Hjörtur Jónsson Hjartar fæddist 11. júní 1948. Hann lést 17. nóvember 2019.

Útför hans var gerð 23. nóvember 2019.

Hjörtur Hjartar er fallinn frá eftir hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm.

Ég kynntist Hirti ungur að árum þegar hann var að slá sér upp með Jöggu móðursystur minni. Þau voru oft fengin til að passa mig sem eflaust hefur ekki verið það rómantískasta sem þau gerðu í tilhugalífinu. Ég var oftar en ekki með eyrnabólgu og orgaði út í eitt. Hjörtur sagði að eina ráðið við þessu hefði verið bíltúr á malarveginum í kringum Rauðavatn.

Þessi ósköp gerðu þau sem betur fer ekki afhuga barneignum. Frumburðurinn, Klemmi frændi, varð strax mikill vinur minn og ég hef varið ófáum stundum á heimili þeirra. Hjörtur og Jagga bjuggu um árabil í Álaborg þar sem hann stundaði nám. Á sama tíma bjó fjölskylda mín í Stokkhólmi og var hist við hvert tækifæri sem gafst. Það rifjast upp margar skemmtilegar sögur frá þessum tímum. Í einni heimsókninni fóru Hjörtur og pabbi ásamt okkur frændum að sækja jólatré út í skóg á Þorláksmessu. Eitthvað gekk erfiðlega að finna rétta tréð og var farið að rökkva verulega þegar það tókst. Stórglæsilegt tré, að þeirra sögn. Þegar aðfangadagur rann upp og skreyta átti tréð reyndist það hinsvegar arfaljótt, bæði illa gulnað og visið, skógarhöggsmönnum til mikillar undrunar. Þá voru góð ráð dýr. Þeir svilar enduðu með því að stöðva vörubílstjóra á leið með afgangstré á haugana og fengu að nappa einu slíku. Það fer fáum sögum af ánægju systranna með jólatréð þetta árið.

Hjörtur starfaði lengi vel hjá Eimskip og sinnti forstöðustarfi m.a. í Rotterdam, Hamborg og Gautaborg. Þegar ég ákvað að fara í framhaldsnám varð Erasmus í Rotterdam fyrir valinu eftir ráðleggingar Hjartar. Þar kynntist ég Ásthildi, tilvonandi eiginkonu minni, sem svo skemmtilega vildi til að hafði áður starfað sem ritari hjá Hirti. Ég hef oft hugsað hvað þessi góðu ráð réðu miklu um framtíð mína.

Fyrir um níu árum fjárfesti Klemmi ásamt félögum í Orf líftækni. Hjörtur tók sæti í stjórn félagsins og gerðist síðar stjórnarformaður þess. Í stjórnartíð hans þróaðist félagið úr því að vera lítið sprotafyrirtæki í arðbært alþjóðlegt líftæknifyrirtæki sem selur húðvörur um allan heim. Fyrir um þremur árum tók ég sjálfur sæti í stjórn Orf og varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að starfa með Hirti. Þegar hann þurfti frá að hverfa sökum veikinda tók ég við keflinu af honum. Hjörtur var alla tíð mjög áhugasamur um félagið. Hann gladdist mjög yfir velgengni þess og var ávallt spenntur að fá nýjustu fréttir af starfseminni. Það var alltaf gott að leita til hans og ég á góðar minningar af samstarfi okkar.

Hjörtur tókst á við veikindi sín af miklu æðruleysi og lífsvilja. Hann setti sig vel inn í hlutina og hafði mikla skoðun á meðhöndlun sinni. Hann klæddist og fór fram úr á hverjum einasta degi og leitaðist við að lifa sem eðlilegustu lífi allt til loka. Það hefði ekki verið hægt án stuðnings Jöggu sem stóð ávallt eins og klettur við hlið hans. Þau hjónin voru vinmörg sem reyndist mikið happ á þessum erfiðu tímum.

Ég mun sakna Hjartar. Blessuð sé minning hans.

Sigtryggur Hilmarsson.