Jóhann Vísir Gunnarsson, oft kallaður Jói dúkari, fæddist 20. janúar 1951. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 18. nóvember 2019. Jóhann Vísir var sonur hjónanna Þuríðar Kristjánsdóttur, f. 9.1. 1921, d. 28.4. 1991, frá Krithóli, Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði og Gunnars Jóhannssonar, f. 9.2. 1922, d. 9.1. 1979, frá Mælifellsá í sama hreppi. Foreldrar Þuríðar voru Ingibjörg Jóhannsdóttir, f. í Þorsteinsstaðakoti 1888, d. 1947, og Kristján Árnason frá Gili í Svartárdal, f. 1885, d. 1964. Foreldrar Gunnars voru Lovísa Sveinsdóttir frá Mælifellsá, f. 1894, d. 1979, og Jóhann Pétur Magnússon frá Gilhaga í Lýtingsstaðahreppi, f. 1892, d. 1979. Foreldrar Jóhanns voru búsett að bænum Varmalæk í Skagafirði til ársins 1954 þar sem þau ráku saumastofu og verslun en fluttu þá til Reykjavíkur. Þau slitu síðar samvistum. Jóhann var fimmta barn foreldra sinna en börn þeirra voru átta talsins. 1) Bragi Gunnarsson, f. 21.6. 1944, d. 16.1. 2006, 2) Sveinn Þröstur Gunnarsson, f. 26.7. 1945, 3) Hjörtur Þór Gunnarsson, f. 16.9. 1946, d. 1.11. 2007, 4) Kristján Ingi Gunnarsson, f. 25.9. 1949, 5) Jóhann Vísir Gunnarsson f. 20.1. 1951, d. 18.11. 2019 6) Svanhildur Helga Gunnarsdóttir, f. 27.11. 1952, 7) Hrafnhildur Gunnarsdóttir, f. 26.11. 1955, d. 28.12. 2010, 8) Gunnar Þórir Gunnarsson, f. 2.5. 1962, d. 18.9. 2017.

Jóhann Vísir átti fjögur börn. 1) Þröstur Rúnar Jóhannsson, f. 13.10 1971, giftur Sandy Ng Johannsson, f. 2.1. 1973. Börn þeirra eru Coco Margaret Johannsson, f. 26.2. 2005, og Magnus Prostur Johannsson f. 16.12. 2006. Móðir Þrastar er Margrét Þrastardóttir, f. 1953. 2) Rakel Jóhannsdóttir, f. 9.3. 1977, gift Konráði Hall f. 13.11. 1973. Börn þeirra eru Flóki Kristján Hall, f. 22.4. 2004, og Hilda Lóa Hall, f. 28.4. 2010. Móðir Rakelar er Svanhvít Albertsdóttir, f. 1956. 3) Ásgeir Vísir Jóhannsson, f. 26.9. 1988, er í sambúð með Öldu Dís Arnardóttur, f. 9.1. 1993. Dóttir þeirra er Ásthildur Erna Ásgeirsdóttir, f. 2.10. 2017. Móðir Ásgeirs er Sigrún Einarsdóttir, f. 1961. 4) Þuríður Blær Jóhannsdóttir, f. 16.1. 1991, er í sambúð með Guðmundi Felixsyni, f. 6.4. 1990. Móðir Blævar er Ilmur Árnadóttir, f. 1958.

Jóhann gekk í Langholtsskóla frá 1959-1961 og í Hlíðaskóla þar til hann lauk fullnaðarprófi 1966. Á sumrin var hann í sveit á ýmsum stöðum á landinu. Jóhann gekk síðar í Iðnskólann og lærði veggfóður og dúklagningar, starfaði við það og fékk í kjölfarið viðurnefnið Jói dúkari. En hann starfaði einnig við ýmis önnur störf, svo sem múrviðgerðir, að reisa ljósastaura, grafa skurði og sigla á millilandaskipi. Jóhann var alltaf með liti við hönd og teiknaði ótal myndir. Hann hafði skoðanir á þjóðfélagsmálum og skrifaði nokkrar greinar í blöðin. Svo var hann mikill uppfinningamaður og rissaði upp þónokkur tæki og tól, t.a.m. hnakk fyrir fatlaða.

