Kristín Sveiney Bjarnadóttir fæddist á Ísafirði 27. október 1932. Hún lést á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík 5. nóvember 2019.

Foreldrar hennar voru Benedikt Bjarni Hansson, sjómaður á Ísafirði, f. 7. apríl 1901, d. 18. ágúst 1995, og Kristín Gradíana Jóhannsdóttir verkakona, f. 18. ágúst 1896, d. 5. júní 1982.

Systkini Kristínar voru: Jóhann Sigurður Gunnar Aðalsteinn Sigurðsson, f. 15. júní 1913, d. 23. október 1986, Benjamín Páll Sigurðsson, f. 15. maí 1917, d. 15. febrúar 2013, Guðmundur Jósep Sigurðsson, f. 21. maí 1924, d. 7. ágúst 1992, Guðrún Guðríður Sigurðardóttir, f. 21. maí 1924, d. 3. mars 2019, Hermann Alfreð Bjarnason, f. 28. janúar 1928, d. 3. júní 1946, Hákon Guðberg Bjarnason, f. 28. janúar 1928, d. 27. október 2009, Oddur Jakob Bjarnason, f. 27. október 1932, d. 9. október 2004.

Kristín giftist hinn 11. júní 1955 Alberti Ingibjartssyni, f. 11. febrúar 1929, d. 11. nóvember 1996. Börn þeirra eru: 1) Benedikt Bjarni Albertsson, f. 20. febrúar 1953, maki Guðrún Guðbjartsdóttir, f. 24. maí 1955. Börn þeirra eru: Guðbjartur Atli Bjarnason, f. 16. mars 1976, Guðjón Páll Bjarnason, f. 28. júní 1981, Auður Erla Bjarnadóttir, f. 23. september 1987 og Kristinn Snær Bjarnason, f. 26. mars 1995. 2) Fríða Kristín Albertsdóttir, f. 17. janúar 1957, fyrrum maki Hörður Kristjánsson, f. 8. júní 1955. Börn þeirra eru: Haukur Már Harðarson, f. 23. október 1976, Jón Albert Harðarson, f. 12. mars 1979, Hörður Páll Harðarson, f. 18. ágúst 1981, Auðunn Birgir Harðarson, f. 26. febrúar 1988. Sambýlismaður Fríðu er Magnús Pétursson, f. 31. maí 1959. 3) Auður Erla Albertsdóttir, f. 15. september 1958, d. 5. apríl 1986, börn: Kristín Sveiney Baldursdóttir, f. 18. janúar 1982, Erla Björk Pálmarsdóttir, f. 16. apríl 1985, d. 5. apríl 1986.

Útför Kristínar fór fram í kyrrþey í Fossvogskapellu 15. nóvember 2019 að ósk hinnar látnu og var jarðsetning í Ísafjarðarkirkjugarði 16. nóvember.

Elsku amma mín, Kristín Sveiney Bjarnadóttir er dáin.

Þó það sé mér huggun að vita af henni á betri stað, þá er söknuðurinn mikill. Amma var mér kær vinkona og áttum við margar góðar stundir í gegnum árin. Hjá henni dvaldi ég mikið sem barn og þær stundir gleymast aldrei. Oftar en ekki sofnaði amma á undan mér eftir að hafa sungið fyrir mig gömul lög og vísur í þeim tilgangi að svæfa mig. Tók ég þá af henni gleraugun, slökkti ljósið og hjúfraði mig svo upp að henni, því að af ömmu stafaði mikil hlýja og kærleikur sem ég sótti í alla tíð. Hjá ömmu átti ég mitt skjól. Sem barni kenndi amma mér að fara með Faðir vorið og í hvert sinn sem ég gisti hjá henni fórum við með það saman. Í lokin báðum við svo góðan Guð um að blessa okkar nánasta fólk og að sjálfsögðu hvora aðra. Það reyndist mér því afar erfitt að fara með Faðir vorið í útför hennar.

Amma samdi vísur um allt mögulegt og skrifaði þær í bók sem enginn mátti lesa fyrr en eftir hennar dag. Á fermingardaginn minn gaf hún mér vísu, sem á þeim tíma höfðaði engan veginn til mín. Ég geymdi vísuna á góðum stað og þegar ég les hana í dag þá er það mér mikil ráðgáta hvernig henni datt í hug að semja þessi orð um mig, því vísan er eins og töluð úr mínu hjarta. Eitthvað hefur amma því séð í mér sem ég vissi ekki af sjálf, fyrr en mikið seinna. Þessi vísa mun ávallt eiga sérstakan stað í mínu hjarta.

Amma hafði mjög gaman af kvikmyndum og man ég varla eftir að hafa komið í heimsókn til hennar öðruvísi en að hún hafi legið í sófanum, með Stöð 2 í gangi og Diet-Coke flösku á borðinu. Mér er einnig mjög minnisstæð heilsan hennar, sem alltaf var sú sama: Nei, komdu sæl. Amma var stolt kona og vildi alltaf koma vel fyrir. Hún lagði því mikið upp úr því að vera snyrtilega til höfð og það voru ófá skiptin sem ég tók hana í dekur. Henni leiddist það nú ekki. Þá voru augabrúnirnar litaðar og plokkaðar, hárið blásið eftir hennar óskum og oft fylgdi fótanudd á lúnar lappir. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, Lindu Rós þá var amma mikið hjá okkur. Hún kenndi mér að búa til barnamat og hvernig ég ætti að brjóta saman þvott. Það voru góðar stundir sem við áttum saman allar þrjár.

Amma hafði síðastliðin sjö ár dvalið á Grund í Reykjavík og með árunum var amma farin að gleyma. Hún var aftur orðin ung stúlka á Ísafirði undir lokin. Mér er það mikil huggun að hugsa til þess að nú er hún komin aftur heim, heim til foreldra sinna, systkina, dóttur og dótturdóttur.

Elsku amma mín, ég óska þér hvíldar og friðar. Ég þakka þér fyrir alla þá ást og hlýju sem þú gafst mér og dætrum mínum. Þar til við hittumst á ný, þín litla Stína.

Nú til þín, faðir, flý ég,

á föðurhjartað kný ég,

um aðstoð eg bið þig.

Æ, vert með mér í verki,

ég veit þinn armur sterki

í stríði lífsins styður mig.

En verði, Guð, þinn vilji,

þó veg þinn ei ég skilji,

ég fús hann fara vil.

Þó böl og stríð mig beygi,

hann brugðist getur eigi,

hann leiðir sælulandsins til.

(Guðmundur Guðmundsson)

Kristín Sveiney

Baldursdóttir.