Litur og líf „Í olíumálverkunum á sýningunni hef ég gætt stjörnurnar lit og lífi og staðsett í ókunnugri framtíð,“ segir Katrín Matthíasdóttir um sýninguna Fjarstjörnur og fylgihnettir sem hún opnar í Galleríi Gróttu í dag kl. 17.
Litur og líf „Í olíumálverkunum á sýningunni hef ég gætt stjörnurnar lit og lífi og staðsett í ókunnugri framtíð,“ segir Katrín Matthíasdóttir um sýninguna Fjarstjörnur og fylgihnettir sem hún opnar í Galleríi Gróttu í dag kl. 17. — Morgunblaðið/Eggert
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Fjarstjörnur og fylgihnettir nefnist sýning sem Katrín Matthíasdóttir opnar í Galleríi Gróttu í dag kl. 17. Þar getur að líta á annan tug olíumálverka Katrínar í samspili við ljóð eftir Pálma R. Pétursson, eiginmann hennar. Spurð um tilurð sýningarinnar rifjar Katrín upp að hún hafi á flóamarkaði í Berlín sumarið 2018 rekist á gamla kvikmyndabæklinga alþjóðlegra kvikmynda frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Fjarstjörnur og fylgihnettir nefnist sýning sem Katrín Matthíasdóttir opnar í Galleríi Gróttu í dag kl. 17. Þar getur að líta á annan tug olíumálverka Katrínar í samspili við ljóð eftir Pálma R. Pétursson, eiginmann hennar. Spurð um tilurð sýningarinnar rifjar Katrín upp að hún hafi á flóamarkaði í Berlín sumarið 2018 rekist á gamla kvikmyndabæklinga alþjóðlegra kvikmynda frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

„Ég heillaðist af þessum bæklingum og ætlaði að kaupa nokkur stykki. Sá sem var að selja þá bauð mér að kaupa einn bækling á eina evru eða alla hundrað bæklingana á fimm evrur, þannig að ég sló til og tók þá alla,“ segir Katrín sem á þessum tíma bjó í íbúð sem Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) á við Neue Bahnhofstrasse í austurhluta Berlínar.

Hamfarahlýnun sýnileg

„Bæklingarnir eru allir svarthvítir, en skemmtilega fjölbreyttir enda prýða þá stjörnur frá ýmsum löndum á borð við Japan, Finnland, Frakkland, Ungverjaland, Tyrkland, Ítalíu og Bretland,“ segir Katrín og bendir á að leikkonur prýði flestar forsíðurnar, en einstaka leikari fái að fljóta með. „Stjörnurnar á myndunum kunna að vera fjarri okkur í tíma og rúmi og kannski má segja að járntjald, kynslóðir og ljósár skilji þær frá okkur, að ógleymdum Berlínarmúrnum sjálfum. Stjörnurnar eru þó ekki fjær okkur en svo að ég er sjálf fædd um það leyti sem bæklingarnir komu út og því má segja að kvikmyndir þessara stjarna hafi ferðast í hálfa öld og séu því komnar 50 ljósár frá okkur,“ segir Katrín sem í verkum sínum vinnur iðulega með samfélagslega og pólitíska skírskotun og er nýja sýningin hennar þar engin undantekning.

„Ég hef verið loftslagsaktívisti frá 2007, eða frá því ég sá kvikmynd Als Gore, An Inconvenient Truth. Í 800 þúsund ár hefur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu verið nokkuð stöðugt, en frá iðnbyltingu hefur það rokið upp. Það eru bein tengsl milli magns koltvísýrings í andrúmsloftinu og hitastigs á jörðinni. Við lifum nú á tímum þar sem við komumst ekki hjá því að hugsa um hamfarahlýnun á hverjum degi, enda snertir þetta málefni allt okkar líf. Málefni hamfarahlýnunar birtist því óhjákvæmilega í minni myndlist.

Í olíumálverkunum á sýningunni hef ég gætt stjörnurnar lit og lífi og staðsett í ókunnugri framtíð – einmitt þeirri þar sem tilvera okkar snýst um hamfarahlýnun af mannavöldum,“ segir Katrín og bendir á að viðvörunarbjöllur hafi þegar verið byrjaðar að hljóma þegar kvikmyndastjörnur bæklinganna skinu sem skærast á sínum tíma.

„Núna eru stjörnunar komnar til nútímans og sjá að ekkert hefur verið gert þrátt fyrir varnaðarorð vísindamanna. En þó erfiðleikar steðji að okkur speglast óstöðvandi afl breytinga, nýrrar hugsunar og vonar í augum okkar og í bliki stjarnanna,“ segir Katrín og tekur fram að það sé engin tilviljun að aðeins konur fái andlit á sýningu hennar.

Karlarnir hafa ekki staðið sig

„Á þeim forsíðum þar sem bæði kyn eru sýnileg valdi ég að má burt andlit leikarans. Það er ekkert leyndarmál að karlmenn hafa stjórnað heiminum í gegnum árhundruðin, en þeir hafa ekki staðið sig þegar kemur að loftslagsvánni. Ég er sannfærð um að ef konur komast til áhrifa og valda þá verði farið hraðar í þær nauðsynlegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir. Og ég vona að við förum nægilega hratt í þær aðgerðir sem þarf að fara í til að bregðast við þeirri hamfarahlýnun sem ógnar tilvist jarðarinnar,“ segir Katrín og bendir á að jörðin sé eina lífvænlega heimilið í geimnum sem við þekkjum í dag. „Það er ekkert plan B ef jörðin verður óbyggileg.“

Að sögn Katrínar munu valdir bæklingar liggja frammi í sýningarrýminu gestum til ánægjuauka, en gaman sé til dæmis að skoða hvernig allir kvikmyndatitlar séu þýddir á þýsku. „Ég er ekki búin að vinna með alla þá bæklinga sem mig langar að vinna með. Þetta er sá fjöldi sem ég komst yfir að vinna með fram að þessari sýningu. Ég mun hins vegar halda áfram að vinna með bæklingana í verkum mínum í framtíðinni,“ segir Katrín að lokum.