Andrés Ingi Magnússon (Addi) fæddist í Hafnarfirði 31. október 1938. Hann varð bráðkvaddur 14. nóvember 2019. Foreldrar hans voru Magnús Guðjónsson, f. 20. maí 1908, d. 9. október 1984, og Guðjóna Margrét Guðlaugsdóttir f. 7. júlí 1913, d. 12. október 1970. Bræður Bjarni Magnússon, f. 28. nóvember 1936, d. 14. maí 2004, m. Sigrún Steingrímsd., og Sverrir Þ. Magnússon, f. 25. maí 1940, m. Helen Magnússon. Hinn 8. maí 1965 giftist Andrés Guðrúnu Bríeti Torfadóttur (Dúnnu), f. á Halldórsstöðum í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu 22. nóvember 1934. Foreldrar hennar voru Torfi Hjálmarsson, f. 19. nóvember 1892, d. 5. júní 1972, og eiginkona hans, Kolfinna Magnúsdóttir, f. 8. maí 1896, d. 21. janúar 1987. Guðrún Bríet andaðist á hjúkrunarheimilinu Ísafold 26. desember 2014. Börn Andrésar og Guðrúnar eru 1) Magnús, f. 1964, m. Rósa Þórarinsdóttir a) Sindri, f. 1990, m. Edda Sigríður Freysteinsdóttir, þeirra börn Flóki Freyr og Ástrós Alfa, b) Nói, f. 1982, m. Lena Yngvadóttir, þeirra börn Askur og Vaka, c) Ívar, f. 1985, m. Fany Larota Catunta, dætur þeirra Gabriela Sif og Andrea Lind. 2) Andrés, f. 1966, m. Elfa Sif Jónsdóttir, börn þeirra: a) Alexandra Eir, f. 1989, m. Ágúst Arnar Hringsson synir þeirra Emil Snær og Nökkvi Már, b) Daði Freyr, f. 1997, c) Orri Geir, f. 2001, 3) Margrét Sif, f. 1969, m. Einar Þór Einarsson, börn þeirra: a) Einar Ingi, f. 2001, b) Andri Snær, f. 2002, c) Kristín Bríet, f. 2005. 4) Torfi Helgi (uppeldissonur), f. 1959, m. Margrét Sigurðardóttir, börn þeirra: a) Eva Guðrún, f. 1987, í sambúð með Heimi Snæ Guðmundssyni, börn þeirra Daníel Darri og Bríet Kara, b) Róbert, f. 1988, c) Telma Sigrún, f. 1994, d) Andrea, f. 1996. Sonur Andrésar er Þórir, f. 1960, m. Oilly Maneerat, börn Þóris a) Dagbjartur, f. 1984, b) Erlingur Andrés, f. 1989.

Andrés Ingi ólst upp í Hafnarfirði sunnan við læk og gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla. Hann stundaði sjómennsku á yngri árum, að því loknu lærði hann rafvirkjun í Iðnskólanum í Hafnarfirði, fékk sveinspróf 28. nóvember 1964 og meistararéttindi 1969. Andrés starfaði lengst af í sjálfstæðum rekstri sem rafverktaki en hóf störf hjá hjúkrunarheimilunum Grund/Mörk sem rafvirkjameistari árið 1995. Árið 2017 lauk hann formlega störfum fyrir hjúkrunarheimilin en tók að sér verkefni á vegum þeirra, m.a. við byggingu sundlaugar í Mörk. Andrés var einn af stofnfélögum Kiwanisklúbbsins Eldborgar, þar sem hann starfaði allt til hinsta dags í hinum ýmsu embættum, m.a. sem forseti klúbbsins. Hann var einnig virkur félagi í Frímúrarareglunni og tók m.a. þátt í byggingu á stúkuheimilinu að Ljósatröð. Andrés og Guðrún hófu búskap í Hafnarfirði og bjuggu þar uns þau fluttu til Garðabæjar 1994 og bjuggu þar til hinsta dags. Andrés var mikill fjölskyldumaður, hann var víðlesinn og fróður um náttúru Íslands en áhugamál Andrésar voru að auki útivist og göngur, lestur, matargerð, ljósmyndun og garðrækt.