Jóhann verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag, 28. nóvember 2019, og hefst athöfnin kl. 15.

Við eftirlifandi systkini þín viljum hér minnast þín og votta börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum samúð okkar.

Þótt þú hafir valið að ganga þá lífsins braut sem þú gerðir áttum við margar góðar stundir saman. Þú hafðir stórt hjarta, varst trúaður og vinur litla mannsins. Hugsaðir stórt og áttir margar góðar hugmyndir þótt fáar þeirra kæmust svo langt að vera framkvæmdar. Þú hannaðir t.d. hnakk fyrir fatlaða, í samstarfi við frænda þinn, Jóhann Pétur Sveinsson.

Þú lærðir dúklagningar og vannst við þær í nokkuð mörg ár og gerðir vel.

Þú þurftir stundum á hjálp okkar að halda en áttir það til að fara yfir strikið. Þú varst hjálpsamur og réttir okkur oft hjálparhönd, einkum þegar þú varst að vinna að iðn þinni.

Útigangsfólkið í Reykjavík á þér margt að þakka. Þegar þú hafðir ráð á húsnæði skaust þú oft skjólshúsi yfir það fólk og gafst bæði mat og drykk ef eitthvað var þá til. Þú hafðir hug á að stofna samtök útigangsfólks en af því varð ekki. Ef lögreglan var spurð um þína hagi var svarið gjarnan: Já, Jói, hann er vinur okkar.

Þakkað skal hér öllum þeim sem studdu þig á erfiðum seinni árum lífs þíns, s.s. starfsfólki á geðdeildum og umsjónarmönnum félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar, sem voru með mál þín á sinni könnu.

Blessuð sé minning þín, kæri bróðir, Guð varðveiti þig.

Fyrir hönd systkina þinna,

Svanhildur Helga.

Elsku bróðir. Við andlát þitt rifjast upp góðar minningar frá æsku okkar. Við syskinin voru átta, ég sá fjórði og þú fimmti strákurinn, síðan tvær systur og Gunnar Þórir yngstur.

Þú varst skírður í höfuðið á ömmu og afa, Lovísu Sveinsdóttur og Jóhanni Magnússyni. Hlaust þú nafnið Jóhann Vísir, sem hluti af nafni ömmu.

Fyrstu ár okkar vorum við á Varmalæk í Skagafirði. Ein fyrsta minning mín er að ég datt í sundlaug, sem var milli tveggja gróðurhúsa. Ég var með húfu, með skyggni og bundna undir hökuna. Þú dróst mig upp, með því að toga í skyggnið, og þarna stóðum við fjögurra og fimm ára, ég holdvotur og þú grenjandi og sagðir „ég greip í giggnið á Djána“.

Eitt sinn er við vorum að fara í sveitina fengum við að gista hjá afa og ömmu á Bergþórugötunni. Sveinn föðurbróðir okkar átti að taka okkur öll norður snemma morguns. Amma var í sloppnum sínum að taka til morgunverð og nesti, en afi og Sveinn voru að spjalla. Afi sat á rúmstokknum og taldi sig vera að fara í buxurnar sínar. Leitaði hann margoft að seinni skálminni, en var með í höndunum pils ömmu, sem var eins á litinn og buxurnar hans. Við tístum og hlógum að þessu. Afi sagði að það væri með ólíkindum með strákana. „Þeir gera hvor annan vitlausan þegar þeir eru saman, en ágætir sinn í hvoru lagi.“ Afi sagði þessa sögu margoft fyrir norðan og var mikið hlegið að. Svo liðu árin og við náðum að verða blaðsöludrengir og fórum á afgreiðslu Vísis í Þingholtsstræti. Voru þar mættir 12-15 strákar. Afgreiðslumaðurinn spurði þig um nafn og sagðir þú Jóhann Vísir. Nokkrum sinnum spurði hann og sagði svo: Láttu ekki eins og fífl, út með þig. Þá sagði ég: Jú, hann heitir Jóhann Vísir og fengum við þá blöðin í hendur. Var þá haldið niður á torg og Austurstræti og kallað: Vísir, Vísir. Seinna fékkst þú fría áskrift að blaðinu út á nafnið, enda eini nafni Vísis.

