Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Fæðingum á Landspítalanum fjölgaði um 5,3% fyrstu tíu mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Alls fæddust 2.783 börn á Landspítalanum frá ársbyrjun og til októberloka en í fyrra fæddust 2.625 börn á sama tíma.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fæðingum á Landspítalanum fjölgaði um 5,3% fyrstu tíu mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Alls fæddust 2.783 börn á Landspítalanum frá ársbyrjun og til októberloka en í fyrra fæddust 2.625 börn á sama tíma. Nemur fjölgun fæddra barna 6% milli ára.

Umtalsvert fleiri tvíburafæðingar hafa verið á Landspítalanum í ár en í fyrra, alls 58 nú en 40 í fyrra. Er það 45% fjölgun milli ára. Í nýliðnum október voru sex tvíburafæðingar á spítalanum.

Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu, segir að töluvert álag hafi verið á fæðingardeild og starfsfólk finni fyrir því. Hún telur hins vegar ekki tímabært að fullyrða hvort þessi fjölgun fæðinga á Landspítalanum endurspegli raunverulega aukningu í landinu eða hvort fleiri konur velji að fæða þar fremur en á sjúkrahúsum úti á landi. Það skýrist þegar allt árið verður gert upp.

Spurð um fjölgun tvíburafæðinga segir Hulda: „Tvíburafæðingar hafa verið á bilinu 78-54 ár hvert. Þetta sveiflast svolítið til. Ég held að þær hafi verið óvenju fáar í fyrra svo það er kannski ekki tímabært að draga ályktanir af þessum tölum.“