Andrés Ingi verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 28. nóvember 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við ástkæran föður okkar eftir skyndilegt og óvænt fráfall. Hann var ljúfur maður og kærleiksríkur þar sem við systkinin, tengdabörn og barnabörn fengum að njóta kærleika hans, hjálpsemi og fróðleiks alla tíð.

Hann var fæddur í Hafnarfirði og þrátt fyrir að foreldrar okkar hafi flutt frá Hafnarfirði var hann ávallt stoltur af uppruna sínum og leit á sig fyrst og fremst sem Hafnfirðing. Hann lærði til rafvirkjunar og stofnaði fyrsta fyrirtæki sitt snemma á ferlinum, þar sem við bræður unnum allir hjá honum til lengri eða skemmri tíma. Hann var duglegur, gerði miklar kröfur til sjálfs síns og annarra í vinnu og mótaði þau gildi sem við höfum alltaf haft að leiðarljósi. Eftir að hann hætti sem verktaki réði hann sig til hjúkrunarheimilanna Grundar og Markar þar sem hann sá um allar rafmagnsframkvæmdir auk þess að hanna og teikna mest allt rafmagn þau 20 ár sem hann starfaði þar á tímum mikilla breytinga og stækkunar.

Hann var óhræddur við að prófa nýjungar og fékk árið 1983 fyrstu tölvu sína, sem hann nýtti sér strax að fullu við tilboðsgerð og margt fleira í rekstri á fyrirtæki sínu. Hann tileinkaði sér jafnt og þétt nýjungar eftir því sem tölvutæknin þróaðist og mjög snemma fékk hann sér tölvuteiknihugbúnað þar sem hann hannaði raflagnir og stýrikerfi í ótal byggingar. Það var gaman að sjá tölvutæknina leika í höndunum á þeim áttræða unglingi sem pabbi var.

Hann kynntist mömmu snemma á lífsleiðinni og áttu þau farsæla ævi saman. Það var honum mikið áfall þegar hún féll frá eftir langvarandi veikindi, en í þeim veikindum reyndist hann stoð hennar og stytta. Þau nutu þess að halda fjölskylduboð og við eigum ógleymanlegar minningar frá skemmtilegum matarboðum fjölskyldunnar þar sem mamma og pabbi töfruðu bæði fram framúrskarandi veitingar.

Í fyrra hélt pabbi eftirminnilega upp á 80 ára afmælið sitt og í framhaldi af því fórum við systkinin og tengdabörn í ógleymanlega ferð til Póllands, þar sem hann naut sín til hins ýtrasta.

Pabbi var einstaklega góður afi og sinnti barnabörnunum sérstaklega vel. Hann fór í óteljandi gönguferðir með þeim að leita að „buskanum“ og síðan var Helgafellið sérstaklega vinsælt. Þegar hann var í kringum 70 ára einsetti hann sér að ganga á Helgafell oftar en einu sinni í viku og þegar árið var liðið hafði hann gengið 65 sinnum á fjallið. Þar fyrir utan gekk hann reglulega á önnur fjöll og stundaði göngur sér til heilsubótar. Hann fór í kransæðaaðgerð þegar hann var 75 ára og eftir hana var hann þrekmældur og þá kom í ljós hann var með þrek á við 45 ára mann, sem sýnir hversu góðu formi hann var alltaf í.

Pabbi var víðlesinn og fróður. Hann hafði sérstakt dálæti á ljóðum og átti stórt safn af ljóðabókum. Hann naut þess einnig að fara í leikhús og á tónleika og stundaði það mikið með vinahópi sínum og mömmu.