Eitt sinn þegar þú komst norður var ég fyrir í sveitinni. Þegar bíllinn stöðvaði á melnum við Varmalæk varst þú svo spenntur að sjá kýrnar. Þú hljópst beint úr bílnum að fjósinu og beint upp á fjóshauginn, sem virtist traustur. Þar seigstu hægt niður og stóð loks aðeins höfuðið upp úr. Ég tók þátt í að draga þig upp og taldi mig þar með launa þér björgunina úr lauginni forðum.

Svona eru brot af æskuminningum um okkur, kæri bróðir, og gott að ylja sér við þær, þegar stóru tímamótin eru komin. Þú fórst í iðnnám í dúklagningum og varst mjög hugmyndaríkur, m.a. veggfóðraðir þú sturtuklefa hjá mér með rósamynstruðu álþynnuveggfóðri. Reyndist þetta mjög vel. Ýmsar nýjungar komst þú með í iðn þinni. Líf þitt var ekki dans á rósum. Í síðasta símtali okkar sagðir þú mér að þú hefðir mátt sinna börnum þínum og barnabörnum betur. „Þau eru perlurnar mínar og ég er stoltur af þeim.“

Takk fyrir allt og allt, elsku bróðir.

Kristján Ingi Gunnarsson.

Hallærisplanið seinnihluta ársins 1970. Ég, nýlega orðin 17, sit í aftursætinu, bílstjórinn skrúfar niður rúðuna. Strákur stingur inn höfðinu rétt til að segja hæ við bílstjórann, er að flýta sér. Oh my lord með George Harrison hvað hann er sætur. Sá sæti sem er á hraðferð ákveður fljótlega að hægja á ferðinni og sest aftur í hjá mér, kynnir sig sem Jóa og það er spjallað eða öllu heldur, hann talar. Um allt mögulegt. Hve ljótt er að dæma fólk án þess að þekkja til. Hvort lífvænlegt sé handan við Vetrarbrautina eða hinumegin við sólina. Spáir og spekúlerar, alls kyns hugmyndir. Hann er Skagfirðingur og fer með vísur, kann ógrynni af þeim. Segir einstaklega skemmtilega frá. Ég er heilluð af þessum heimspekilegu vangaveltum og er með stjörnur í augum þótt hann sé reyndar svakalega gamall, segist verða 20 ára í janúar. Hann má ekki slóra lengur, það er beðið eftir honum. Hann lítur á mig með sínu strákslega heillandi brosi og segir: Við sjáumst.

Og við sáumst oft, alltaf gaman. Þú hjálpaðir mér inn um glugga í Glaumbæ svo ég, of ung til að komast inn, gæti tekið þátt í gleðinni, reddaðir inn í Sigtún, spilaðir á skeiðar, fórst með vísur og sagðir sögur úr fortíð og af framtíð. Við kæró í nokkrar vikur og ég varð ófrísk. Þrátt fyrir að vera ekki kæró vorum við góðir vinir í mörg ár. Svo góðir að mér fannst alltaf að ég gæti boðið mér heim til þín í tíma og ótíma þegar mig langaði að spjalla eða fá sögustund. Alltaf velkomin.

Þú kenndir mér á þinn velviljaða máta að taka tillit til annarra og að ekki væri fallegt að særa náungann. Aldrei sagðirðu styggðaryrði við mig, ekki einu sinni þegar ég hellti niður 150 lítrum af spíra sem einhver hafði komið fyrir í kjallaratröppunum hjá þér. Ekki heldur þegar ég stóð uppi með súlulaust tjald í Þórsmörk og rændi súlum úr næsta tjaldi, vissi ekki að það var þitt. Magga, svona lagað gerir maður ekki. En allt var samt í lagi fyrst það var tjaldið þitt sem var ónothæft. Vildir ekki súlurnar. Ég gisti bara hjá þér ef ég fæ hvergi næturstað, sagðirðu kankvís.

Þú varst einstaklega glaðlyndur, blátt áfram, ljúfur og fróður en með afleitt tímaskyn. Sem dæmi þegar kom að fermingu sonar okkar og þú vildir kaupa í matinn fyrir ferminguna, maturinn kom, bara viku eftir fermingu.

