Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNAIDS, segir í nýrri skýrslu að dauðsföllum af völdum alnæmis hafi fækkað og fleiri fengið lyf við sjúkdómnum en áður.

Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNAIDS, segir í nýrri skýrslu að dauðsföllum af völdum alnæmis hafi fækkað og fleiri fengið lyf við sjúkdómnum en áður.

Stofnunin segir að 24,5 milljónir manna, eða um tveir þriðju alnæmissmitaðra, hafi fengið lyfjameðferð við sjúkdómnum á fyrri helmingi ársins, 1,2 milljónum fleiri en í lok síðasta árs. Stefnt hefur verið að því að 30 milljónir manna fái lyf við alnæmi ekki síðar en í lok næsta árs.

Dauðsföllum fækkaði um 33%

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að 770.000 manns dóu úr alnæmi á síðasta ári, tæpri milljón færri en árið 2004 þegar dauðsföllin voru flest. Dauðsföllunum af völdum alnæmis hefur fækkað um 33% í heiminum frá árinu 2010, mest í austan- og sunnanverðri Afríku þar sem um 44% alnæmissmitaðra búa. Þar fækkaði dauðsföllunum um 44% frá 2010.

Nýgengið minnkaði um 16%

Nýgreindum smittilvikum fækkaði um 16%, eða úr 2,1 milljón árið 2010 í 1,7 milljónir á síðasta ári. Stefnt hefur verið að því að nýgreind tilvik verði færri en hálf milljón á næsta ári, þannig að mikið þarf að breytast til að það markmið náist. Nýgengið minnkaði mest í austan- og sunnanverðri Afríku, eða um 28% frá 2010. Nýgreindum tilvikum fjölgaði hins vegar um 29% í Austur-Evrópu og Mið-Asíu, 10% í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og 7% í Rómönsku Ameríku.

Gunilla Carlsson, framkvæmdastjóri UNAIDS, segir í formála að skýrslunni að nýgengi sjúkdómsins meðal stúlkna og kvenna á aldrinum 15-24 ára hafi minnkað um 25% milli áranna 2010 og 2018. Hún bætir við að þetta séu góðar fréttir en samt sé það óviðunandi að í viku hverri smitist um 6.000 stúlkur og ungar konur af alnæmi.