Við þökkum þér elsku pabbi fyrir allan kærleikann sem þú sýndir okkur, allar samverustundirnar og ómetanlegar minningar sem við geymum í hjörtum okkar.

Torfi Helgi, Magnús,

Andrés og Margrét Sif.

Í dag þegar við kveðjum elsku tengdapabba fyllumst við þakklæti. Margar góðar minningar leita á hugann sem gott er nú að ylja sér við. Hann var mikill fjölskyldumaður sem naut þess að vera með fólkinu sínu, hvort sem það var úti í náttúrunni, í göngu á Helgafell eða að fá fólkið sitt heim til sín. Þar var hann bæði snillingur í að elda, grilla og baka, sem sést best á því að hann var með rúgbrauð í ofninum þegar hann hélt í sína hinstu ferð.

Addi átti yndislegan lífsförunaut, hana Dúnnu sína, en hana bar hann á höndum sér og var hjá henni öllum stundum í veikindum hennar. Yndislegri tengdaforeldra var ekki hægt að hugsa sér. Addi var dugnaðarforkur í einu og öllu og sat aldrei auðum höndum, hann var fróður og víðlesinn.

Á áttræðisafmælinu í fyrra hélt hann stóra veislu þar sem hann naut þess að hafa allt sitt fólk og vini í kringum sig. Í beinu framhaldi af afmælinu fórum við börn og tengdabörn með honum í ferð til Póllands sem við munum aldrei að gleyma.

Allar góðu stundirnar verða dýrmætar perlur á bandi minninganna sem við geymum í hjörtum okkar um ókomna tíð. Blessuð sé minning elsku tengdapabba.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín tengdabörn

Rósa, Margrét, Elfa Sif og

Einar Þór.

Elsku afi, það var okkur mikil gæfa að eiga þig að, svona kærleiksríkan og góðan afa. Þó erfitt sé að kveðja þig vitum við að þú ert á góðum stað núna með elsku ömmu. Jafnvel þótt við hefðum búið langt í burtu frá þér sköpuðum við samt margar góðar minningar með þér og vorum svo heppin að fá oft að njóta nærveru þinnar og tengdumst þér mjög náið. Það var alltaf svo gaman þegar þú komst til okkar í heimsókn til Kansas. Við áttum margar gleðistundir með þér, heimsóttum söfn og almenningsgarða. Ein hefð sem komst á þegar við bjuggum í Kansas, líka meðan amma var á lífi, var að fara á veitingastaðinn „First Watch“ og borða saman morgunmat.

Þegar við komum til Íslands á sumrin var alltaf svo gaman að fara í göngur með þér, taka ljósmyndir af náttúrunni og fá að borða góða nestið sem þú bjóst til sem samanstóð af flatkökum með hangikjöti, kleinum, appelsínum og heitu kakói. Þú vissir alltaf heitin á öllum plöntum og fjöllum og sýndir okkur það í bókunum þínum þegar við komum heim til þín. Nánast á hverju sumri gengum við upp á Helgafell með þér og stundum fórum við í kringum fjallið. Alltaf varstu að leita að nýjum stöðum til að sýna okkur og varst þú oft búinn að kanna þá áður en við komum til Íslands.

Þegar við vorum yngri fengum við oft að gista hjá þér og þegar við gátum ekki sofnað lastu fyrir okkur bók og straukst okkur um hárið þangað til við sofnuðum. Ferðirnar til Íslands munu ekki verða eins án þín.

Þó þú sért farinn munu minningarnar aldrei dvína. Þú deildir með okkur margvíslegum fróðleik sem aldrei mun líða okkur úr minni. Brosið þitt lýsti upp rýmið og þú vissir alltaf hvernig þú gætir fengið okkur til að hlæja. Okkur þykir dýrmætt að þú skyldir hafa náð að eyða síðustu vikum þínum með okkur í Danmörku og munu þær aldrei gleymast.

