Ólafur Búi Gunnlaugsson fæddist 5. september 1953. Hann lést 15. nóvember 2019.

Útför Óla Búa fór fram 26. nóvember 2019.

Fallinn er frá góður drengur, Ólafur Búi Gunnlaugsson. Óli Búi, eins

og hann var alltaf kallaður, ólst upp við norðanverðan Byggðaveg og varð snemma eins konar hverfisforingi enda stór eftir aldri og bráðþroska. Ég, þremur árum yngri, naut verndar Óla Búa og var gott að vera undir verndarvæng hans enda var Óli mikill ljúflingur þótt rammur væri að afli.

Mér er minnisstæð ein lítil saga, sennilega frá vorinu 1963. Verið var að múrhúða húsið hjá Sillu í númer 140. Handlangari múraranna var tæplega tvítugur töffari sem var alltaf til í að spjalla við okkur strákana. Hann burðaðist með 50 kílóa sementspoka og var bara nokkuð drjúgur með sig. Hann taldi víst að við gætum ekki bifað þessari þyngd. Óli sagðist til í að prófa og lagði töffarinn 25 kr. undir að Óli gæti ekki borið pokann ákveðna vegalengd, sem hann fór síðan létt með og fékk fyrir vikið bláan seðil. – Mikið voru brúnu Akra-karamellurnar úr Kaupfélagi verkamanna góðar í sólinni þennan seinni part...

Ég gæti talið upp margar sögur í þessum dúr en læt hér við sitja.

Minning um góðan dreng lifir.

Við Maja sendum Agnesi, sonunum, systrum og öðrum ástvinum

innilegustu samúðarkveðjur.

Hallgrímur

Ingólfsson.

Óli Búi, samstúdent minn frá MA, 1974, er nú skyndilega allur.

Ég man er við settum upp stúdentshúfurnar, að hann reyndist með ennþá stærri hattastærð en ég; sökum hæðar sinnar. Þetta varð mér seinna innblástur að smásögu. Og seinna fékk hann ljóðabók frá mér er ég var hættur að kenna og orðinn skáld, en hann var kominn í stjórn Háskólans á Akureyri. Og nú, þegar ég er að gera úttekt á skáldsagnatilraunum mínum frá námsárunum í MA, kemur þetta óvænta áfall yfir okkur, útskriftarsystkinin hans!

Ég vil kveðja hann með tilvitnun í ljóð eftir mig, en það heitir: Handan rennidyranna; og segir þar m.a. svo:

...

En enn um þær rennidyr sem lokast:

Líkt og meginþorri Íslendinga

hef ég lúmskan grun um framhald

í eftirlífsúrræði hjá Friggju;

ellegar Freyju, Appóloni eður Orfeifi!

Líkt og ég fann svo glöggt í

svefnrofunum!

Tryggvi V. Líndal.