein fyrir því að þegar átt er við ríkið er það oftar en ekki í sterkari stöðu,“ segir Þröstur og tekur fram að hann efist ekki um að Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður Bændasamtakanna, og forystusveitin hafi gert sitt besta.