Við elskum þig svo mikið og þótt þú sért ekki lengur hér með okkur vitum við að þú munt vaka yfir okkur og fylgja alla tíð.

Einar Ingi, Andri Snær og Kristín Bríet.

Elsku besti afi okkar, það er ótrúlega skrítin tilfinning sem fer um okkur systkinin að hugsa til þess að þú sért nú farinn. Þú varst alltaf svo hraustur, duglegur og okkur fannst þú í raun ódauðlegur. Við erum svo heppin að hafa fengið að eyða miklum tíma með þér og ömmu, ótal gönguferðir frá ömmusveit yfir á Laugar, í sund, upp á Helgafell með flatkökur og kókómjólk í nesti, að ógleymdum gönguferðum í leit að buskanum. Það var alltaf svo gaman að koma í matarboð til ykkar ömmu, þið elduðuð heimsins besta mat og eftirréttirnir aldrei af verri endanum. Þú passaðir alltaf upp á að það væri eitthvað fyrir alla og því stundum þrjár tegundir af eftirréttum í boði. Langafastrákarnir þínir báðu reglulega um að fara í heimsókn til langafa Adda. Nú ert þú fallegasta stjarnan á himninum, sem langafastrákarnir þínir heilsa og bjóða góða nótt á hverju kvöldi.

Í dag kveðjum við þig með mikla sorg í hjarta en þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Minningarnar um þig, elsku afi, geymum við í hjarta okkar og þær munu ylja okkur um alla ævi.

Nú farinn ertu mér frá.

Hvað geri ég þá?

Þig hafa ég vil

og segja mér til.

Nú verð ég að kveðja

fæ ekkert um það að velja.

Þú kvaddir mig með hlátri

það er ekki skrítið að ég gráti.

Í hjarta mér þú verður

þaðan aldrei hverfur.

Ég minningu þína geymi

en aldrei gleymi.

Elsku hjartans afi minn

nú friðinn ég finn.

Þá kveð ég þig um sinn

og kyssi þína kinn.

(Ágústa Kristín Jónsdóttir)

Þín afabörn,

Alexandra Eir, Daði Freyr

og Orri Geir.

Ef maður ætti að skilgreina fólk út frá hlutum og eiginleikum hluta hefði afi verið akkeri. Það var sem ekkert biti á honum. Hann var og virtist alltaf vera til staðar, að þessum eina degi undanskildum þegar sonur hans kom í heiminn og amma beið eftir að hann kæmi á hvíta hestinum þegar henni var rúllað inn í sjúkrabílinn.

Raunveruleikinn er þó oft öðruvísi en maður ætlar.

Maður hafði einhvern veginn ímyndað sér vissan ódauðleika í afa, manninum sem var farinn að vinna rétt eftir opna hjartaaðgerð. Manninum sem myndi plægja áfram í gegnum allt. Manninum sem kynnti manni tölvur og kunni á þær. Manninum sem gat hnoðað snjóbolta án þess að vera í hönskum. Manninum sem keypti dótið fyrir mann þrátt fyrir að foreldrarnir hefðu sagt að það ætti alls ekki að kaupa neitt. Manninum sem hljóp upp á fjöll jafn auðveldlega og barn hleypur um leikfangaverslun.

Afi var maður hugans, hann gat rökrætt, og spjallað. Hann gat hlegið með manni og pælt í þessu og hinu með opnum hug.

Farvegur lífsins er þó ekki fastur, heimurinn breytist og við breytumst með. Ódauðleikinn reyndist aðeins hugmynd barnsins, enda kom það sem nokkurt áfall þegar símtal barst með orðum um dauðleika og breyttan heim. Við huggum okkur þó ávallt við það að hann féll frá við að gera það sem hann unni, að hann lá ekki rúmfastur, hann visnaði ekki fyrir augum okkar heldur býr áfram með okkur eins og hann var, kraftmikill, sterkur og skarpur.

