Strætó Almenningssamgöngur eru byggðamál. Auk þess að tengja byggðir við þjónustusvæði er þjónustan oft tengd skólaakstri og innanbæjarakstri.
Strætó Almenningssamgöngur eru byggðamál. Auk þess að tengja byggðir við þjónustusvæði er þjónustan oft tengd skólaakstri og innanbæjarakstri. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fyrirkomulag almenningssamgangna verður óbreytt á næsta ári frá því sem nú er, þótt Vegagerðin taki við rekstrinum af landshlutasamtökunum um komandi áramót. Þetta staðfestir G.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fyrirkomulag almenningssamgangna verður óbreytt á næsta ári frá því sem nú er, þótt Vegagerðin taki við rekstrinum af landshlutasamtökunum um komandi áramót. Þetta staðfestir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Samið hefur verið við verktaka út næsta ár og verður tíminn notaður til að skoða framtíðarskipulag á þjónustunni og það mun þá væntanlega taka gildi á árinu 2021.

Landshlutasamtök sveitarfélaganna hafa rekið landsbyggðarstrætó með þjónustusamningi við Vegagerðina og notið til þess styrkja ríkisins. Reksturinn hefur smám saman verið að þyngjast og tap safnast upp hjá samtökunum. Sveitarfélögin töldu sig ekki geta réttlætt þessi útgjöld vegna samgönguverkefna sem þau telja að séu á verksviði ríkisins og sögðu upp samningum við ríkið á síðasta ári. Ári fyrr höfðu Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum sagt upp sínum samningi vegna ágreinings og málaferla. Önnur landshlutasamtök urðu við beiðni Vegagerðarinnar um að reka kerfið með óbreyttu sniði í ár en samningurinn rennur út um áramót og þá tekur Vegagerðin við. Ríkið bætti landshlutasamtökunum tapið til loka árs 2017 og Vegagerðin greiðir væntanlega tapið í ár og því stendur eftir tapið sem varð á árinu 2018. Ekki hefur verið ákveðið hvernig með það verður farið.

Áhyggjur af skerðingu

Ekki fást hrein svör um það frá Vegagerðinni hvað felst í athugun á framtíðarskipulagi í þessum almenningssamgöngum. Þó er vísað til heildarstefnu í almenningssamgöngum sem samgönguráðuneytið vinnur að.

Fólk í sveitarfélögum sem eru langt frá þjónustu hefur áhyggjur af þessari endurskoðun. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur til dæmis sent frá sér ályktun þar sem lögð er áhersla á að þjónusta skerðist ekki við tilfærslu hennar til Vegagerðarinnar, heldur þvert á móti eflist.

Ljóst er að ef ríkið getur ekki annast þjónustuna með hagkvæmari hætti en landshlutasamtökin, til dæmis með hagstæðari niðurstöðu útboða, og ríkið leggur ekki meira fjármagn í verkefnið, er fátt eftir annað en að skerða þjónustuna. Hornafjörður er endastöð, langt frá höfuðborgarsvæðinu. Þangað er ekið tvisvar á dag á sumrin og einu sinni að vetrinum, nema laugardaga þegar ekki er ekið. Skerðing á þessari þjónustu þýddi eina ferð að sumri eða að ekið verði annan hvern dag að vetrinum, eða eitthvað í þá áttina.

Samvirkni samgöngumáta

Þá kom fram í tillögu að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í almenningssamgöngum, Ferðumst saman, sem kynnt var í byrjun ársins, að leggja ætti áherslu á niðurgreiðslu á einni samgönguleið til byggða. Sérstaklega var tiltekið að það þýddi að niðurgreiðslu á flugi til Þórshafnar, Vopnafjarðar og Hornafjarðar yrði hætt.

Í frumvarpi til samgönguáætlunar sem kynnt hefur verið er hnykkt á þessu með ákvæði um að heildstætt kerfi almenningssamgangna milli byggða verði skilgreint, meðal annars með tilliti til þess sem kallað er samvirkni leiða. Jafnframt að komið verði upp gagnvirkni upplýsingaveitu um allar almenningssamgöngur, hvort sem þær fara fram á landi, í lofti eða á legi.

Nýta má aðra möguleika

Samgöngulausnir sem byggjast á samnýtingu þeirra samgangna sem þegar eru til staðar gætu lyft grettistaki í því að auka aðgengi að afskekktustu byggðum landsins og náð því takmarki að 98-99% landsmanna hefðu beinan aðgang að almenningssamgangnakerfinu innan ásættanlegrar fjarlægðar frá heimili sínu. Þetta segir í tillögu að stefnumörkun ríkisins í almenningssamgöngum. Í þessu sambandi er nefnt að ýmsar, nokkuð reglulegar samgöngur eru reknar víða um land, svo sem flutningar með matvæli, vörur og póst. Hvatt er til þess að Vegagerðin styrki rannsóknir á þessu sviði hér og reyni þannig að stuðla að því að nýjar samgöngulausnir komist í gagnið. Sömuleiðis verði löggjafinn að vera vakandi fyrir þeirri þróun sem ný tækni veitir á sviði samgangna og tryggja að löggjöf fylgi með, styðji við og hindri ekki framgang þeirra.