Arnar Grétarsson
Arnar Grétarsson
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Íslenskir knattspyrnuþjálfarar voru við stjórnvölinn hjá 25 prósentum liða í belgísku B-deildinni í knattspyrnu þegar hún hófst í byrjun ágúst, hjá tveimur liðum af átta, en nú eru þeir báðir horfnir á braut.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslenskir knattspyrnuþjálfarar voru við stjórnvölinn hjá 25 prósentum liða í belgísku B-deildinni í knattspyrnu þegar hún hófst í byrjun ágúst, hjá tveimur liðum af átta, en nú eru þeir báðir horfnir á braut.

Roeselare, sem situr á botni deildarinnar, sagði í gær Arnari Grétarssyni upp störfum, en hann tók við liðinu nokkrum dögum áður en tímabilið hófst, í lok júlí. Liðið náði aðeins að vinna þrjá leiki af sextán undir hans stjórn en engu munaði að félagið yrði gjaldþrota í september.

Roeselare tilkynnti um uppsögn Arnars á vef sínum í gærmorgun, þakkaði honum vel unnin störf og óskaði honum góðs gengis. Í staðinn réð félagið franskan þjálfara, Christophe Gamel, sem hefur verið landsliðsþjálfari Fidjieyja í hálft þriðja ár en hætti þar í ágúst.

Fyrir nokkrum vikum var Stefáni Gíslasyni sagt upp sem þjálfara Lommel en hann tók við liðinu 1. júlí og hætti störfum af þeim sökum hjá Leikni í Reykjavík nokkrum dögum áður.

Lommel hefur einnig verið við botn deildarinnar en hefur náð að hífa sig upp í sjötta sætið af átta á síðustu vikum.

Íslenskum þjálfurum gengur illa að festa sig í sessi í Belgíu en Rúnari Kristinssyni var sagt upp hjá Lokeren í A-deildinni í október 2017 eftir tæpa tíu mánuði í starfi, þrátt fyrir ágætt gengi liðsins undir hans stjórn. Lokeren er nú við botn B-deildarinnar, á milli Lommel og Roeselare á stigatöflunni.