Það er kannski þar sem ódauðleikinn verður til, með okkur, í hugum okkar. Í gær, í dag og á morgun. Og þó að líkami hans hafi lagst til hinstu hvílu lifir andi hans, áhrif og minning áfram.

Sindri, Ívar og Nói.

„Það er ferðalagið sem skiptir máli, en ekki áfangastaðurinn.“ Afi sagði okkur alltaf að maður ætti að taka lengri leiðina sem var í boði, aldrei að stytta sér leið heldur að njóta þess að labba lengri leiðina.

Þannig hugsum við um hann, við nutum þess að vera saman, það var aldrei áfangastaðurinn sem skipti máli. Þegar við fórum í göngutúra í leit að Buskanum, ímynduðum stað sem var alltaf handan við hornið en samt aðeins úr seilingarfjarlægð, þá skipti áfangastaðurinn engu máli. Þegar við blönduðum saman í bullkökur þar sem allt tiltækt hráefni sem var nógu spennandi var sett saman, þá skipti útkoman engu máli. Þegar við hlustuðum á hann segja skrítnar sögur um tröll og huldufólk var skemmtilegast að heyra af ferðalaginu; þegar hetjurnar voru komnar á áfangastað var gamanið búið.

Hann var óþrjótandi uppspretta skemmtilegra hluta. Þegar við vorum lítil las hann fyrir okkur þjóðsögur, kenndi okkur kapla og borðspil, sagði sögur og brandara. Sama hversu mikið hann hafði kennt okkur kunni hann alltaf meira. Hann leyfði okkur eldri systkinunum alltaf að vinna í Olsen Olsen og yngri systrunum er minnisstætt þegar afi kenndi spilið „Manni“, sem var ótrúlega spennandi og skemmtilegt, ekki síst af því að flest spil kröfðust þess að hafa 4 eða fleiri spilara en í Manna var hægt að spila 3 saman, þannig að Manni varð spilið okkar.

Sama hvenær við mættum í heimsókn var alltaf frábær matur í boði hjá afa og ömmu. Sunnudagslambalæri, laufabrauðið á jólunum eða eitthvað gott úr bakaríinu, það var alltaf dekrað við okkur. Síðustu árin var afi líka búinn að fullkomna rúgbrauðsgerð og var duglegur að mæta með nýbakað brauð til okkar og síðast en ekki síst bera afi og amma ábyrgð og á að kynna fyrir okkur uppáhalds jólamatinn okkar, rjúpur. Jólin munu þess vegna alltaf minna okkur á þau.

Hann var okkur fyrirmynd. Hann var ótrúlega vinnusamur og vann lengi fram eftir aldri því honum þótti gaman að hafa eitthvað fyrir stafni, hann elskaði útivist og lét aldurinn ekki stoppa sig frá því að ganga 65 sinnum á Helgafell á einu ári. Hann var líka langt á undan sinni samtíð og varð tölvuvæddur á undan flestum öfum, líklega á undan flestum pöbbum. En stærsti kostur hans var að hann var alltaf þolinmóður og til í að gera hvað sem er til að gleðja okkur og ekki bara okkur, því hann var alltaf svo ótrúlega góður við ömmu og frá því að við munum eftir okkur gerði hann allt fyrir hana.

Elsku afi, það er með miklum söknuði sem við kveðjum þig en full af þakklæti fyrir ferðalagið, fyrir að hafa alltaf farið lengri leiðina með okkur.

Eva Guðrún, Róbert, Telma Sigrún og Andrea.

Leyndardómur hamingjunnar felst ekki í því að gera það sem maður hefur ánægju af heldur að hafa ánægju af því sem þarf að gera. Þessi orð lýsa Andrési föðurbróður mínum ágætlega, hann var bóngóður og alltaf tilbúinn til þess að hjálpa. Ég var þriggja ára þegar fjölskyldan flutti á Öldutún en þeir bræður; pabbi, Andrés og Sverrir, byggðu þar saman þríbýlishús.