Svo heyrði ég ekki í þér í mörg ár, ekki fyrr en þú varst kominn á spítalann í haust. Vildir fá fréttir af frumburðinum okkar. Varst ákaflega stoltur af börnunum þínum og barnabörnum. Sást eftir að hafa ekki gefið þeim meiri tíma, nú átti að bæta úr. Varst bjartsýnn á framtíðina og bata. Ekki hræddur við dauðann, þegar stundin kemur þá horfist maður í augu við það.

Stundin kom svo miklu fyrr en búist var við. Kannski hefur þú nú séð hvað leynist handan við sól og vetrarbraut, fundið sælureit fyrir heimilislausa og aðra bágstadda og vinnur að úrræðum að koma þeim þangað á sem bestan hátt. Leikur glaður með skeiðar, málar listaverk og heillar stjörnur himinhvolfsins.

Takk Jói minn fyrir vináttu, ást og hlýju.

Margrét Hrönn

Þrastardóttir.

Jói dúkari var mikill ákafamaður, stórhuga með ríkt hugmyndaflug. Hann fór ekki framhjá neinum þar sem hann var. Var góður fagmaður og harðduglegur til verka þegar hann tók á því. Uppátækjasamur, dansari og duflari á yngri árum og eignaðist börn með nokkrum konum. Vel greindur en hneigður fyrir loftkastala og nýtti því miður ekki gáfur sínar sér og sínum til heilla. Lifði síðari hluta ævinnar óreglusömu lífi áfengis- og vímuefnaneytandans.

Hann var að nálgast fertugt þegar við kynntumst honum. Varð hálfgildings tengdasonur í nokkur ár og áttum við töluvert saman við hann að sælda en yngsta dóttir hans varð heimagangur hjá okkur, afa sínum og fósturömmu.

Jói átti einstöku barnaláni að fagna og var mjög stoltur af börnum sínum, sem eru hvert öðru betur gerð og hefur vegnað vel. Og þrátt fyrir kannski óhefðbundin fjölskyldusamskipti hefur aldrei leynt sér gagnkvæm væntumþykja þeirra í milli. Það var fátt sem hann hefði ekki viljað gera fyrir börn sín hefðu aðstæður hans verið hagstæðari.

Samskiptin við Jóa gátu verið dálítið krefjandi því hugmyndir hans og fyrirætlanir, sem hann átti til að lýsa í löngu og ítarlegu máli og gátu vissulega verið heillandi, voru oftar en ekki harla fjarri raunveruleikanum.

Þrátt fyrir löngum hráslagalegt líf og samneyti við fólk sem ekki fylgdi alltaf lögum og reglum varðveitti hann sitt góða innræti og hann hafði sína eigin réttlætiskennd. Hún var kannski ekki alveg sú sama og hin almennt viðurkennda, en samt laus við allt refsivert og hann var alla tíð heiðarlegur í samskiptum við okkur.

Þegar Blær yngsta dóttir Jóa var á sjötta ári tókum við hana eitt sinn með okkur í ferð norður í land og heimsóttum þá skyldfólk pabba hennar á Varmalæk í Skagafirði. Þar fékk hún að heyra ýmsar sögur af honum og ævintýrum hans þegar hann var krakki. Á ferð um sveitina gátum við svo sýnt henni ýmsa staði sem við sögu höfðu komið. Eitt sinn þegar þessi bráðgera telpa hafði setið lengi þegjandi í aftursætinu heyrum við að hún segir:

Mér finnst eitthvað bogið við þetta.

Nú hvað er það?

Að pabbi sem er svona gleðimaður og kvennamaður og drykkjumaður hafi einu sinni verið lítill strákur.

Þetta mætti kannski kalla stutt ævisöguágrip.

Það er gott að hugsa til þess að í erfiðum veikindum síðustu mánuði fékk Jói góða aðhlynningu og viðmót af hálfu starfsfólks Landspítalans, sem einkenndist af fagmennsku og velvild. Komið var fram við hann af skilningi og virðingu; krabbameinslækninum hans þótti hann skemmtilegur og hafði gaman af sögunum hans.

Árni Björnsson og

Ingibjörg Helgadóttir.