Hnjaskvagninn Knattspyrnumaður fær skutl út af vellinum.
Hnjaskvagninn Knattspyrnumaður fær skutl út af vellinum. — AFP
Fótbolti Kristján Jónsson Víðir Sigurðsson Verða tímabundnar skiptingar leyfðar í knattspyrnunni á meðan sjúkrateymi athugar afleiðingar höfuðhöggs hjá leikmanni? Sky Sports greindi frá því í gær að slíkar breytingar á reglunum væru til skoðunar.

Fótbolti

Kristján Jónsson

Víðir Sigurðsson

Verða tímabundnar skiptingar leyfðar í knattspyrnunni á meðan sjúkrateymi athugar afleiðingar höfuðhöggs hjá leikmanni? Sky Sports greindi frá því í gær að slíkar breytingar á reglunum væru til skoðunar. Samkvæmt fréttinni gæti farið svo að breytingin yrði komin í gagnið áður en lokakeppni EM karlalandsliða hefst næsta sumar.

Sérfræðingar á vegum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, telja óheppilegt að gefa læknateymi liðanna einungis þrjár mínútur til að skera úr um hvort leikmaður sem fengið hefur höfuðhögg geti haldið leik áfram eða ekki. Slíkt setji of mikla pressu á þá sem í hlut eiga og slík skoðun sé ófullnægjandi.

Í knattspyrnuheiminum hefur orðið vakning um afleiðingar heilahristings og er því farið að taka höfuðhögg alvarlega eins og í fleiri íþróttagreinum. Í ýmsum hópíþróttum eru hins vegar frjálsar skiptingar en því er ekki að heilsa í knattspyrnunni. Fyrir vikið er áhyggjuefni fyrir liðin að vera leikmanni færri á meðan athugað er hvort leikmaður gæti hafa fengið heilahristing eða ekki.

Fyrirmynd úr rugby

Hefur þetta þegar verið tekið upp í rugby-íþróttinni á Bretlandseyjum. Ef leikmaður fær höfuðhögg í leik og læknir vill meta betur stöðu hans, og hættuna á að hann hafi fengið heilahristing, má setja varamann inn á í hans stað og taka hann síðan aftur af velli ef sá sem fékk höfuðhöggið reynist í lagi.

Sky Sports segir að Alþjóðlega knattspyrnustjórnin, IFAB, sem heldur utan um regluverkið í knattspyrnunni, sé að velta fyrir sér sams konar fyrirkomulagi og það yrði notað í fyrsta skipti á EM 2020.

Samkvæmt heimildum Sky Sports verður málið tekið fyrir á árlegri ráðstefnu IFAB í Belfast næsta þriðjudag og síðan greidd um það atkvæði á þingi nefndarinnar á sama stað í lok febrúar.

Verði breytingin samþykkt, tekur hún gildi 1. júní 2020 og EM yrði þá fyrsta alþjóðlega mótið sem háð yrði samkvæmt þessum nýju reglum. Þær yrðu síðan alls staðar í gildi frá og með næsta keppnistímabili. Þá vaknar sú spurning hvort tímabundnar skiptingar verði leyfðar á Íslandsmótinu næsta sumar. Íslensku félagsliðin yrðu þá með þeim fyrstu sem myndu geta nýtt þennan möguleika. Of snemmt er að segja til um hvort það sé líklegt.

Fari svo að þessi breyting verði þá væri allt eins líklegt að hún yrði komin í gagnið við upphafi Íslandsmótsins frekar en að hér yrði miðað við 1. júní.