[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigfús Mar Vilhjálmsson er fæddur: 28. nóvember 1944 á Brekku í Mjóafirði og ólst þar upp. „Ég fæddist uppi á loftinu, ég hef síðan sofið í mörgum herbergjum í húsinu og er núna aftur kominn í sama herbergi og ég fæddist í.

Sigfús Mar Vilhjálmsson er fæddur: 28. nóvember 1944 á Brekku í Mjóafirði og ólst þar upp. „Ég fæddist uppi á loftinu, ég hef síðan sofið í mörgum herbergjum í húsinu og er núna aftur kominn í sama herbergi og ég fæddist í.“ Sigfús gekk í Barnaskóla Mjóafjarðar og var einn vetur í Eiðaskóla.

Sigfús varð útvegsbóndi á Brekku 1964. „Ég og bróðir minn Páll vorum í 19 ár með trillu og þá kallaði ég mig útvegsbónda og hef alltaf verið ánægður með það heiti, en bæði afi minn og langafi kölluðu sig alltaf útvegsbændur.“ Það hafa verið margir fleiri titlarnir sem Sigfús hefur borið, en hann hefur verið hreppstjóri, oddviti, formaður sóknarnefndar Mjóafjarðarkirkju, verktaki vinnuvéla, umboðsaðili N1, vélgæslumaður RARIK, hafnarstjóri Fjarðabyggðar og landpóstur Íslandspósts. Auk þess er hann annálaður grínisti og skemmtikraftur. Hann var oddviti þar til Mjóafjarðarhreppur sameinaðist Fjarðabyggð en hann heldur enn þá flestum hinum titlunum. „Ég hef stundum sagt að ég taki að mér störf sem aðrir nenni ekki að sinna.“

Sigfús og Jóhanna eru með fjárbúskap á Brekku, voru mest með 200 hundruð kindur en þær eru núna 100. Þau eru einnig með ferðaþjónustu á sumrin, tvo sumarbústaði, Sólbrekku, sem er einnig félagsheimili og yfirgefið einbýlishús.

Þótt Sigfús hafi alla tíð búið á Brekku þá hafa þau hjónin verið dugleg að ferðast og farið m.a. til Kúbu og Indlands og sigldu um á skútu milli Seychelles-eyjanna sem eru fyrir sunnan Indland. Þrettán síðustu haust hefur Sigfús svo verið fararstjóri í ferð til Færeyja ásamt Sveini Sigurbjarnarsyni. „Það er því ekki hægt að segja að máltækið heimskur er heimaalinn hundur eigi við um mig.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigfúsar er Jóhanna Lárusdóttir, f. 16.10. 1948, húsmóðir og ferðaþjónustubóndi, fyrrverandi kennari við Barnaskóla Mjóafjarðar og stöðvarstjóri Íslandspósts. Foreldrar hennar voru hjónin Lárus Jóhannsson, f. 1.10. 1909, d. 7.2. 2003, vélsmiður í Reykjavík, og Margrét Þórarinsdóttir, f. 6.9. 1909, d. 13.10. 1983, húsmóðir í Reykjavík.

Börn Sigfúsar og Jóhönnu eru 1) Ingólfur Sigfússon, f. 21.4. 1967, fiskeldisfræðingur og svæðisstjóri Laxeldis Austfjarða á Fáskrúðsfirði, sambýliskona er Katrín Pétursdóttir; 2) Lárus Sigfússon, f. 22.12. 1968, vinnur hjá Össuri í Kaliforníu, giftur Birgit Þórðardóttur; 3) Margrét Sigfúsdóttir, f. 9.9. 1971, kennari á Egilsstöðum, gift Guðjóni Halldórssyni; 4) Anna Guðrún Sigfúsdóttir, f. 14.6. 1976, vinnur hjá Brúnás innréttingum, bús. á Egilsstöðum, sambýlismaður er Magnús Sigurðsson, bóndi á Víkingsstöðum á Völlum. Barnabörnin eru 7.

Systkini Sigfúsar: Hjálmar Vilhjálmsson, f. 25.9. 1937, d. 20.8. 2011, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun; Páll Vilhjálmsson, f. 23.5. 1940, fyrrverandi sjómaður, búsettur á Seyðisfirði; Stefán Vilhjálmsson, f. 11.9. 1949, matvælafræðingur, búsettur á Akureyri, og Anna Vilhjálmsdóttir, f. 7.3. 1954, kennari á Selfossi.

Foreldrar Sigfúsar voru hjónin Vilhjálmur Hjálmarsson, f. 20.9. 1914, d. 14.7. 2014. bóndi á Brekku, kennari, þingmaður og ráðherra, og Anna Margrét Þorkelsdóttir, f. 15.2. 1914, d. 21.4. 2008, húsmóðir á Brekku.