Tískan kemur í bylgjum og hefur sjaldan eða aldrei verið eins áhugaverð og einmitt núna.
Tískan kemur í bylgjum og hefur sjaldan eða aldrei verið eins áhugaverð og einmitt núna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Sturludóttir mælir með því að fólk minnki stressið fyrir jólin og sé ekki puntufínt í pallíettum við eldamennskuna, heldur velji sér eitthvað þægilegt og fallegt að vera í á jólunum. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Sigríður hefur lengi haft áhuga á tísku og starfar nú í Kultur Kringlunni með fram því að vera kennari.

Sigríður klæðir sig vanalega upp á í klassískan fatnað, er oftar en ekki í flottum sniðum og í flíkum úr gæða efnum og hefur verið að þróa sinn eigin stíl í gegnum árin.

Hún er löngu hætt að stressa sig þegar kemur að jólunum, enda segir hún að jólin komi einu sinni á ári.

„Ég er afskaplega afslöppuð tengt jólunum hverju sinni. Ég tek ekki þátt í stressinu sem ég upplifi oft á þessum tíma í samfélaginu.

Ég dreg mig frekar í hlé og hef það huggulegt á minn eigin hátt með mér sjálfri og þeim sem mér finnst gott að vera með. Það besta við jólin er samveran á aðfangadagskvöld með börnunum mínum og barnabarni. Við njótum þess að borða saman, hlæja og spila fram á nótt.“

Sigríður er á því að fólk þurfi engan sérstakan fatnað fyrir jólin.

„Flestir eru við eldavélina og/eða í eldhúsinu nánast öll jólin og það er að mínu mati ekki þægilegt að vera í pallíettukjól eða einhverju öðru puntu-fínu við eldamennsku. Þess vegna mæli ég með því að vera í þægilegum og fallegum fatnaði um jólin.“

Hefur aldrei keypt sér sérstök jólaföt

Þó hún sé alltaf smart um jólin er það ekki vegna þess að hún sé nýbúin að kaupa sér fatnað á þeim tíma.

„Ég hef aldrei sem dæmi keypt mér sérstök jólaföt. Ég fer bara inn í skáp og næ mér í eitthvað að vera í.“

Þegar kemur að litum segir Sigríður að henni finnist gylltur og silfraður fatnaður viðeigandi yfir hátíðina.

„Eins mæli ég með því að „poppa“ upp á fötin sín með einhverju einu í lit. Mér finnst mikilvægt að það sé ákveðin stefna í fatavali hjá fólki. Ef ég er í leðurbuxum eða einhverju grófu leyfi ég mér að vera í silkitoppi eða einhverju fínlegu að ofan. Mér finnst andstæður aðlaðandi í fatnaði og það að vera í einsleitum fatnaði leiðigjarnt.“

Hvernig finnst þér tískan á þessu ári?

„Mér finnst svo margt í gangi. Í raun allt milli himins og jarðar. Hún er svo skemmtilega fjölbreytt og mér finnst ákveðið umburðarlyndi í gangi. Við megum vera alls konar og mér finnst fólk í auknum mæli vera að klæða sig eftir eigin persónuleika í stað þess að klæða sig eftir tískustraumum.

En að sjálfsögðu hef ég verið viðloðandi tísku í árabil og sé að nú er mikið um glimmer, pallíettur, leður, kjóla og buxnadragtir í geggjuðum litum.“

Svart ekki eins vinsælt og áður

Sigríður er á því að íslenskar konur á hennar aldri hafi valið sér að vera svartklæddar í gegnum árin.

„Ég held hins vegar að það sé að breytast. Ég elska að sjá konur sem eru klæddar í takt við persónuleika sinn. Það er mest töff að mínu mati.“

Hvað keyptir þú þér síðast í fatnaði?

„Þar sem ég starfa í Kultur kaupi ég mér fatnað reglulega. Ég er ekki viss um hvað ég keypti síðast, en ég held það hafi verið skór,“ segir hún og brosir.

Hvað er uppáhalds tískumerkið þitt?

„Ég er ekki mikil merkjakona og er langt frá því að vera mjög upptekin af hátískunni. Ég elska fatnaðinn í versluninni minni og mæli með hönnuðum og vörumerkjunum þar. Svo sem sem Day, Malene Birger, Munthe, Paul Smith og Rag and Bone.“

Kúrekastígvél eru málið núna

Hvernig er skótískan?

„Kúrekastígvél eru málið núna, alveg ótrúlega flott við allt. Þau setja svip sinn á fatnaðinn.“

Þegar kemur að efnavali segir Sigríður það skipta mjög miklu máli. Sjálf er hún hrifin af bómull, silki og ull.

Sigríður hefur alltaf haft áhuga á tísku.

„Það var markmið í menntaskóla að starfa í tískuvöruverslun og fór ég að vinna í 17 hjá Svövu þegar ég var 18 ára í nokkur ár áður en ég fór í háskólanámið mitt og kom svo aftur 30 árum síðar í hlutastarf með kennslunni. Ég elska að hjálpa konum að finna á sig fatnað og finna eigin stíl. Svo vinn ég með svo frábærum stelpum í Kultur að það eitt og sér er nóg til að ég mæti aðra hverja helgi.“

Sigríður segist elska að sjá hvað konur eru fallegar á öllum aldri.

„Að sjá stílinn þeirra og hversu sáttar þær eru í eigin skinni.

Þær hugsa vel um sig og eru samkvæmar sjálfum sér í víðasta skilningi þess orðs. Það er mest sjarmerandi við konur alveg sama á hvaða aldri þær eru. Það er innra öryggi og sjálfsmildi sem skín í gegn hjá þessum konum sem ég sé langar leiðir. Það er fallegt.“