Lóa Birna Birgisdóttir
Lóa Birna Birgisdóttir
Reykjavíkurborg hefur verið í forystu hins opinbera við að bjóða starfsmönnum sem ná 70 ára aldri upp á sveigjanleg starfslok.

Reykjavíkurborg hefur verið í forystu hins opinbera við að bjóða starfsmönnum sem ná 70 ára aldri upp á sveigjanleg starfslok. Í kjarasamningum Reykjavíkurborgar og viðsemjenda borgarinnar hefur um skeið verið að finna ákvæði um heimildir til að endurráða starfsmenn sem hafa náð 70 ára aldri. Heimilt er að ráða starfsmann í allt að tvö ár til fyrstu mánaðamóta eftir að 72 ára aldri er náð, nema annar hvor aðili segi ráðningunni upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Nokkur reynsla er komin á þetta.

„Frá því í janúar 2016 til dagsins í dag hafa 186 starfsmenn 70 ára eða eldri verið við störf hjá Reykjavíkurborg. Á þessu árabili hefur því að meðaltali 31 starfsmaður 70 ára eða eldri verið við störf í hverjum mánuði,“ segir Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar, í svari til blaðsins.

Skoða frekari aðgerðir um sveigjanleg starfslok

Ríkisstarfsmönnum ber skv. lögum að láta af störfum þegar þeir verða 70 ára og sambærilegt ákvæði hefur verið í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er nú rætt um m.a. í kjaraviðræðum sveitarfélaga og á vettvangi Alþingis að auka svigrúmið víðar en hjá borginni og afnema aldurstakmörkin að einhverju leyti.

Lóa Birna segir Reykjavíkurborg taka þátt í verkefninu aldursvænar borgir og hluti af verkefninu lúti að því að vinnustaðurinn verði aldursvænn. „Reykjavíkurborg er því að skoða hugmyndir að frekari aðgerðum um sveigjanleg starfslok sem falla að því að gera Reykjavíkurborg að enn aldursvænni vinnustað,“ segir hún. omfr@mbl.is