Mikill samgangur var á Öldutúni 14 þar sem grundvöllur var lagður að vináttu og frændskap sem staðið hefur síðan. Þessi tengsl höfðu góð áhrif á okkur öll og þar skipti Andrés frændi miklu máli. Í maí eða júní sl. labbaði ég upp á Helgafell í Hafnarfirði og hitti þar Andrés frænda, sem gekk fjallið reglulega þótt hann væri á níræðisaldri. Urðu þar fagnaðarfundir eins og alltaf þegar við hittumst. Í samtalinu ákváðum við að stefna fjölskyldum okkar saman. Í dag er ég ánægður að það hafi orðið af þeirri veislu. Fyrir fáum vikum hitti ég frænda í síðasta skipti þegar Sverrir bróðir hans var í heimsókn á Íslandi. Ég vissi að sjúkdómur herjaði á hann, en hann bar sig vel og það hvarflaði ekki að mér að svo stutt væri eftir.

Andrés var góður maður sem hafði jákvæð áhrif á allt í kringum sig. Hvort sem það voru æskuárin á Öldutúni, Klettahrauni, Hjallabraut eða síðar í lífinu þá man ég bara hlýja strauma frá Andrési sem ég er honum þakklátur fyrir.

Torfi, Maggi, Andrés, Margrét Sif og fjölskyldur: Anna og ég vottum ykkur innilega samúð. Guð blessi minningu pabba ykkar.

Magnús Bjarnason.

Öldutún, Klettahraun og Hjallabraut voru önnur heimili okkar systkinanna í uppvextinum. Í forgrunni minninganna er samband tvíburanna, Búllu og Dúnnu, en til hliðar Addi, eiginmaður og lífsförunautur frænku.

Hann var mér einnig samferða, þessi duli og ljóðelski maður sem kynnti mér kvæðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar og annað fallegt í bókmenntaarfinum.

Frá æsku þekkti ég vinnusemi hans, síðar kynntist ég bókmenntaáhuganum, náttúrusinnanum og útivistarmanninum. Ein fyrsta útivistarminning mín er af ferð með honum og frændum að Búrfellsgjá. Síðari ár tókum við upp þráðinn nokkrum sinnum og áttum góðar ferðir saman, meðal annars um Selvogsgötu, á Skjaldbreið og Helgafell, en það bæjarfjall Hafnarfjarðar var í sérstöku uppáhaldi og sum árin leið ekki sú vika að hann færi ekki á fellið.

Addi vann nærfellt til dauðadags, lengst af sjálfstætt starfandi en síðustu tuttugu árin sem rafvirki á hjúkrunarheimilinu Grund. Hann var ákaflega vel liðinn á þeim vinnustað og starfaði þar hartnær að áttræðu. Stundum var gantast með að rafvirkinn á staðnum væri eldri en sumt vistfólkið.

Ég mun minnast samverunnar öll árin og bliksins í augum á góðum stundum.

Eigðu góða ferð á Helgafellið hinum megin, kæri Addi.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, Torfi Helgi, Maggi, Andrés, Margrét Sif, makar, börn og barnabörn.

Fyrir hönd okkar systkinanna,

Torfi Geir.

Andlát Andrésar Magnússonar kom okkur verulega á óvart. Þrátt fyrir nokkur veikindi síðustu mánuði var hann einhvern veginn eilífur í okkar huga. Léttur á fæti og léttur í lund kleif hann fjöll og sinnti vinnu fram undir síðustu mánuði. Hann var maðurinn sem hélt fjölmennt og hressilegt partí á áttræðisafmælinu sínu, ferðaðist um heiminn og kunni skil á nýjustu tækni.

Andrés var maðurinn hennar Dúnnu, móðursystur Torfa, og þau hjónin stóðu saman í gegnum þykkt og þunnt í lífsins ólgusjó. Samband þeirra einkenndist af mikilli ást og virðingu en ekki síður af jákvæðni og gleði. Slíkur jarðvegur skilar góðri uppskeru enda bera börn þeirra með sér að hafa alist upp við gott atlæti og lifandi áhuga foreldra sinna. Andrés og Dúnna áttu einnig einstaklega fallegt samband við tengdabörn sín og barnabörn. Þau skilja eftir sig mikla auðlegð í myndarlegri og samhentri fjölskyldu.

Þótt brotthvarf Andrésar hafi verið óvænt þá er gott til þess að vita að hann fékk að fara án þess að þurfa að kveljast vegna þess sjúkdóms sem hann hafði nýlega greinst með.

Andrés var einstakur maður sem okkur þótti afskaplega vænt um og minningin um þennan hlýja og trausta mann mun lifa með okkur og börnunum okkar um ókomna tíð. Við hjónin erum ákaflega þakklát fyrir að hafa hitt Andrés óvenju oft síðustu mánuði og mikið þótti okkur vænt um að sjá hann í útgáfuboði Sólveigar 23. október sl. Blessuð sé minning góðs manns.

Sólveig og Torfi.

Vinur minn og Kiwanisbróðir til 30 ára, en þá gekk ég í Kiwanisklúbbinn Eldborg í Hafnarfirði. Þar kynntist ég Andrési Magnússyni rafvirkjameistara og konu hans Guðrúnu Torfadóttur.

Andrés var fæddur 31.10. 1938 og var því nýorðinn 81 árs. Andrés var einn af stofnendum Eldborgar sem verður 50 ára 27.11. næstkomandi, þar stóð til að heiðra hann ásamt öðrum núlifandi stofnfélögum. Nú hefur Andrés góðvinur minn setið sinn síðasta fund hjá okkur í Eldborgu. Það verður öðruvísi að sjá ekki lengur Andrés vin minn neins staðar á vegi mínum, það er stórt skarð að fylla þar sem Andrés vantar í hópinn.

Ég vil fyrir hönd allra í Kiwianisklúbbnum Eldborgu þakka Andrési fyrir veru sína hjá okkur, það fór ekki mikið fyrir honum, en orð hans voru hnitmiðuð og innihaldsrík, hann vissi upp á hár hvað hann vildi í sínum ráðleggingum. Ég vil svo fyrir hönd Eldborgarfélaga senda börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Forseti Eldborgar,

Magnús Pálsson Sigurðsson.

Andrés: iðnaðarmaður; rafvirki; góðkunningi okkar starfsmanna á elliheimilinu Grund, er allur; eftir rúman starfsaldur! Hann, sem var svo glaðbeitt andlit í starfsmannamötuneytinu og á göngum húsanna. Hann var síðast farinn að minnka við sig; og að vinna í útibúinu Mörkinni; en vildi þó ekki hætta að vinna alveg, á meðan eftirsókn virtist eftir starfskröftum hans; sem rafvirkjameistara!

Andrés fylgdist með dagblaðaskrifum; og nefndi hann við mig að honum fyndist fréttaumfjöllun Guðmundar Andra Thorssonar, bókmenntafræðings og vinstrisinna, í hans vikulegu pistlum í Fréttablaðinu segja honum það sem þurfti í dægurmálum. Einnig varð hann var við það ef einhverjir skrykkir komu á gengi mitt sem rithöfundar í Morgunblaðinu!

Við starfsfólkið á Grund minnumst þessa vel liðna starfsmanns með eftirsjá og þakklæti.

Ég vil kveðja hann með tilvitnun í ljóð mitt sem heitir Dómsmálaráðuneytið; en þar yrki ég m.a. svo:

En hvað með alla elliæru dómarana?

Hvar á svo allt gamla fólkið að vera?

Lögin hafa svosem ekki skoðun á því:

þeirra er bara að tryggja reglu og reglur.

Og það vill svo til að fólkið hefur brjóstvit

og vill gefa eftir skattpeninga í þau.

Tryggvi V. Líndal.